Marcus Rashford var á ný valinn í leikmannahóp Manchester United fyrir leik liðsins gegn Newcastle í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöld. Knattspyrnustjórninn Rúben Amorim hafði haldið honum utan hóps í síðustu fjórum leikjum, þremur í deildinni og einum í deildabikarnum. Leiknum var ekki lokið þegar Morgunblaðið fór í prentun en fjallað er um hann á mbl.is/sport/enski.
Eydís Magnea Friðriksdóttir úr Karatefélagi Reykjavíkur og Þórður Jökull Henrysson úr Aftureldingu hafa verið valin karatefólk ársins 2024 af stjórn Karatesambands Íslands. Þau urðu bæði Íslandsmeistarar í sínum flokkum og náðu góðum árangri á mótum erlendis.
Ingvar Dagur Gunnarsson, 18 ára leikmaður handknattleiksliðs FH, leikur ekki meira á þessu tímabili. Hann ökklabrotnaði á æfingu með U19 ára landsliðinu fyrir jólin en handbolti.is skýrði frá þessu. Ingvar hefur tekið þátt í öllum fjórtán leikjum FH í úrvalsdeildinni í vetur.
Íþrótta- og ólympíusamband Íslands hefur valið þrjá sjálfboðaliða úr íþróttahreyfingunni sem koma til greina í kjöri sambandsins á Íþróttaeldhuga ársins 2024. Alls bárust 353 tilnefningar um 176 einstaklinga úr 24 íþróttagreinum. Þremenningarnir eru Björg Elín Guðmundsdóttir, sem hefur starfað fyrir Val og Handknattleikssamband Íslands, Haukur Guðberg Einarsson, formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur, og Ingibergur Þór Jónasson, formaður körfuknattleiksdeildar Grindavíkur.
Aleksei Bugajev, fyrrverandi landsliðsmaður Rússlands í knattspyrnu, er látinn eftir stríðsátök í Úkraínu, 43 ára að aldri. Bugajev lék tvo leiki með Rússum á EM 2004 en hann var í haust dæmdur í níu og hálfs árs fangelsi í Rússlandi fyrir eiturlyfjasmygl. Hann óskaði eftir því að fá að afplána refsinguna með því að skrá sig í herinn.
Glódís Perla Viggósdóttir, landsliðsfyrirliði í knattspyrnu, hækkaði sig um 34 sæti á árlegum lista enska blaðsins The Guardian yfir bestu knattspyrnukonur heims. Glódís var í 75. sæti árið 2023 en er nú í 41. sætinu. Guardian segir m.a. um Glódísi að hún sé orðin einn af bestu miðvörðum í Evrópu og frammistaðan hafi skilað henni fyrstu tilnefningu til Gullboltans, Ballon d'Or, þar sem hún hafi verið aðeins önnur af tveimur miðvörðum sem þar voru tilnefndir.