— Morgunblaðið/Árni Sæberg
Það er af auðmýkt og þakklæti sem ég tekst á við þau krefjandi verkefni sem fram undan eru. Það er enginn ágreiningur um mikilvægi þess að draga úr skerðingum og stíga stór skref í baráttunni gegn fátækt.

Snemma í desember sátum við „valkyrjur“ á fimmtu hæð í nýju byggingu Alþingis, Smiðju. Við höfðum óskað eftir fundi með fulltrúum fjármálaráðuneytisins. Fráfarandi ríkisstjórn hafði lagt mikla áherslu á það í kosningabaráttunni hvað hún hefði skilað góðu búi og því vorum við undirbúnar fyrir góðar fréttir af stöðu ríkisfjármála. Úti ríkti hálfgert vetrarveður í takt við tímann. Það brá svo við að áður en fundur hófst kom allnokkur titringur á herbergið. Við skrifuðum það á smá jarðskjálfta en allnokkurn þó og vel fyrir honum fundið. Þegar hins vegar þetta virtist vera samfelld skjálftahrina með reglulegu 15 mínútna bili á milli skjálfta vissum við að eitthvað skrítið væri á ferðinni.

Síðan var það staðfest að ekki væri um jarðskjálfta að ræða heldur hönnunargalla á húsinu sem olli því að fundarherbergin á fimmtu hæð titruðu í hvert sinn sem strætisvagnar eða önnur stór ökutæki óku yfir hraðahindrunina í Vonarstræti framan við bygginguna. Til gamans má geta þess að titringur þessi olli töluverðum áhyggjum þegar Volodimír Selenskí Úkraínuforseti heimsótti Ísland og fundaði með utanríkismálanefnd þingsins í sama fundarherbergi. Ekki er öll vitleysan eins.

Það er skemmst frá því að segja að fréttirnar sem sérfræðingar fjármálaráðuneytisins báru okkur voru ekki í neinum takt við digurbarkalegar yfirlýsingar fráfarandi ríkisstjórnar um hið góða bú. Afkomuhorfur ríkissjóðs eru verri en áætlað var og ekki er útlit fyrir að jafnvægi náist í ríkisbúskapnum á næstu árum nema með boðaðri ráðdeild og styrkri stjórn nýrrar ríkisstjórnar.

Fyrsta verk okkar verður að ná stöðugleika í efnahagslífi og stuðla að lækkun vaxta. Við munum ná stjórn á fjármálum ríkisins m.a. með stöðugleikareglu og stöðvun hallareksturs. Eitt af forgangsverkefnum nýrrar ríkisstjórnar verður að hagræða, einfalda stjórnsýslu og sameina stofnanir. Á sama tíma hyggst ríkisstjórnin bæta skattskil, loka glufum og fækka undanþágum í skattkerfinu. Við munum sækja auðlindagjöld, svo sem með því að endurskoða veiðigjaldið og taka upp auðlindagjald fyrir aðgang ferðamanna að náttúruperlum Íslands. Á meðan unnið er að útfærslunni verða innheimt komugjöld.

Með því að takast á við efnahagsmálin af festu sköpum við umhverfi til þess að geta styrkt aðra innviði. Til þess að tryggja framfarir í heilbrigðismálum, samgöngumálum og menntamálum þurfum við fyrst að byggja sterkan efnahagslegan grunn. Til þess að bæta verulega grunnframfærslu þeirra sem minnst hafa á næstu árum þurfum við að sýna mikla ráðdeild strax á næsta ári. Ólíkt síðustu ríkisstjórn munum við aldrei stinga höfðinu í sandinn á meðan almenningur skrapar botninn vegna skulda og himinhárra stýrivaxta. Við munum sýna aga og samstöðu í efnahagsmálum.

