Sigurður Guðjónsson
Sigurður Guðjónsson
Tollar og viðskiptahindranir mögulega í uppsiglingu – hvað getum við Íslendingar gert?

Sigurður Guðjónsson

Segja má að nær óslitið tímabil aukinna alþjóðaviðskipta frá lokum heimsstyrjaraldarinnar síðari hafi rofnað með Brexit og kjöri Donalds Trumps árið 2016. Við valdatöku Joes Bidens var þessari þróun ekki snúið við heldur bætt í ef eitthvað er, t.d. núna síðast með háum tollum á rafmagnsbíla frá Kína. Þá hafa aðilar Evrópusambandsins fylgt Bandaríkjamönnum að málum, þó í minna mæli.

Við höldum að sjálfsögðu inn í nýja árið full bjartsýni. Samt er ekki hægt að líta fram hjá því að komandi valdataka Trumps gæti þýtt frekari aukningu á tollum, einkum á kínverskar vörur, í minna mæli á evrópskar og þá mögulega á íslenskar vörur einnig.

En af hverju ættum við að hafa áhyggjur af mögulegum auknum tollum og verndarstefnu í alþjóðahagkerfinu sem gæti bitnað á okkur Íslendingum? Í fyrsta lagi valda tollar og viðskiptahindranir óhagræði fyrir hagkerfið í heild. Þegar tollar eru lagðir á vörur hækkar verð þeirra, sem hefur áhrif á bæði framleiðendur og ekki síst neytendur. Hærra vöruverð, minna framboð og hækkandi verð með aukinni verðbólgu er sviðsmynd sem gæti birst okkur sem afleiðing. Auknir tollar og verndarstefna geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir litlar þjóðir eins og Ísland sem eru háðar miklum inn- og útflutningi. Hins vegar hefur sagan sýnt að afnám tolla og fríverslunarsamningar hafa almennt aukið velmegun þjóða. Sem dæmi má nefna fríverslunarsamning Íslands og Kína sem höfundur rannsakaði ásamt nokkrum félögum norðan heiða.

Í annan stað geta tollar og aukin verndarstefna endað með ósköpum, samanber kreppuna miklu á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar. Aukin verndarstefna í kjölfar heimskreppunnar miklu dýpkaði kreppuna sem átti þátt í auknum pólitískum óstöðugleika með uppgangi öfgaafla sem svo endaði með stærstu styrjöld veraldarsögunnar. Hér er dregin upp einföld mynd af flókinni sögu en vert er að hafa í huga þátt hagstjórnarmistaka og tollaverndar sem áttu a.m.k. þátt í þessu hræðilega stríði, þó er höfundur ekki að spá neinu slíku fyrir framtíðina.

En hvað geta Íslendingar gert ef upp kemur almennt tollastríð í heiminum sem bitnar á okkur Íslendingum? Þrennt ber að hafa í huga:

Vera í góðum samskiptum við viðskiptaþjóðir okkar eins og Bandaríkjamenn og semja um tollaleysi eða a.m.k. að lágmarka mögulega tolla.

Falla ekki í þá gryfju að setja refsitolla á þá sem setja á okkur tolla, slíkt gerir hlutina enn verri.

Taka samtalið á breiðum grundvelli hér innanlands með öllum hagsmunaaðilum. Þó að tollar séu almennt skaðvaldur fyrir þjóðfélög í heild geta þeir gagnast sérhagsmunaöflum og fyrirtækjum þeirra. Við sem þjóðfélag verðum að passa að slík öfl og viðhorf þeirra verði ekki ofan á í umræðunni.

Höfundur er dósent í fjármálum við Háskóla Íslands.

Höf.: Sigurður Guðjónsson