Guðmundur Sv. Hermannsson
gummi@mbl.is
Algengustu dánarorsakir karla á árinu 2023 voru sjúkdómar í blóðrásarkerfi og þar á eftir voru krabbamein. Hjá konum var algengasta dánarorsökin krabbamein en sjúkdómar í blóðrásarkerfi voru næstalgengastir, að því er kemur fram í nýjum Talnabrunni landlæknisembættisins.
Ytri orsakir áverka og eitrana, þ.m.t. slys og sjálfsvíg, voru algengustu dánarorsakir fólks undir 35 ára en sjúkdómar í blóðrásarkerfi voru algengustu dánarorsakir fólks yfir áttræðu.
Árið 2023 létust 2.575 einstaklingar sem höfðu lögheimili á Íslandi við andlát, 1.378 karlar og 1.197 konur. Heildardánartíðnin var 679 látnir á hverja 100.000 íbúa, 710 hjá körlum og 646 hjá konum. Hlutfall látinna undir sjötugu var 25% af heildarfjölda látinna, 28% hjá körlum og 21% hjá konum, sem er svipað meðaltali síðustu tíu ára.
Landlæknisembættið segir að ef horft sé til annarra Norðurlandaríkja megi sjá að aldursstöðluð dánartíðni á Íslandi sé svipuð og í Noregi og Svíþjóð en hún sé nokkru hærri í Danmörku og Finnlandi, einkum vegna hærri dánartíðni karla.
Dánartíðni hér á landi hefur lækkað jafnt og þétt síðasta áratuginn ef árið 2022 er undanskilið en þá hækkaði dánartíðnin nokkuð. Segir landlæknisembættið að það megi að mestu rekja til fjölda andláta vegna COVID-19, sem voru alls 213 á árinu. Dánartíðnin lækkaði aftur árið 2023, einkum hjá konum.
Á árinu 2023 létust 39 einstaklingar hér á landi með skráð lögheimili erlendis. Í hópi erlendra ferðamanna voru algengustu dánarorsakirnar sjúkdómar í blóðrásarkerfi (41%) og ytri orsakir (36%) svo sem slys tengd samgöngum.
Í Talnabrunninum er einnig gerð grein fyrir algengustu dánarorsökum á árinu 2023. Flestir karlar létust úr blóðrásarsjúkdómum (27,7%) en innan þess flokks eru blóðþurrðarhjartasjúkdómar, m.a. hjartaáföll, og sjúkdómar í heilaæðum, m.a. heilaslag. Flestar konur létust úr æxlum (26,6%), langoftast illkynja æxlum eða krabbameinum. Krabbamein voru annar stærsti flokkur dánarorsaka hjá körlum (26,2% andláta) og blóðrásarsjúkdómar annar stærsti flokkurinn hjá konum (25,1% andláta).
Samkvæmt nýjustu tölum frá Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, voru sjúkdómar í blóðrásarkerfi leiðandi dánarorsök í Evrópu með tæplega þriðjung dauðsfalla (31,4%) og, eins og á Íslandi, voru krabbameinin í öðru sæti (21,6%).
Í aldurshópnum 0-34 ára voru ytri orsakir áverka og eitrana algengasta dánarorsökin á tímabilinu, um helmingur 616 andláta. Undir ytri orsakir falla meðal annars slys og önnur óhöpp, eitranir og sjálfsvíg. Á þessum aldri dóu fleiri karlar (58%) en konur (33%) af ytri orsökum. Á aldrinum 35-64 ára dóu flestir úr æxlum (40%) og er hlutfallið nokkru hærra hjá konum (55%) en körlum (31%).
Lág umframdánartíðni vegna COVID-19
Skráning andláta vegna COVID-19 var samræmd á alþjóðavísu árið 2020 til þess að auðvelda samanburð milli landa. Alls létust 47 einstaklingar með skráð lögheimili hér á landi vegna COVID-19 árið 2023, 24 karlar og 23 konur. Af þeim 47 sem létust voru tveir undir sextugu, 14 á aldrinum 60-79 ára og 31 (66%) var 80 ára eða eldri.
Vísindatímaritið Lancet birti nýlega úttekt á umframdánartíðni vegna COVID-19 á tímabilinu 2020-2023, en umframdánartíðni er mælikvarði á hærri dánartíðni á skilgreindu tímabili miðað við það sem búast hefði mátt við miðað við meðaltal undangenginna ár. Í greininni kemur fram að aldursstöðluð umframdánartíðni vegna COVID-19 var næstlægst á Íslandi á þessu tímabili, eða 1,95/10.000 íbúa. Tíðnin var lægst í Svíþjóð, 1,82/10.000 íbúa, og meðaltal landa í Norður-Evrópu var 6,60/10.000 íbúa.
Ótímabær dauðsföll
Tíðni ótímabærra dauðsfalla er hluti af lykilvísum heilbrigðisþjónustu sem birtir eru á vef landlæknis. Þar er í fyrsta lagi birt tölfræði um dauðsföll vegna heilbrigðisvanda sem hefði mátt koma í veg fyrir. Í grófum dráttum eru það dauðsföll sem verða hjá einstaklingum undir 75 ára aldri vegna skilgreindra sjúkdóma sem mögulega hefði mátt koma í veg fyrir með árangursríkum lýðheilsuaðgerðum og forvörnum. Í öðru lagi eru birt dauðsföll hjá fólki undir 75 ára aldri vegna tiltekinna sjúkdóma sem hefði mátt koma í veg fyrir með tímanlegri og árangursríkri heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt báðum mælikvörðum eru ótímabær dauðsföll færri á Íslandi á hverja 100.000 íbúa en að meðaltali á Norðurlöndum.