England
Víðir Sigurðsson
vs@mbl.is
Hákon Rafn Valdimarsson, landsliðsmarkvörður í knattspyrnu, bættist um jólin í hóp þeirra Íslendinga sem hafa leikið í efstu deild karla á Englandi.
Hann kom þá inn á sem varamaður í fyrri hálfleik hjá Brentford í leik gegn Brighton á útivelli, spilaði í 54 mínútur auk uppbótartíma og hélt marki Lundúnaliðsins hreinu í markalausu jafntefli.
Hákon leysti af hólmi hollenska landsliðsmarkvörðinn Mark Flekken, sem fór meiddur af velli, og gæti spilað sinn annan leik á morgun, nýársdag, þegar Brentford fær Arsenal í heimsókn.
Þar með hefur 21 Íslendingur leikið í þessari sterku deild, allt frá því Albert Guðmundsson varð fyrstur til þess árið 1946.
Lengi vel var það fjarlægur draumur að spila með ensku liði, enda þótt Íslendingar hafi fylgst grannt með fótboltanum frá Englandi um áratugaskeið.
Reglur um erlenda leikmenn voru mjög strangar og fram eftir síðustu öld þurftu þeir að vera búsettir á Englandi í tvö ár áður en þeir fengu keppnisleyfi með ensku liði. Árið 1978 var því loks breytt með reglum Evrópusambandsins en til ársins 1995 voru samt talsverðar hömlur á fjölda þeirra í hverju liði fyrir sig.
Þá kom hin svokallaða Bosman-regla til sögunnar og frá 1995 hafa dyrnar staðið opnar á Englandi, en leikmenn þurfa þó að uppfylla skilyrði um landsleiki til að fá atvinnuleyfi í landinu.
Íslensku leikmennina í efstu deild Englands má sjá á listanum hér til hliðar og við skulum fara yfir þá í tímaröð:
1 Albert Guðmundsson
Fremsti knattspyrnumaður Íslands frá 1945 til 1955 fékk ekki frekar en aðrir atvinnuleyfi á Englandi en mátti spila tvo leiki með Arsenal í efstu deild sem áhugamaður. Hann lék auk þess marga vináttuleiki með félaginu en hélt síðan til Frakklands.
2 Sigurður Jónsson
Heilum 39 árum síðar varð Skagamaðurinn ungi fyrstur til að fá atvinnuleyfi sem knattspyrnumaður á Englandi árið 1985 og lék með Sheffield Wednesday í fjögur ár í deildinni. Hann var seldur til Arsenal en náði aðeins að spila átta leiki þar vegna meiðsla og lék of fáa leiki tímabilið 1990-91 til að fá verðlaunapening þegar Arsenal varð meistari.
3 Guðni Bergsson
Valsmaðurinn kom til Tottenham frá Val í desember 1988 og lék 71 leik í deildinni með Lundúnaliðinu. Hann átti síðan farsælan feril með Bolton, og lék þar í átta ár, fjögur þeirra í úrvalsdeildinni, og var fyrirliði liðsins um skeið. Guðni lék 202 leiki í úrvalsdeildinni og 140 í B-deildinni.
4 Þorvaldur Örlygsson
Brian Clough, goðsögnin hjá Nottingham Forest, sótti Þorvald til nýkrýndra Íslandsmeistara KA haustið 1989 og setti hann nánast strax í byrjunarlið hjá sér. Þorvaldur var í röðum Forest í fjögur ár en lék síðan með Stoke og Oldham í B- og C-deildunum í sex ár.
5 Hermann Hreiðarsson
Crystal Palace krækti í Eyjamanninn frá ÍBV árið 1997 og hann lék á næstu 13 árum 332 leiki í deildinni með Palace, Wimbledon, Ipswich, Charlton og Portsmouth. Það er leikjamet Íslendings í deildinni en hann lék auk þess 109 leiki í neðri deildunum. Hermann varð bikarmeistari með Portsmouth árið 2008, eini Íslendingurinn sem hefur spilað úrslitaleik og sigrað.
6 Arnar Gunnlaugsson
Skagamaðurinn og núverandi Víkingsþjálfarinn kom til Bolton frá Sochaux í Frakklandi árið 1997. Hann lék þar í eitt ár í deildinni og var síðan í röðum Leicester í fjögur ár en var lánaður til Stoke í C-deild hluta tímans.
7 Jóhann Birnir Guðmundsson
Keflvíkingurinn fór með Watford upp í úrvalsdeildina vorið 1999 og spilaði níu leiki með liðinu næsta vetur en fór síðan til Noregs.
