Frumkvöðlar Læknar eru í fastri áhöfn þyrlna Gæslunnar og myndin er tekin við stofnun sveitar þeirra árið 1986. Felix þriðji frá vinstri.
Frumkvöðlar Læknar eru í fastri áhöfn þyrlna Gæslunnar og myndin er tekin við stofnun sveitar þeirra árið 1986. Felix þriðji frá vinstri.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Einstök fyrirmynd, frábær læknir, mikill fagmaður og góð manneskja. Einn af þessum sem gera allt fyrir sjúklingana. Þetta eru lýsingar sem Felix Valsson svæfinga- og gjörgæslulæknir fær frá samstarfsmönnum sínum nú þegar hann hefur látið af störfum á Landspítala eftir áratuga starf

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Einstök fyrirmynd, frábær læknir, mikill fagmaður og góð manneskja. Einn af þessum sem gera allt fyrir sjúklingana. Þetta eru lýsingar sem Felix Valsson svæfinga- og gjörgæslulæknir fær frá samstarfsmönnum sínum nú þegar hann hefur látið af störfum á Landspítala eftir áratuga starf. Læknir sem leitar sífellt nýrrar þekkingar, er einnig sagt. Kemur með nýjungar inn í starfsemina, hugsar út fyrir boxið og gengur án hiks inn í aðstæður og gerir sitt besta. Árangurinn er stundum kraftaverki líkastur.

„Eftir útskrift úr læknadeild fór ég að vinna á bráðamóttöku á skurðdeild Landakots og við svæfingar og gjörgæslu á Borgarspítala. Þá varð ekki aftur snúið með val á sérgrein,“ sagði Felix þegar hann ræddi við Morgunblaðið á dögunum.

Margir leggjast á eitt í flóknum aðgerðum

Eftir störf sem unglæknir fór Felix í sérnám í svæfinga- og gjörgæslulækningum við Sahlgrenska sjúkrahúsið í Gautaborg í Svíþjóð. Hann sérhæfði sig í svæfingum og gjörgæslulækningum með áherslu á svæfingar við hjartaaðgerðir. Lauk doktorsprófi frá Gautaborgarháskóla 1996 og eftir 12 ár á Sahlgrenska kom Felix til starfa á Landspítala við Hringbraut í byrjun árs 1997.

„Svæfinga- og gjörgæslulækningar eru í mínum huga skemmtilegasta sérgreinin, svo fjölbreytt er hún. Við sem á þessu sviði erum erum eins og kónguló í vef; komum að flestum bráðatilfellum á spítalanum, til dæmis endurlífgun, svæfingum við aðgerðir og vinnu á gjörgæsludeildum þar sem veikustu sjúklingarnir eru meðhöndlaðir. Slík vinna er áskorun en gefandi þegar vel gengur,“ segir Felix og heldur áfram:

„Læknirinn gerir aldrei neitt einn: teymisvinna er mikilvæg og í flóknum aðgerðum þurfa margir að leggjast á eitt. Einnig koma læknar í mínu fagi gjarnan að starfi utan sjúkrahússins. Sjálfur var ég til dæmis í fyrstu þyrlusveit lækna, sem var stofnuð 1986. Ferðir með þyrlum Landhelgisgæslunnar voru margar. Þá var ég í eitt ár starfandi á Sjúkrahúsinu á Akureyri sem umsjónarlæknir sjúkraflugsins sem gert er út að norðan. En nú, rétt að verða sjötugur, setti ég punkt og hægi á ferðinnni eftir samtals 42 ár á læknavakt og þar af um 30 á Landspítala.“

Sögulegt sjúkraflug

Frá löngum ferli segir Felix mörg tilvik og aðgerðir lifa í minningunni. Atvikin þegar vel tókst til séu þau sem hann vilji halda til haga. „Atvikin þegar eitthvað fór úrskeiðis settu þunga á sálina. En margt er eftirminnilegt, maður lifandi,“ segir Felix og bætir við:

„Mér er minnisstætt þegar við Ari Halldórsson, síðar brjóstholsskurðlæknir í Bandaríkjunum, og Margrét Ásgeirsdóttir hjúkrunarfræðingur fórum árið 1985 í sjúkraflug til London með þá landsþekktan þingmann. Við vorum öll kornung þarna og ég í mínu eftirminnilegasta sjúkraflugi sem urðu mörg bæði innan- og utanlands. Þetta var fyrir tíma hjartaaðgerða á Íslandi, sem byrjuðu 1986. Sjúklingurinn var með opið bringubein og gat á ósæðinni. Þurfti að komast til London í hjartaaðgerð. Við flugum með gamla Fokkernum frá Landhelgisgæslunni og lentum bókstaflega í öllu sem getur gerst og ekki gerst í sjúkraflugi. Flugið til London var langt vegna eftirhreyta af fellibyl á Atlantshafi, tæki urðu batteríslaus á fyrsta hálftímanum, mikil blæðing var hjá sjúklingnum eftir harkalega lendingu í Gatwick, óeirðir í London þar sem múrsteinum var kastað í sjúkrabílinn. Ævintýraleg ferð. En þingmaðurinn komst lifandi heim.“

Önnur mjög sterk minning Felix er um dreng sem drukknaði í Breiðholtslaug í Reykjavík.

