Nú heilsum við nýju ári og kveðjum það liðna. Við áramót gefst tilefni til að staldra við, líta yfir farinn veg og huga að framtíðinni.
Hvert og eitt eigum við sérstæða upplifun af árinu sem senn er á enda og mismunandi væntingar til þess næsta. Margt eigum við þó sameiginlegt með öllum Íslendingum – sem er mikils vert og bindur okkur saman sem þjóð.
Við stöndum frammi fyrir stórum verkefnum. En með því að stilla saman krafta okkar, með vongleði og kjark í brjósti, er ég fullviss um að við getum náð miklum árangri í nánustu framtíð.
Nýtt upphaf
Árið 2024 gekk tæplega helmingur jarðarbúa til lýðræðislegra kosninga til landstjórnar. Íslendingar kusu til embættis forseta og til Alþingis. Kosningaþátttaka var góð. Fólkið valdi nýjan forseta og ný ríkisstjórn tók til starfa fyrir 10 dögum.
Við þökkum fyrrverandi forseta, Guðna Th. Jóhannessyni, fyrir störf hans í þágu lands og lýðs. Þá er fráfarandi ríkisstjórn þakkað fyrir að standa sína vakt við stjórn landsins á síðustu árum.
Ljóst er að niðurstöður þingkosninga þann 30. nóvember voru sögulegar á marga lund. Þjóðin valdi nýtt upphaf. Það var alls ekki sjálfgefið þó að ákall um breytingar hafi um nokkurt skeið hljómað hátt og snjallt, vítt og breitt um land.
Þetta ákall endurspeglast í hreinum stjórnarskiptum sem ekki eru algeng í íslenskum stjórnmálum. Þrír flokkar standa að nýrri ríkisstjórn sem ekki voru áður í stjórn. Samfylking sigraði í kosningunum en árangur Viðreisnar og Flokks fólksins var ekki síður markverður, meðal annars í ljósi þess að það eru tiltölulega nýir stjórnmálaflokkar, báðir stofnaðir vorið 2016. Þessir þrír flokkar fengu allir sterkt umboð til breytinga og samanlagt ríflega meirihluta atkvæða.
Breytt Samfylking
Stundum verða breytingar fyrr en flesta hefði grunað. En slíkt á sér þó jafnan aðdraganda.
Tvö ár eru liðin frá því að ný forysta var kjörin á landsfundi Samfylkingar og saman ákváðum við þar að breyta flokknum til að breyta íslenskum stjórnmálum. Þetta gerðum við – með því að fara aftur í kjarnann, færa okkur nær fólkinu í landinu og sameinast um stóru línurnar.
Tilgangurinn var þó ekki að komast í ríkisstjórn. Það er aðeins áfangi á leið okkar að því markmiði að breyta Íslandi í þágu hins almenna manns – þannig að hagkerfi okkar og velferðarþjónusta virki betur fyrir venjulegt fólk í daglegu lífi.
Samfylking er komin aftur á réttan stað sem breiðfylking jafnaðarfólks og burðarflokkur í ríkisstjórn. Það er ágætur upphafsreitur að nýrri vegferð.
Nú hefst vinnan
Ný ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins gengur nú samstiga til verka. Við höfum einsett okkur að standa undir væntingum fólks um breytingar í veigamiklum málaflokkum, líkt og rakið er í stefnuyfirlýsingu stjórnarinnar.
Nú hefst vinnan. Fyrsta verk er að ná stöðugleika í efnahagslífi og lækkun vaxta með styrkri stjórn á fjármálum ríkisins. Um leið hyggst ríkisstjórnin rjúfa kyrrstöðu og vinna að aukinni verðmætasköpun í atvinnulífi.
Á fyrsta vinnudegi nýs árs munum við efna til víðtæks samráðs við almenning um hagsýni í ríkisrekstri. Þá verður gripið til aðgerða til að bæta skattskil, loka glufum og fækka undanþágum í skattkerfinu.