8 Heiðar Helguson
Dalvíkingurinn var keyptur til Watford í ársbyrjun 2000 frá Lilleström í Noregi og sló strax í gegn með því að skora gegn Liverpool, Manchester United og Arsenal. Hann skoraði 28 mörk á fimm tímabilum með fjórum liðum í deildinni og gerði auk þess 87 mörk í 1. deild á þeim 13 árum sem hann lék á Englandi.
9 Eiður Smári Guðjohnsen
Chelsea keypti Eið af Bolton sumarið 2000 og hann átti sex góð ár með Lundúnaliðinu þar sem hann skoraði 54 mörk í 186 leikjum í úrvalsdeildinni. Þar varð hann enskur meistari 2005 og 2006 og vann deildabikarinn með liðinu 2005. Eftir dvöl hjá Barcelona og Mónakó sneri Eiður aftur til Englands og lék með þremur félögum í úrvalsdeildinni, Tottenham, Stoke og Fulham, árin 2010 og 2011 en fór þaðan til Grikklands. Eiður skoraði 23 mörk í 80 leikjum fyrir Bolton í B-deildinni áður en hann fór til Chelsea.
10 Þórður Guðjónsson
Skagamaðurinn var í láni hjá Derby frá Las Palmas á Spáni á lokaspretti tímabilsins 2000-01 og skoraði eitt mark í tíu leikjum.
11 Lárus Orri Sigurðsson
Varnarjaxlinn frá Akureyri var búinn að leika 282 deildarleiki á níu árum í B- og C-deild á Englandi þegar hann fór upp með WBA vorið 2002, spilaði 29 leiki í úrvalsdeildinni, en féll með liðinu strax vorið eftir.
12 Jóhannes Karl Guðjónsson
Skagamaðurinn lék meira og minna á Englandi í níu ár og spilaði 202 leiki í B- og C-deild en náði 32 leikjum í úrvalsdeildinni með Aston Villa, Wolves og Burnley.
13 Ívar Ingimarsson
Stöðfirðingurinn lék 405 deildaleiki á Englandi frá 1999 til 2012. Hann lék með Reading í átta ár og fór með liðinu upp í úrvalsdeildina vorið 2006. Þar var hann í lykilhlutverki með liðinu í tvö ár, spilaði 72 af 76 leikjum Reading og var oft fyrirliði.
14 Brynjar Björn Gunnarsson
Vesturbæingurinn lék í tólf ár á Englandi, sjö þeirra með Reading og tvö í úrvalsdeildinni en hann spilaði alls 327 leiki í þremur efstu deildum Englands.
15 Grétar Rafn Steinsson
Siglfirðingurinn kom til Bolton frá AZ Alkmaar í Hollandi árið 2008 og var fastamaður sem hægri bakvörður í fjögur ár í úrvalsdeildinni. Einn af sex Íslendingum sem hafa spilað yfir 100 leiki í deildinni.
16 Eggert Gunnþór Jónsson
Eskfirðingurinn kom til Wolves frá Hearts í Skotlandi í árslok 2011 en fékk aðeins tækifæri í þremur leikjum í úrvalsdeildinni.
17 Gylfi Þór Sigurðsson
Hafnfirðingurinn kom fyrst í úrvalsdeildina hjá Swansea í láni frá Hoffenheim í Þýskalandi í ársbyrjun 2012 og sló í gegn. Tottenham keypti hann um sumarið en Swansea keypti hann af Tottenham 2014 og Gylfi er markahæstur í sögu Swansea í efstu deild með 34 mörk. Hann var tvisvar valinn leikmaður ársins hjá Swansea. Everton keypti Gylfa fyrir um 40 milljónir punda árið 2017 og þar lék hann í fjögur ár. Gylfi er markahæstur Íslendinga í deildinni með 67 mörk og næstleikjahæstur með 318 leiki, auk 42 leikja í B-deildinni.
18 Aron Einar Gunnarsson
Akureyringurinn kom til Cardiff frá Coventry árið 2011 og lék með liðinu í átta ár, tvö þeirra í úrvalsdeildinni. Hann á að baki 393 deildaleiki á Englandi, 51 þeirra með Cardiff í úrvalsdeildinni.
19 Jóhann Berg Guðmundsson
Blikinn kom til Burnley frá Charlton sumarið 2016 og lék með liðinu í átta ár, sjö þeirra í úrvalsdeildinni. Hann er fimmti leikjahæstur Íslendinga í deildinni með 162 leiki.
20 Rúnar Alex Rúnarsson
Arsenal keypti KR-markvörðinn af Dijon í Frakklandi í september 2020. Hann lék aðeins einn leik í deildinni, gegn Wolves í febrúar 2021.
21 Hákon Rafn Valdimarsson
Markvörðurinn frá Seltjarnarnesi er nýjasti Íslendingurinn í deildinni, kom til Brentford frá Elfsborg í Svíþjóð í janúar 2024.