Sviðsljós
Guðm. Sv. Hermannsson
gummi@mbl.is
Bandarískir stjórnmálamenn og þjóðarleiðtogar um allan heim hafa minnst Jimmys Carters, fyrrverandi Bandaríkjaforseta og friðarverðlaunahafa Nóbels, sem lést á heimili sínu í smábænum Plains í Georgíu á sunnudagskvöld, 100 ára að aldri. Einkum hefur verið vísað til starfa hans eftir að hann lét af embætti forseta.
James Earl Carter Jr. fæddist í Plains 1. október 1924. Faðir hans var kaupmaður og ræktaði jarðhnetur og móðir hans var hjúkrunarfræðingur á sjúkrahúsinu þar sem hann fæddist. Hann útskrifaðist úr herskóla 1946 og var í bandaríska sjóhernum næstu sjö ár, vann m.a. að þróun kjarnorkukafbáta en tók síðan við jarðhneturækt fjölskyldunnar.
Carter var kosinn á ríkisþing Georgíu árið 1963 og var kjörinn ríkisstjóri árið 1971. Hann sóttist eftir og hlaut útnefningu sem forsetaefni Demókrataflokksins og sigraði síðan Gerald Ford þáverandi forseta naumlega í forsetakosningunum árið 1976.
Bandaríska þjóðin var þá enn að jafna sig eftir áföll sem dunið höfðu yfir árin á undan, stríðið í Víetnam, Watergate-hneykslið sem leiddi til afsagnar Richards Nixons árið 1974 og djúpa efnahagskreppu. Því voru miklar vonir bundnar við Carter sem var ekki markaður af pólitískum átökum í höfuðborginni, hét því að segja bandarísku þjóðinni alltaf sannleikann og lagði áherslu á kristin gildi, réttlæti og kærleika.
Camp David hápunkturinn
Fyrstu tvö árin á forsetastóli gekk Carter flest í haginn og hann naut vinsælda meðal almennings. Hápunkturinn á ferli hans var þegar hann beitti sér fyrir að Menachem Begin forsætisráðherra Ísraels og Anwar Sadad forseti Egyptalands undirrituðu svonefnt Camp David-samkomulag haustið 1978. Árið eftir sömdu þjóðirnar tvær um frið og Egyptar viðurkenndu Ísraelsríki með formlegum hætti.
Í forsetatíð Carters tóku Bandaríkin og Kína einnig upp formlegt stjórnmálasamband. Þá lét Carter umhverfismál til sín taka, hvatti til rannsókna á sólarorku með það að markmiði að draga úr notkun á jarðefnaeldsneyti og lét m.a. setja upp sólarsellur á Hvíta húsið.
En síðari hluti kjörtímabilsins reyndist Carter erfiður, einkum eftir að hópur íranskra námsmanna réðst inn í bandaríska sendiráðið í Teheran í nóvember 1979 og tók 52 Bandaríkjamenn í gíslingu þar sem þeim var haldið í 444 daga. Bandarískir sérsveitarmenn gerðu árangurslausa og mannskæða tilraun árið 1980 til að frelsa gíslana, sem voru síðan látnir lausir sama dag og Ronald Reagan tók við embætti Bandaríkjaforseta árið eftir.
Þá sætti Carter einnig harðri gagnrýni fyrir orkukreppu sem reið yfir á árunum 1979-1980. Myndir af löngum bílaröðum við bensínstöðvar voru lengi tengdar við forsetatíð hans. Áform hans um að endurskipuleggja heilbrigðiskerfið náðu ekki fram að ganga, atvinnuleysi jókst og vextir hækkuðu.
Carter bauð sig fram í forsetakosningunum 1980 þótt stuðningur við hann meðal þjóðarinnar væri í lágmarki en hann beið afgerandi ósigur fyrir Reagan, frambjóðanda repúblikana. Í kjölfarið fylgdi 12 ára eyðimerkurganga bandaríska Demókrataflokksins í Washington og margir flokksmenn kenndu Carter um það.
Mannréttindafrömuður
Carter sagðist í upphafi forsetatíðar sinnar vilja leggja áherslu á mannréttindi og því starfi hélt hann áfram eftir að hann lét af forsetaembætti, með þeim árangri að hann var oft kallaður besti fyrrverandi forseti Bandaríkjanna. Hann stofnaði Carter-miðstöðina árið 1982 með það að markmiði að vinna að friði og mannréttindum og ferðaðist víða um heim í því skyni, m.a. til Norður-Kóreu og Bosníu. Þá sinnti hann eftirliti með kosningum og ferðaðist m.a. til Kúbu árið 2002 þar sem hann hitti Fídel Kastró og hvatti hann til að bæta mannréttindi eyjaskeggja. Carter-miðstöðin vann einnig mikið starf í baráttu gegn landlægum sjúkdómum.
Árið 2002 hlaut Carter friðarverðlaun Nóbels. Verðlaunanefndin sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem borið var lof á Carter fyrir að hafa áratugum saman reynt að binda enda á alþjóðlegar deilur með friðsamlegum hætti og stuðla að efnahagslegum og félagslegum framförum.
Carter hélt mannúðarstarfi sínu áfram fram á tíræðisaldur en árið 2015 upplýsti hann að hann hefði greinst með krabbamein í heila og hefði undirgengist geislameðferð. Hann sagði þá að þótt forsetatíð hans hefði verið hápunkturinn á pólitíska ferlinum hefði lífið eftir Hvíta húsið verið mun ánægjulegra.
Joe Biden Bandaríkjaforseti tilkynnti í gær að útför Carters færi fram á vegum ríkisins og 9. janúar yrði sérstakur minningardagur um forsetann fyrrverandi. Minningarathöfn verður í Washington en Carter verður lagður til hinstu hvílu í Plains við hlið Rosalynn eiginkonu sinnar, sem lést á síðasta ári 96 ára.
sfasfaf af a
afas af sa fas
Rosalynn, eiginkona Carters, sem starfaði með honum að mannúðarmálum, lést í nóvember á síðasta ári 96 ára að aldri.