Loftskeytamaður Warren Upton var 22 ára í árásinni á Perluhöfn.
Loftskeytamaður Warren Upton var 22 ára í árásinni á Perluhöfn. — Ljósmynd/Bandaríski sjóherinn
Bandaríski heimsstyrjaldarsjóliðinn Warren „Red“ Upton lést á jóladag, 105 ára að aldri. Hann var síðastur eftirlifenda úr áhöfn orrustuskipsins USS Utah (BB-31) sem Japanir sökktu í árásinni á Perluhöfn 7

Bandaríski heimsstyrjaldarsjóliðinn Warren „Red“ Upton lést á jóladag, 105 ára að aldri. Hann var síðastur eftirlifenda úr áhöfn orrustuskipsins USS Utah (BB-31) sem Japanir sökktu í árásinni á Perluhöfn 7. desember 1941. Alls fórust 58 sjóliðar og yfirmenn herskipsins en 461 komst lífs af. Þeir sem fórust festust inni í skrokki Utah þegar orrustuskipið lagðist á hliðina.

Upton var einn örfárra manna á lífi sem upplifðu árásina á Perluhöfn og þeirra elstur. Samtök áhugafólks um eftirlifendur árásarinnar segja nú einungis 15 vera enn á lífi, en þegar árásin var gerð 1941 voru alls 87 þúsund hermenn staðsettir á eynni Oahu í Havaí-eyjaklasanum þar sem finna má Perluhöfn.

Synti í land frá skipinu

Á tímum seinna stríðs var Warren Upton loftskeytamaður um borð í Utah, þá 22 ára gamall. Að morgni 7. desember 1941 lá orrustuskipið undan eyjunni Ford við Perluhöfn, en á þeim stað má á okkar tímum ósjaldan sjá flugmóðurskip Kyrrahafsflota Bandaríkjanna þegar þau eru í höfn. Á fyrstu mínútum árásarinnar lömdu nokkur tundurskeyti japanskra orrustuvéla á skrokki skipsins og tók sjór þegar að flæða inn í það. Tók það Utah einungis örfáar mínútur að leggjast á hliðina. Flestir í áhöfn náðu þó að henda sér frá borði, þ. á m. Upton.

Í blaðaviðtali við The Mercury News árið 2021, þegar liðin voru 80 ár frá árásinni, sagðist hann enn muna eftir volkinu. Minntist hann m.a. þess þegar hann deildi björgunarvesti með öðrum sjóliða og saman tókst þeim félögum að komast í land við illan leik.

Flak USS Utah hvílir enn á þeim stað þar sem skipið sökk og er það hluti af minningarreit. khj@mbl.is