Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
Íþróttakennarinn og knattspyrnuþjálfarinn Ólafur Magnússon byrjaði sem framkvæmdastjóri Íþróttasambands fatlaðra í ágúst 1984 og nú, rúmlega 40 árum síðar, er hann stiginn frá borði, en hann hefur verið framkvæmdastjóri á fjármála- og afrekssviði undanfarin ár. „Þetta er fínn tímapunktur til að hætta,“ segir hann og horfir stoltur og ánægður um öxl. „Ég hef eignast frábæra vini, unnið með frábæru starfsfólki innan um frábæra íþróttamenn. Fyrir það ber að þakka.“
Íþróttafélag fatlaðra í Reykjavík hóf starfsemi 1974, fleiri félög bættust við á næstu árum og Íþróttasamband fatlaðra var stofnað 17. maí 1979. Markús Einarsson var fyrsti starfsmaðurinn og þegar hann fór í framhaldsnám var auglýst hálf staða og Ólafur ráðinn. Ég átti að vera á skrifstofunni í tvo tíma á dag og dreifa „fagnaðarerindinu“ sem víðast í aðra tvo tíma.“
Nú eru fimm starfsmenn á skrifstofunni, yfir 20 aðildarfélög innan ÍF og íslenskir keppendur hafa unnið til 98 verðlauna á Ólympíumótum fatlaðra frá 1980 og þar af fengið 37 gullverðlaun auk þess sem þeir hafa fengið 119 verðlaun á Evrópu- og heimsmeistaramótum. „Við höfum unnið sleitulaust að því að kynna íþróttir fatlaðra en stærsti sigurinn er án efa sá að ekki er lengur talað um fatlaða íþróttamenn heldur íþróttamenn með fötlun,“ leggur Ólafur áherslu á.
Allir með
Að frumkvæði ÍF var verkefninu „Allir með“ (allirmed.com) hleypt af stokkunum 2023 í samstarfi við ÍSÍ og UMFÍ. Það er til þriggja ára og styrkt af þremur ráðuneytum. Ólafur segir að fólki hafi brugðið þegar í ljós kom, eftir covid, að þátttakendum 16 ára og yngri í íþróttum fatlaðra hafði fækkað mikið. „Þeir voru ekki nema 4% samanborið við 80% hjá ófötluðum,“ rifjar hann upp, en tilgangurinn með verkefninu er að gefa öllum kost á að finna íþrótt við hæfi og fá að æfa hana hjá almennum íþróttafélögum í landinu. „Þetta er lýðheilsumarkmið, sameiginlegt verkefni allrar íþróttahreyfingarinnar, og sem slíkt er það eitt það merkilegasta sem við höfum gert.“
Ólafur var ráðinn til ÍF 1984, rétt eftir að Ólympíumót fatlaðra var haldið á tveimur stöðum, í New York í Bandaríkjunum og Stoke Mandeville á Englandi. „Bandaríkjamenn treystu sér ekki til að halda Ólympíumótið í Los Angeles, þar sem Ólympíuleikarnir voru haldnir skömmu áður, og því var því skipt á tvo staði.“
Efnilegir íþróttamenn komu upp í íþróttum fatlaðra og stefnubreyting varð með komu Ólafs. „Ég kom inn með ákveðna afrekshugsun og í samráði og samvinnu við stjórn ÍF var samþykkt að keppendum yrði búin besta mögulega umgjörð með bestu fáanlegu þjálfurunum, með Ólympíumótið í Seúl í Suður-Kóreu 1988 í huga, þar sem við unnum svo tvenn gullverðlaun.“ Tónninn hafi verið gefinn og síðan hafi orðið til ákveðin gullkynslóð. „Við eignuðumst hóp af afburðaíþróttamönnum sem við héldum vel utan um og höfum haldið áfram á sömu braut.“
Það tók tíma að fá knattspyrnu kvenna viðurkennda á sama hátt og knattspyrnu karla og Ólafur segir að baráttan fyrir íþróttum fatlaðra hafi verið af sama meiði. „Í tengslum við „Allir með“ veitum við hvatastyrki til íþróttafélaga svo þau geti tekið við okkar fólki og ráðið til sín þjálfara í skamman tíma, en æfingarnar verða fljótlega sjálfbærar því foreldrar fatlaðra barna og unglinga eru tilbúnir að borga tilskilin gjöld rétt eins og foreldrar annarra ungmenna.“
Ólafur bendir á að dæmin sýni að allt sé hægt sé viljinn fyrir hendi. „Fatlaðir íþróttamenn þurfa að yfirvinna meira en aðrir til þess að verða afburðaíþróttamenn og það hefur verið mjög gefandi að sjá þrautseigju þeirra og gleði. Það er meiri gleði á Ólympíumóti fatlaðra en á Ólympíuleikum, þó alvaran sé hin sama.“ Hann hafi verið á 13 Ólympíumótum og mótin í Barcelona 1992 og Lundúnum 2012 standi upp úr. „Í Barcelona var alvöruumgjörð í fyrsta sinn, mótið var á sama stað og Ólympíuleikarnir og keppendur bjuggu í sama þorpi. Þetta var 45 daga samfelld íþróttahátíð, sem hófst með setningu Ólympíuleikanna og lauk með lokahátíð Ólympíumóts fatlaðra. Viðhorfið til alls breyttist síðan 2012, þegar Englendingar voru með fatlaða til jafns við ófatlaða í kynningum sínum og lögðu áherslu á hvað fatlaðir gætu en ekki hvað þeir gætu ekki.“