Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Uppsetningu útveggja á nýjum meðferðarkjarna Landspítalans við Hringbraut er nær lokið. Fyrir vikið er endanlegt útlit hans komið í ljós.
Gunnar Svavarsson, framkvæmdastjóri Nýs Landspítala ohf., segir vinnu við uppsetningu útveggjaeininganna hafa hafist 1. desember 2023. Hinn 10. desember síðastliðinn hafi orðið þau tímamót að útveggjaeining númer 4.000 var sett upp.
Litáíski útveggjaverktakinn Staticus sér um hönnun, framleiðslu og uppsetningu á útveggjum meðferðarkjarnans.
„Uppsetningin er á áætlun en ljúka átti verkinu fyrir áramótin. Því er nær lokið en eins og oft vill verða eru innansleikjur fram undan í janúar. Þegar mest var voru um 80 starfsmenn frá fyrirtækinu við verkið. Við erum því búin að loka húsinu og erum að fara að hefja vinnu við innanhússfrágang á 5. og 6. hæðinni,“ segir Gunnar um stöðu verksins.
Gunnar útskýrir svo að alls séu 4.080 útveggjaeiningar í meðferðarkjarnanum en þær myndi stærsta hlutann af „veðurhjúp“ kjarnans. Samtals verði útveggjaklæðningin um 30 þúsund fermetrar en það er Íslandsmet.
Nýi meðferðarkjarninn verður um 70 þúsund fermetrar og er áformað að byggingin verði tilbúin á síðari hluta árs 2028 og að starfsemi geti hafist á síðari hluta árs 2029. Jafnframt er verið að byggja fleiri byggingar á svæðinu.
Meðferðarkjarninn skiptist í fimm turna eða stangir sem tengdir eru saman með millibyggingum. Byggingin er átta hæðir og eru þar af tvær í sameiginlegum kjallara fyrir allt húsið. Turnarnir eru jafn háir nema miðjuturninn sem er tveimur hæðum lægri.