Frumkvæðisathugun Vegna kvartana og ábendinga sendi umboðsmaður Alþingis fyrirspurn um aðkomu almennings að skipulagsákvörðunum.
Frumkvæðisathugun Vegna kvartana og ábendinga sendi umboðsmaður Alþingis fyrirspurn um aðkomu almennings að skipulagsákvörðunum. — Morgunblaðið/Karítas
Settur umboðsmaður Alþingis sendi Skipulagsstofnun bréf í desember 2020 vegna kvartana og ábendinga um að málsmeðferð sveitarfélaga í skipulagsmálum væri ekki í samræmi við réttarþróun og markmið skipulagslaga um aðkomu almennings

Óskar Bergsson

oskar@mbl.is

Settur umboðsmaður Alþingis sendi Skipulagsstofnun bréf í desember 2020 vegna kvartana og ábendinga um að málsmeðferð sveitarfélaga í skipulagsmálum væri ekki í samræmi við réttarþróun og markmið skipulagslaga um aðkomu almennings. Umboðsmaður óskaði eftir því að bréfinu yrði svarað fyrir 1. mars 2021. Skipulagsstofnun svaraði umboðsmanni 21. mars 2023, rúmum tveimur árum seinna en umboðsmaður óskaði eftir.

Frumkvæði umboðsmanns

Í umfjöllun Morgunblaðsins um vöruhúsið við Álfabakka 2 kom fram að umboðsmaður Alþingis hefði með frumkvæðisathugun sent fyrirspurn til Skipulagsstofnunar um hvernig staðið var að kynningu á deiliskipulagsbreytingu við Álfabakka 2. Hið rétta er að umboðsmaður sendi almenna fyrirspurn til Skipulagsstofnunar um hvernig sveitarfélög standi að deiliskipulagsbreytingum sem eigi að tryggja að samráð sé haft við almenning þannig að gefið sé tækifæri til að hafa áhrif á ákvörðun stjórnvalda. Einnig var spurt um hæfi sveitarfélaga til að veita sjálfu sér framkvæmdaleyfi.

Skipulagsstofnun dró saman í svari sínu annars vegar starfsmannabúðir við Hvalárvirkjun og hins vegar svar um hæfi sveitarfélaga til að veita sjálfu sér framkvæmdaleyfi. Í báðum tilvikum er vísað til þeirrar leiðar að vísa málum til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Einnig var beðist afsökunar á því hversu seint umboðsmanni var svarað og því borið við að forstjóraskipti hefðu orðið á tímabilinu.

Settur umboðsmaður tók fram í bréfinu að hann myndi á grundvelli svarsins taka afstöðu til þess hvort tilefni væri til þess að hann tæki umrædd atriði til frekari athugunar að eigin frumkvæði. Í svari umboðsmanns Alþingis til Morgunblaðsins fyrir jól kom fram að nýlega hefði verið ákveðið að hefja ekki efnislega athugun að svo stöddu en áréttað að í því fælist engin afstaða.

„Því er þannig haldið opnu að þessi atriði geti komið til athugunar hjá umboðsmanni,“ segir í svari umboðsmanns Alþingis.