Í ríkisstjórn er full eining um að ekki verði eytt um efni fram. Það er lykilatriði. Þó verður ráðist hratt í ákveðin viðfangsefni í velferðarmálum sem ekki kosta mikið fé. Gripið verður til bráðaaðgerða til að setja húsnæðisöryggi fólks í forgang og séð til þess að meðferðarúrræði vegna fíknivanda þurfi ekki að hætta starfsemi á sumrin, svo dæmi séu nefnd.
Með þessari stefnu má vænta þess að vextir lækki þegar líður á næsta ár. Heimili og fyrirtæki munu njóta þess þegar í stað. Og eftir því sem vænkast hagur strympu þá skapast svigrúm til að vinna að öðrum áherslumálum, eins og að lyfta greiðslum almannatrygginga til örorku- og ellilífeyrisþega og styrkja heilbrigðis- og velferðarþjónustu um land allt. Þá leggur ríkisstjórnin sérstaka áherslu á að stytta biðtíma eftir nauðsynlegri þjónustu fyrir börn og ungmenni.
Þétt með þjóðinni
Þó að gengið verði rösklega til verka er nauðsynlegt að það sé gert af virðingu. Huga þarf að viðhorfum þeirra sem greiddu atkvæði sitt til flokka sem nú standa utan ríkisstjórnar eða jafnvel utan Alþingis.
Ég heiti því að leggja mig fram um að gegna embætti forsætisráðherra í þágu allra landsmanna.
Fjöldi fólks tók þátt í breytingum og undirbúningi Samfylkingar, með beinum og óbeinum hætti, á opnum fundum með almenningi í bakaríum, menningarsölum, alþýðuhúsum, félagsheimilum og á vinnustöðum. Þar var ekki spurt um flokksskírteini manna heldur einungis leitað að rauðum þræði og góðri samleið.
Á sama hátt hyggst ný ríkisstjórn leiða breytingar við stjórn landsmála. Við munum vinna þétt með þjóðinni og leitast við að sætta ólík sjónarmið.
Ærin verkefni
Við vitum að tækifæri Íslands eru stórfengleg. Við vitum líka að verkefnin eru ærin og blasa hvarvetna við okkur. En við ætlum að takast á við vandamálin í sameiningu og leysa þau eftir fremsta megni.
Síðustu ár hafa verið mörgum erfið – svo sem vegna faraldurs, eldsumbrota í Grindavík og síðast en ekki síst vegna stöðu efnahagsmála, verðbólgu og hárra vaxta.
Á sama tíma hefur grafið um sig tilfinning meðal þjóðarinnar um að velferðarkerfið okkar – gersemi og þjóðarstolt þess samfélags sem við höfum byggt hér upp – standi ekki lengur undir eðlilegum og réttmætum væntingum fólksins. Og þetta er ekki aðeins tilfinning heldur blákaldur veruleiki margra, sem ekki verður skýrður á brott með vísun í opinberar hagtölur.
Þó er staða Íslands góð í alþjóðlegu samhengi. Við megum þakka fyrir að búa við frið og velsæld. En það eru viðsjárverðir tímar á alþjóðavísu og því fylgja alvarleg viðfangsefni fyrir stjórnvöld, hérlendis eins og annars staðar.
Vonir glæðast
Allt hefur sinn tíma. Nú gengur í hönd tími breytinga á Íslandi. Því er gleðilegt að finna vonir glæðast og sjá að sú tilfinning birtist einnig í mánaðarlegum mælingum Gallup á væntingum landsmanna.
Ég mun leitast við að tala af hreinskilni um þau verkefni sem við stöndum frammi fyrir. Það verður ekki allt auðvelt – en við höfum skyldum að gegna, gagnvart hvert öðru, landi og þjóð. Ég trúi því af heilum hug að saman getum við tekist á við hvern þann vanda sem að okkur steðjar og það skulum við gera. Höldum áfram að sækja fram og styrkjum og varðveitum það sem við eigum hérna saman.
Ég óska landsmönnum öllum gæfu á nýju ári og hamingju með hækkandi sól.