— Morgunblaðið/Eggert
Sjálfstæðisflokkurinn mun byggja sig upp utan stjórnar á grunni sjálfstæðisstefnunnar með virku samtali við fólkið um allt land. Um leið ætlar flokkurinn að rækja leiðandi hlutverk sitt í stjórnarandstöðu af ábyrgð og festu, veita með því nýrri stjórn undir vinstri forystu aðhald.

Árið sem nú er á enda er ár stórra áskorana.

Í ársbyrjun blasti við að eitt af stærstu verkefnum ársins yrði að tryggja Grindvíkingum húsnæði. Eldgosum við Sundhnúksgíga hafa fylgt slíkar hamfarir að 4.000 manns, um 1% þjóðarinnar, þurftu að yfirgefa heimili sín. Innviðum sem þjóna tugum þúsunda var ógnað. Við Íslendingar stóðum frammi fyrir einni stærstu áskorun lýðveldistímans og enn er mikil virkni á svæðinu.

Atburðirnir hófust þegar samfélagið var að jafna sig eftir heimsfaraldur kórónuveiru.

Ljóst varð hversu farsælt það reyndist að byggja upp viðnámsþrótt í ríkisfjármálunum eins og ríkisstjórnirnar undanfarinn áratug gerðu. Þeim ákvörðunum var að þakka að okkur tókst að takast á við áföllin.

Baráttan gegn verðbólgunni og fyrir lægri vöxtum var í forgangi á árinu. Ánægjulegt var að sjá vaxtalækkunarferlið hefjast og aðgerðir til að ná tökum á verðbólgunni skila árangri. Halda þarf áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið.

Ný ríkisstjórn tekur við góðu búi. Staða ríkissjóðs er sterk, langtímahorfur í hagkerfinu góðar og skuldahlutföll hófleg. Þrátt fyrir áföllin hefur afkoman undanfarin ár farið langt fram úr spám og allar forsendur eru fyrir mjúkri lendingu.

Á árinu fögnuðum við 80 ára lýðveldisafmæli. Stolt horfum við um öxl. Á lýðveldistímanum höfum við byggt upp landið okkar, sterka atvinnuvegi, innviði og félagslegt öryggisnet þannig að lífskjör á Íslandi mælast í fremstu röð. Hluti af sjálfsmynd Íslendinga er að standa öðrum framar þegar kemur að jafnrétti, mannréttindum og frelsi fólks til að vera það sjálft.

Lýðveldisstofnunin grundvallaðist á hreinskiptinni umræðu og lýðræðislegum kosningum. Rökræða, byggð á opnum skoðanaskiptum og skýrri framtíðarsýn, varðaði veginn til framfara. Um þessi gildi þarf áfram að standa traustan vörð.

Árið 2024 var ár kosninga. Fram fóru bæði forsetakosningar og kosningar til Alþingis. Kosningaþátttaka er mælikvarði á lýðræðislega þátttöku og gefur vísbendingar um almennan áhuga á stjórnmálum, traust til stjórnvalda og virkni lýðræðislegra ferla. Í nýlega yfirstöðnum kosningum til Alþingis og í forsetakosningunum var kjörsókn yfir 80% eða með því besta sem gerist á heimsvísu.

Dagar tveggja flokka stjórna virðast taldir. Flóknara er fyrir kjósendur að sjá ríkisstjórnarmynstur fyrir og málamiðlanir óumflýjanlegar. Kjörnir fulltrúar verða að rísa undir þeirri ábyrgð sem fylgir breyttu landslagi og greina af heilindum frá því hvaða leiðir þeir telja færar. Án þess er hætta á að traust á lýðræðislegum ferlum verði fyrir skaða.

Þó að Ísland sé friðsælt land eru blikur á lofti í ekki svo friðsælum heimi. Okkar skylda er að huga að eigin vörnum og styðja við bandamenn í vörnum sínum, rétt eins og við ætlumst til að þeir gerðu væri á okkur ráðist. Ekki er gagnkvæmt útilokandi að vera friðelskandi þjóð annars vegar og að verja þau gildi sem tilvist okkar grundvallast á hins vegar. Alþjóðavæðing veldur því að við erum óhjákvæmilega þátttakendur stríða. Í algleymi er upplýsingahernaður og áróðursstríð þar sem netárásir eru orðnar tíðari og falsfréttum er beitt skipulega í því skyni að hafa áhrif á umræðu og þannig lýðræðið sjálft.

Stríðið í Úkraínu og átökin fyrir botni Miðjarðarhafs hafa á árinu haldið áfram að minna okkur á að lífsgæði okkar Íslendinga mega aldrei teljast sjálfsögð. Barátta fyrir friði, virðingu fyrir alþjóðalögum, sjálfsákvörðunarrétti þjóða, lýðræði og mannréttindum, öllu því sem leggur grunn að tilveru og lífsgæðum Íslendinga, er ávallt okkar barátta með beinum eða óbeinum hætti, hvar sem hún fer fram.

Á ólgutímum þarf þjóðin öflugt varnar- og öryggissamstarf við vinaþjóðir. Þá þarf að leggja áherslu á sterk tengsl við önnur lönd og tryggja stuðning, samvinnu og áframhaldandi áherslu á gerð viðskiptasamninga. Með hraðri tækniþróun verða netárásir algengari og geta þær haft alvarleg áhrif á tæknilega innviði landsins.

Í október tók ég erfiða ákvörðun um að slíta ríkisstjórnarsamstarfi. Samstarfi sem hafði gengið vel að mörgu leyti og er einstakt í sögu þriggja flokka stjórna. Að mínu mati var þó komið að leiðarlokum. Boðað var til kosninga í lok nóvember og háð snörp kosningabarátta.

Úrslit kosninganna sýndu að hér eins og víða annars staðar er hart sótt að stjórnarflokkum, ekki síst þeim sem hafa lengi verið við völd, og nýir, oft óreyndir flokkar, geta komist að.

Niðurstöður kosninganna sýndu styrk Sjálfstæðisflokksins, sjálfstæðisstefnan hélt velli og flokkurinn átti sterkan varnarsigur. Þótt niðurstöður kosninganna sýni sögulega lægð munaði aðeins einu prósenti á fylgi flokksins og þess sem flest atkvæði fékk. Góður upptaktur var í kosningabaráttu flokksins og fylgið vaxandi fram á síðustu stundu. Úr þessari stöðu eru mikil sóknarfæri fyrir Sjálfstæðisflokkinn ef rétt er á málum haldið.

Niðurstöður kosninganna skila ríkisstjórn með litla reynslu. Einn stjórnarflokkanna byggir ekki á lýðræðislegu fyrirkomulagi.

Sjálfstæðisflokkurinn mun rísa undir sinni ábyrgð og beita reynslu og styrkleikum sínum af þunga í stjórnarandstöðu. Okkar stefna byggir á því að trúa á kraftinn í fólkinu sem hér býr. Öllu skiptir að sköpuð séu jöfn tækifæri fyrir alla til að skapa sér bjartari framtíð. Hið opinbera á allt undir því að kraftmikil verðmætasköpun eigi sér stað á Íslandi svo fjármagna megi skólastarf, heilbrigðisþjónustu, félagslegt öryggisnet og uppbyggingu innviða. Styðja þarf óhikað áfram við sjálfbæra nýtingu auðlindanna, bæði í hafi og á landi. Þróun lífskjaranna helst í hendur við getu okkar til að skapa verðmæti og tryggja samkeppnishæfni landsins.

Stefnuyfirlýsing nýrrar ríkisstjórnar hjálpar lítið til þess að skilja hvað blasir við þeim sem eru úti í atvinnulífinu og þurfa hvatningu, stuðning og tækifæri til að geta skilað sterku og blómstrandi atvinnulífi. Erindrekar hins opinbera verða allsráðandi en skortur er á fólki sem þekkir af eigin raun lögmál atvinnurekstrar og mikilvægi hvetjandi umhverfis.

Við lok samfelldrar stjórnarsetu Sjálfstæðisflokksins frá árinu 2013 er mér efst í huga þakklæti fyrir það traust sem okkur hefur ítrekað verið sýnt.

Undanfarinn rúmur áratugur hefur verið mikið umbreytingarskeið í íslensku samfélagi. Við losuðum um höft og greiddum úr eftirmálum falls fjármálafyrirtækjanna með framúrskarandi hætti fyrir þjóðarbúið. Skuldastaða heimila, fyrirtækja og hins opinbera hefur gjörbreyst til hins betra, komnar eru nýjar og traustar stoðir fyrir verðmætasköpun og hugverkadrifinn iðnaður sækir fram. Samfélagið allt hefur vaxið og dafnað á flestöllum sviðum og okkur Íslendingum fjölgað. Enn erum við í sókn þrátt fyrir að hafa tekist á við einhverjar mestu áskoranir lýðveldistímans.

Sjálfstæðisflokkurinn mun byggja sig upp utan stjórnar á grunni sjálfstæðisstefnunnar með virku samtali við fólkið um allt land. Um leið ætlar flokkurinn að rækja leiðandi hlutverk sitt í stjórnarandstöðu af ábyrgð og festu, veita með því nýrri stjórn undir vinstri forystu aðhald.

Ég óska landsmönnum öllum farsæls og gleðilegs nýs árs.