„Það eru miklar hækkanir á raforkumarkaðinum og allir bera fyrir sig að það sé orkuskortur,“ segir Guðjón L. Sigurðsson, stofnandi Liska ehf., en hann hefur unnið sem ráðgjafi í fjölmörg ár fyrir bæði sveitarfélög og Vegagerðina

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

„Það eru miklar hækkanir á raforkumarkaðinum og allir bera fyrir sig að það sé orkuskortur,“ segir Guðjón L. Sigurðsson, stofnandi Liska ehf., en hann hefur unnið sem ráðgjafi í fjölmörg ár fyrir bæði sveitarfélög og Vegagerðina.

Samkvæmt upplýsingum frá Samtökum iðnaðarins sýna niðurstöðu útboða á raforkukaupum sveitarfélaganna dæmi um allt að 55% hækkun frá september 2022. Er þá verið að tala um söluhluta raforkunnar en að sögn Guðjóns er hækkun á flutningi og dreifingu mun minni, eða um 17% að jafnaði. Bendir hann á að Veitur hafi hækkað þennan hluta 12 sinnum á höfuðborgarsvæðinu frá ársbyrjun 2022.

Guðjón segir að í útboði fyrir Kópavogsbæ í haust hafi þessi mikla hækkun verið ljós og bjóðendur gefið þá skýringu að þeir væru að kaupa orku á miklu hærra verði en áður og gætu ekki boðið betur. „Hins vegar kom það mér verulega á óvart hversu mikill verðmunur var á milli tilboða, en hæsta tilboðið var upp á 18,88 kr. á kílóvattstund meðan það lægsta var 11,47 kr. á kílóvattstund. Þetta er mjög mikill munur. Þá fannst mér sérkennilegt að aðeins þrjú fyrirtæki tækju þátt í útboðinu af þeim sjö sem eru í rammasamningi Ríkiskaupa á þessum markaði.“

Guðjón bendir á að sveitarfélög gætu sparað hundruð milljóna króna með því að skipta alfarið yfir í LED-lýsingu götuljósa. Ef öll götuljós á landinu, um 105 þúsund lampar, væru með LED-lýsingu væri árlegur sparnaður 1,4 milljarðar kr. Búið sé að skipta um helmingnum út og árlegur sparnaður því um 700 milljónir.

Hafnarfjörður hefur lokið við sína LED-væðingu, Kópavogur er langt kominn og Garðabær hyggst klára dæmið á næstu þremur árum. Um 67% götuljósa í Reykjavík eru með LED-perur.