Við áramót lítum við bæði yfir farinn veg og til framtíðar. Það er mikilvægt að þetta fari saman. Við byrjum ekki frá grunni. Allt sem á undan er gengið bjó til þá stöðu sem við vinnum úr á nýju ári og sýnir okkur hvað þarf að vernda og hverju þarf að breyta.
Ég óttast að við séum ekki nógu dugleg að læra af reynslunni og metum ekki sem skyldi það sem skilaði okkur þeim gæðum sem við búum að.
Fullveldið
Höfum við sömu trú á sjálfstæði íslensku þjóðarinnar, menningu hennar og tungumálinu og Fjölnismenn höfðu eða Baldvin Einarsson þegar hann gaf út Ármann á Alþingi árið 1829? Það ár voru Íslendingar sárafátæk 50 þúsund manna þjóð í heimi þar sem sjálfstæði þjóða var undantekning.
Þegar þjóðfundurinn var haldinn árið 1851 mótmæltu Jón Sigurðsson og fulltrúar Íslands allir. Þeir tóku ekki í mál að Ísland yrði innlimað í Danmörku þrátt fyrir að þeir fengju fyrir vikið sex sæti á danska þinginu um leið og Alþingi yrði endurvakið sem amtsráð. Þá voru Íslendingar um 60 þúsund.
Árið 1874 hafði þýsku og ítölsku löndunum verið steypt saman í eitt ríki með góðu eða illu og Austurrísk-ungverska keisaradæmið hafði myndað nýtt ríki úr fjölda ólíkra þjóða. Það ár kom Kristján IX. Danakonungur til Íslands til að afhenda okkur eigin stjórnarskrá. 70 þúsund Íslendingar í harðbýlu landi lengst norður í hafi létu sér það ekki nægja. Þeir vildu ráða sínum málum sjálfir og taka ábyrgð á afleiðingunum.
Höfum við enn sömu trú og Íslendingar höfðu árið 1918 þegar nokkur nýlenduveldi réðu stærstum hluta heimsins en 90 þúsund manna fátæk en óhrædd þjóð var sannfærð um að hún ætti að vera fullvalda, taka eigin ákvarðanir og spjara sig sjálf?
Lýðræðið
Fullveldi er nátengt lýðræði. Hvort tveggja snýst um að þjóðir ráði sér sjálfar. Þær gera það ekki nema valdið til að ákveða hvert skuli stefna liggi raunverulega hjá fólkinu sem myndar þjóðina. Embættismenn, nefndir og stofnanir gegna oft mikilvægu hlutverki en það er ekki þeirra að fara með valdið og allra síst ætti það að vera hlutverk erlends kerfisræðis. Land sem skuldbindur sig til að taka við erlendri löggjöf og tilskipunum býr hvorki við fullt sjálfstæði né fullt lýðræði.
Þeir sem telja að betra sé að ókjörnir embættismenn í öðrum löndum hafi vit fyrir okkur hafa hvorki trú á fullveldinu né lýðræðinu. Það ber ekki vott um mikið sjálfstraust að telja það okkur fyrir bestu að fylgja reglum sem settar eru út frá hagsmunum annarra í stað þess að við tökum ákvarðanir út frá okkar þörfum og aðstæðum.
Við verðum líka að velta fyrir okkur hvort tengsl kjósenda við valdið og ákvarðanatöku hafi rofnað að því marki að almenningur hafi ekki lengur það vald sem honum er ætlað í lýðræðisríki.
Þjóðin
Hvers vegna töldu Íslendingar mikilvægt að þeir fengju að ráða sér sjálfir og töldu svo eðlilegt að valdinu yrði skipt jafnt á milli allra Íslendinga sem hefðu aldur til? Það byggðist á því að við litum á okkur sem afmarkaðan hóp aðskilinn frá öðrum. Við værum ein þjóð. Þess vegna gat hver Íslendingur sætt sig við að pólitískir andstæðingar innan hópsins hefðu áhrif á stjórn landsins fremur en samherjar utan hans.