Augljóst er að fingrafar Flokks fólksins kemur skýrt fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Stórt skref verður stigið í baráttunni gegn fátækt strax á næsta ári með því að stöðva kjaragliðnun launa og lífeyris. Eftir langa baráttu fá öryrkjar og ellilífeyrisþegar loksins sæti við kjarasamningaborðið. Öryrkjar og ellilífeyrisþegar verða ekki skildir út undan þegar aðrar stéttir fá sínar launahækkanir. Þetta mál skiptir öryrkja miklu máli, þar sem þessi breyting bætir verulega árlegar tekjuleiðréttingar þeirra. Einnig er þetta stórt hagsmunamál fyrir eldra fólk. Mesta kjaraskerðing eldra fólks frá hruni er tilkomin vegna kjaragliðnunar. Eldra fólk sem hefur litlar aðrar tekjur en ellilífeyri lifir undir lágmarksframfærsluviðmiðum. Til dæmis eiga margar eldri konur sem störfuðu sem heimavinnandi húsmæður engin lífeyrissjóðsréttindi. Með því að tryggja að kjör þessa hóps fylgi launavísitölu munum við koma í veg fyrir að lífskjörum þeirra hraki ár frá ári. Þessi breyting mun leiða til mikillar kjarabótar fyrir lífeyrisþega. En við munum ekki stoppa þar, því það verður gripið til frekari aðgerða á kjörtímabilinu til að bæta grunnframfærslu tekjulágra lífeyrisþega umfram vísitöluþróun.

Við í Flokki fólksins munum einbeita okkur að því að ráða bót á alls konar óréttlæti sem hefur allt of lengi lifað í kerfinu. Við munum binda í lög að aldursviðbót á lífeyri öryrkja haldist ævilangt, þannig að sá sem er öryrki og verður eldri borgari lækki ekki við það í framfærslu. Við innleiðingu á nýju örorkulífeyriskerfi verður litið til þess að tryggja sjálfstæði og afkomuöryggi öryrkja. Við munum ekki refsa fólki fyrir það að vilja prófa sig áfram á vinnumarkaði. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verður lögfestur og við munum fjármagna þann fjölda samninga um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) sem gefin hafa verið fyrirheit um. Stofnaður verður aðgengis- og aðlögunarsjóður til að styrkja fatlað fólk til breytinga á húsnæði. Stutt verður við atvinnuþátttöku fatlaðra og hugað sérstaklega að stöðu fatlaðra í menntakerfinu. Svona gæti ég lengi talið. Ný ríkisstjórn mun virða vígorð alþjóðlegra samtaka fatlaðs fólks: „Ekkert um okkur án okkar!“

Eldra fólk verður ekki skilið eftir þetta kjörtímabil. Almennt frítekjumark ellilífeyris verður næstum því tvöfaldað. Það verður hækkað í skrefum upp í 60 þúsund krónur á mánuði. Tekið verður upp frítekjumark ellilífeyris vegna vaxtatekna og dregið úr skerðingum lífeyris vegna atvinnutekna. Sérstökum hagsmunafulltrúa eldra fólks verður falið að standa vörð um réttindi þess og ríkisstjórnin mun leiða þjóðarátak í umönnun eldra fólks, m.a. með fjölgun hjúkrunarrýma og með því að efla heimahjúkrun.

Í sjávarútvegi verða gerðar auknar kröfur um gagnsæi í eignarhaldi og skerpt á skilgreiningu tengdra aðila. Ríkisstjórnin mun tryggja 48 daga til strandveiða. Hafist verður handa við framkvæmd Sundabrautar og ríkisstjórnin mun rjúfa kyrrstöðu í jarðgangagerð og vinna á viðhaldsskuld í vegakerfinu. Áhersla verður lögð á jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu og annarri opinberri þjónustu, óháð búsetu. Unnið verður að eflingu fjarskiptainnviða á landsbyggðinni og frekari skref stigin til jöfnunar á dreifikostnaði raforku.

Við munum gæta samræmis við reglur nágrannaríkja á sviði útlendingamála og gera það einnig heimilt að brottvísa einstaklingum sem hlotið hafa alþjóðlega vernd ef þeir hafa framið alvarleg afbrot eða eru ógn við öryggi ríkisins.

Ég hef stiklað á stóru en hvet ykkur öll til að kynna ykkur enn frekar stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar.

Það er af auðmýkt og þakklæti sem ég tekst á við þau krefjandi verkefni sem fram undan eru. Það er enginn ágreiningur um mikilvægi þess að draga úr skerðingum og stíga stór skref í baráttunni gegn fátækt. Brennandi hugsjónir leiddu okkur áfram í stjórnarmyndunarviðræðum þar sem það sem sameinaði var svo miklum mun stærra en það sem greindi okkur að. Til hamingju með nýja ríkisstjórn, kæra þjóð. Ríkisstjórn sem þegar hefur brett upp ermar og mun ótrauð vinna verk sín að vanda.

Gleðilega hátíð og gæfuríkt nýtt ár.