Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Norðlingaholt í Reykjavík í hádegi. Gul ljósin blikka þegar snjómokstursbílarnir koma úr austri og beygja inn á biðstæðið. Élin liggja í loftinu og kuldaboli krafsar í kinnar. Garparnir á bílnum koma út og taka sér matarhlé. Stoppið er stutt. Svo er aftur lagt af stað svo leiðin haldist greið. Þjóðvegirnir eru ósæðar samfélagsins og mikið er lagt í sölurnar svo þær haldist opnar.
„Nú er aðeins að létta til og við erum komnir út úr kófinu. Í morgun var blinda á fjallinu svo umferðin gekk hægt. Að minnsta kosti einn smábíll var utan vegar,“ segir Níls Bjarni Jóhannsson trukkabílstjóri.
Stórir trukkar með tennur
Níls er maðurinn sem mokar fjallið; er í liði verktakafyrirtækisins Þjótanda ehf. sem sinnir snjómokstri frá Reykjavík um Suðurlandsveg austur í Hveragerði, um Þrengslaveg niður í Þorlákshöfn. Þar svo áfram um Árborgarsvæðið og helstu vegi á Suðurlandi alveg austur undir Eyjafjöll. Því fylgir meðal annars mokstur í uppsveitum Árnessýslu þar sem eru fjölsóttir ferðamannastaðir.
Alls fimm stórir vörubílar eru nú notaðir í að sinna þjónustu frá Reykjavík og austur á Selfoss; stórir trukkar með plógtönn. Þremur bílum er gjarnan ekið í röð og þeir taka hver sína sneiðina af veginum sem eftir rennslið er spegilhrein, enda þótt fljótt geti fennt í slóðina. Allur sólarhringurinn er undir í vetrarþjónustu á Suðurlandsvegi – eins og víðar – og hvert fimm manna gengi er á 12 tíma vöktum.
„Þetta hefur verið svolítil törn að undanförnu,“ sagði Níls þegar Morgunblaðið tók hann tali í gær, þá við söluskálann í Norðlingaholti í Reykjavík. Pása var kærkomin á miðri vaktinni sem hófst kl. 04. Stjórnstöð Vegagerðarinnar leggur línurnar um hvernig starfi hvers dags skuli háttað. Sé veður meinlaust þarf ekkert að gera, en fari að snjóa, hvað þá hvessa, eru tækin ræst og allt sett í botn. Mokið meiri snjó!
Vanbúin á smábílum
„Við fengum hressilegan hvell snemma í haust svo loka þurfti Hellisheiðinni í nokkrar klukkustundir, rétt eins og gerðist aftur nú á aðfangadagskvöld og fram á annan dag jóla. Reyndar gerðist slíkt af sjálfu sér því bylurinn var alveg svartur og ekkert hægt að gera. Þetta eru aðstæður sem við í snjómokstrinum þekkjum vel en þetta er fjórði veturinn minn á Hellisheiði,“ segir Níls og heldur áfram:
„Annars má búast við öllu mögulegu í þessu starfi. Og mér finnst alltaf mjög undarlegt þegar fólk á smábílum fer vanbúið á fjallveginn, jafnvel þótt björgunarsveitarmenn standi á lokunarpósti og vari við. Þetta er algjört sjálfskaparvíti og höfuðverkur ökumanna er að ná bílunum sínum aftur upp. Þetta er ekkert sem við á moksturstækjunum skiptum okkur af né megum, svo framarlega sem fólk er óslasað. Í þessum tilvikum eiga erlendir ferðamenn stundum í hlut, en þó oftar Íslendingar sem meta aðstæður rangt.“
Ruddir vegir og rauði þráðurinn
Sú meginregla gildir um snjómokstur á vegum landsins að fjölförnustu leiðir eru ruddar allan sólarhringinn. Rauði þráðurinn er annars sá að þungi í vetrarþjónustunni fer eftir því hvenær umferðin er mest og hverjar þarfir samfélagsins eru á hverri stund. Flugáætlun, fiskflutningar, skólaakstur, vinnusókn, og svo mætti áfram telja. Samsetningin í þjóðfélagsgerðinni verður sífellt fjölbreyttari og sömuleiðis þarfir fólksins sem þarf að komast landshorna á milli í einum grænum. Þá skiptir öllu að upplýsingar um stöðu mála liggi fyrir á rauntíma, og þær eru á birtar á umferdin.is.