Óskar Bergsson
oskar@mbl.is
Mikil ólga er í íbúum Breiðholts vegna byggingar vöruhússins við Álfabakka 2. Er umræða um að efna til undirskriftasöfnunar í mótmælaskyni.
Á facebooksíðu íbúasamtakanna Betra Breiðholts hafa margir látið í ljós reiði sína yfir því að vöruhús, kjötvinnsla og iðnaðareldhús rísi við íbúðabyggðina og lýst áhyggjum yfir mikilli umferð um áður fáfarna íbúðagötu.
Rúna Stefánsdóttir íbúi í Breiðholti hvatti til þess á facebooksíðu íbúasamtakanna að settur yrði fram undirskriftalisti til að mótmæla framkvæmdunum og sumir íbúar hafa sett fram þá skoðun að það þurfi að rífa bygginguna. Hún bendir á að það séu 17.000 fylgjendur á síðu íbúasamtakanna Betra Breiðholts.
„Er einhver sem gæti tekið að sér og hannað undirskriftalista til að mótmæla og krefjast breytinga vegna þessa skrímslis sem plantað var við hlið Búsetablokkarinnar? Það er algjört hneyksli að þessu ferlíki hafi verið plantað inni í miðri íbúðabyggð og við verðum að krefjast úrbóta og styðja við bak þessara Búsetuíbúa. Augljóst er að hver sem er getur lent í svona níðingsverki á vegum borgarinnar. Þeir vilja losna við fyrirtæki á Höfða og ætla að planta þeim í bakgarða Breiðholts,“ segir Rúna.
Spurð hvort hún ætli að standa fyrir undirskriftunum segist Rúna munu taka ákvörðun um það á nýju ári. Margir hafa tekið undir með Rúnu um mikilvægi þess að fólk standi saman og einhver taki að sér að búa til undirskriftalista.