„Hann var sá fyrsti sem við björguðum eftir drukknun með því að nota ECMO-vél. Svo núna síðast björgun tveggja drengja sem voru í hjartastoppi í um tvær klukkustundir en þeir voru í bíl sem lenti í Hafnarfjarðarhöfn 17. janúar 2020. Þetta var einstakt mál á margan hátt,“ segir Felix um atvikið.

Kælingin verndaði drengina

Þrír drengir, allir vel innan við tvítugt, voru í bíl þegar hann fór út af svonefndri Óseyrarbryggju. Einn komst upp af sjálfsdáðum en hinum tveimur var bjargað af kafarasveit slökkviliðs eftir að hafa verið í um 30 mínútur í köldum sjó. Á vettvangi var reynd endurlífgun á piltunum og svo farið með þá á bráðamóttöku. Þar náðust þeir ekki úr hjartastoppi og endurlífgun var haldið áfram með hjartahnoði. Vitað er að ef ekki er gefið hjartahnoð byrja óafturkræfar breytingar á heila strax eftir fimm mínútur við eðlilegan líkamshita. Kæling getur aftur á móti verið verndandi fyrir heilann, þegar blóðflæði til hans stöðvast í hjartastoppi. Hversu lengi er þó ekki vitað. Ástand þeirra var því tvísýnt þegar Felix tók af skarið um aðgerðir. Ákveðið var að setja þá á títtnefnt ECMO, það er að láta vélina vinna fyrir bæði hjarta og lungu.

„Ég kallaði til hjarta- og lungnavélasérfræðinga og tvo hjartaskurðlækna, þá Sigurð Ragnarsson og minn góða vin Gunnar Mýrdal. Hann kom til hjálpar þó að hann sjálfur væri orðinn veikur. Þetta var í síðasta skipti sem við Gunni unnum saman. Ótrúleg hetja sem lést ungur seinna sama ár. En um drengina er það að segja að útlitið var ekki gott því sýrustig í líkama þeirra var orðið mjög lágt. Í raun ætti enginn að geta lifað af þrjátíu mínútur í hjartastoppi án hjartahnoðs. Ískaldi sjórinn hjálpaði þó til. Drengirnir voru orðnir verulega kaldir, um 26 gráður. Var síðan haldið köldum í tvo sólarhringa á ECMO og þá hitaðir varlega upp. Drengirnir voru á öndunarvél í nokkra sólarhringa og smám saman fóru þeir að hjarna við,“ segir Felix og heldur áfram:

„Að sjá þessa drengi vakna aftur til lífs er ein af stærstu og gleðilegustu minningum mínum úr starfinu. Ég vil samt undirstrika að þetta hefði aldrei tekist nema af því margt og raunar allt fór saman. Svo var alveg frá því kafarar og sjúkraflutningamenn komu á vettvang, svo í aðgerðum á bráðamóttöku og loks á gjörgæsludeild. Svo eiga þessir drengir líka frábærar og sterkar fjölskyldur. Stórkostlegt fólk. Slíkt skiptir sköpum. Og nú nokkrum árum síðar veit ég að drengjunum farnast vel og eiga bjarta framtíð.“

„Mikið var þetta gaman“

Þótt föstu starfi á deild sé lokið segir Felix margt fram undan hjá sér. Hann muni áfram starfa fyrir fræðsludeild Landspítalans; kenna þar endurlífgun og fleira. Nú verði líka meiri tími með fjölskyldu með tækifæri til að vera á skíðum, veiðum og í útivist.

„Þakklæti er mér efst í huga eftir að hafa sinnt draumastarfi svo lengi. Þakklæti fyrir að hafa tilheyrt svona sérstöku, skemmtilegu og frábærlega færu samstarfsfólki. Allt starfsfólk spítalans, læknar, hjúkrunarfræðingar, starfsmenn Landhelgisgæslu, sjúkraflutningamenn á Akureyri og um allt land. Mikið var þetta gaman!“

Gjörgæslulækningar eru fag í örri þróun

Mannlegi þátturinn mikilvægur

Svæfinga- og gjörgæslulækningar hafa frá miðri 20. öld þróast hratt þegar litið er til tækni, þekkingar og fjölda lækna. „Þegar ég byrjaði var algengt að vakthafandi sérfræðingur byrjaði vakt klukkan 7.30 og væri með tvær hjartaaðgerðir. Þær voru búnar undir kvöld ef vel gekk. Þá tók sami læknir við gjörgæsluvakt og sinnti öllu, svo sem bráðum kviðaðgerðum, keisaraskurðum og öðru. Þetta gat orðið 26 klukkustunda vinnutörn, sem er óhugsandi nú þegar orðið hafa kynslóðaskipti,“ segir Felix.

Tækjabúnaður hefur líka tekið stakkaskiptum og þar tiltekur Felix frumkvæði Odds Fjalldal og Kára Hreinssonar yfirlækna. Sjálfur kveðst hann hafa haft áhuga á þróun meðferðar með ECMO; tæki sem tekur yfir starfsemi hjarta og lungna þegar þau líffærakerfi virka ekki lengur. Þessi tækni kom við sögu í covid og bjargaði fólki með lungnabilun. Einnig nefnir Felix hve mikil breyting hafi orðið á öryggismenningu, kennslu, verkferlum og samvinnu milli stétta á Landspítala.

„En þó að framfarir í tækni, lyfjum og öðrum meðferðum séu mikilvægar þá skiptir mannlegi þátturinn samt öllu máli. Samskipti, samvinna og samhygð gagnvart samstarfsmönnum, sjúklingum og aðstandendum. Slíkt má aldrei gleymast.“

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson