Magnaðir Magnús Eiríksson og Pálmi Gunnarsson.
Magnaðir Magnús Eiríksson og Pálmi Gunnarsson. — Morgunblaðið/Ófeigur
Ljósvaki ætlar ekki að eyða mörgum orðum um þá skrítnu ákvörðun RÚV að sýna heimildarmynd á jóladagskvöldi um Johnny King kántrísöngvara. Kannski er það vegna þess að færa þurfti frumsýningu á þáttunum um Vigdísi fram yfir áramót

Björn Jóhann Björnsson

Ljósvaki ætlar ekki að eyða mörgum orðum um þá skrítnu ákvörðun RÚV að sýna heimildarmynd á jóladagskvöldi um Johnny King kántrísöngvara. Kannski er það vegna þess að færa þurfti frumsýningu á þáttunum um Vigdísi fram yfir áramót. Hvað sem veldur þá var þetta slæm tímasetning. Nær hefði verið að sýna frábæra tónleika til heiðurs Magnúsi Eiríkssyni tónlistarmanni, sem voru á sömu stöð að kvöldi annars dags jóla.

Upptakan sú var úr Hörpu 1. desember, á degi íslenskrar tónlistar, en á tónleikunum fékk Magnús þakkarorðu fyrir framlag sitt til tónlistar, fyrstur íslenskra tónlistarmanna, en hér eftir verður orðan afhent 1. desember ár hvert á vegum Tónlistarráðs. Það var vel við hæfi að byrja á Magnúsi, sem samið hefur margar perlurnar um ævina. Hógvær maður hann Magnús en frábær gítarleikari, laga- og textasmiður.

Tónleikarnir voru hrein unun á að horfa og valinn maður í hverju rými. Fremstur þar að sjálfsögðu Pálmi Gunnarsson, sem fylgt hefur Magnúsi í tónlistinni nánast frá upphafi ferils þeirra. Pálmi líklega sjaldan verið betri söngvari en nú, og hvað þá að plokka bassann.

Gaman að sjá tvo af þremur sonum Magnúsar í hljómsveitinni og söngvaravalið var einstaklega vel heppnað. Hreint mögnuð tónlistarveisla.

Höf.: Björn Jóhann Björnsson