Það er í raun kraftaverk að íslenska þjóðin skuli hafa varðveist sem einn hópur með sameiginlega tungu og menningu innan sömu náttúrulegu landamæra í á annað þúsund ár og það er verðmætara en við getum gert okkur í hugarlund.
Á því byggist meðal annars samkennd og samstaða og almennur vilji til að veita öllum tækifæri og standa með þeim sem hallar á en einnig getan til þess.
Margir hafa bent á að sterkt velferðarkerfi og opin eða lek landamæri fari ekki saman. Þessu eru aðrar Norðurlandaþjóðir loks að átta sig á eftir bitra reynslu. Það er mikil synd að íslensk stjórnvöld skuli ekki hafa gert sér grein fyrir mikilvægi þess að hafa stjórn á því hverjir bætast í hópinn og að gera kröfur til þeirra um að aðlagast því samfélagi sem fyrir er.
Fólk hefur flust til landsins víða að úr heiminum og orðið fullgildir Íslendingar, orðið fjölskyldumeðlimir og vinir þeirra sem fyrir voru og gert samfélaginu mikið gagn. En þegar of margir flytjast til landsins of hratt og stjórnvöld telja jafnvel að samfélagið eigi að laga sig að þeim koma frekar en öfugt getur niðurstaðan aldrei orðið góð. Slíkt er engum til gagns og afleiðingarnar verða aldrei aftur teknar.
Þegar samfélag er eins lítið og hið íslenska geta hlutir farið úrskeiðis mjög hratt. Það er skylda okkar við kynslóðir liðinna alda, þær sem þraukuðu, byggðu upp landið og varðveittu þjóðina, og einnig við kynslóðir framtíðarinnar, að varðveita samfélagið.
Framtíðin
Er hætta á því að við séum farin að líta á árangur aldanna sem sjálfgefinn? Að framrás tímans muni óhjákvæmilega leiða til framfara og óþarfi sé að vernda sérstaklega afrek kynslóðanna?
Eftirgjöf þess sem vel hefur reynst er oft afleiðing vanrækslu, því að missa sjónar á samhengi hlutanna og tengslin við söguna. Oftar en ekki fer eftirgjöfin fram í skrefum, stundum án þess að fólk taki eftir því en oft með vísan í að aðstæður séu breyttar og því gildi ekki lengur það sama og áður.
Höfum við vilja til að varðveita fullveldið, lýðræðið og þjóðina? Ef svo er þurfum við nú að sýna það í verki. Við þurfum líka að leyfa okkur að ræða þessi mál af fullri alvöru. Umræða um þessi grundvallarmál, fortíð og framtíð þjóðarinnar, einkennist eins og önnur stjórnmál samtímans um of af umbúðamennsku og ímyndarpólitík. Þess hefur jafnvel orðið vart að reynt sé að gera lítið úr afrekum fortíðar. Meira að segja tungumálið sjálft hefur orðið að fórnarlambi misskilins „rétttrúnaðar“.
Megum við bera gæfu til að ræða þessi mál af alvöru á nýju ári og gera það sem þarf til að vernda fullveldið, lýðræðið og þjóðina.
Í hvatningarskyni er við hæfi að líta til ljóðs Davíðs Stefánssonar frá þeim tíma þegar íslenska þjóðin hafði fulla trú á sjálfri sér og framtíðinni. Sjá, dagar koma:
Sjá, dagar koma, ár og aldir líða
og enginn stöðvar tímans þunga nið.
Í djúpi andans duldir kraftar bíða.
Hin dýpsta speki boðar líf og frið.
Í þúsund ár bjó þjóð við nyrstu voga.
Mót þrautum sínum gekk hún, djörf og sterk.
í hennar kirkju helgar stjörnur loga,
og hennar líf er eilíft kraftaverk.