María Kristjánsdóttir, leikhús- og bókmenntafræðingur, er látin, áttræð að aldri. Hún lést á Landspítalanum 27. desember. María fæddist 19. mars 1944 í Reykjavík og ólst upp í Hafnarfirði í sex systkina hópi

María Kristjánsdóttir, leikhús- og bókmenntafræðingur, er látin, áttræð að aldri. Hún lést á Landspítalanum 27. desember.

María fæddist 19. mars 1944 í Reykjavík og ólst upp í Hafnarfirði í sex systkina hópi. Foreldrar hennar voru Kristján Andrésson og Salbjörg Magnúsdóttir.

María var leikhúsfræðingur, menntuð í Leipzig og Berlín, og bókmenntafræðingur frá HÍ. María starfaði m.a. sem leikstjóri í atvinnuleikhúsi og hjá áhugaleikfélögum og stjórnaði útvarpsleikhúsinu sem leiklistarstjóri RÚV á árunum 1991-2000. Meðal leikrita sem hún leikstýrði í Þjóðleikhúsinu eru Garðveisla (1982), Súkkulaði handa Silju (1983) og Rita gengur menntaveginn (1995). Hjá Leikfélagi Reykjavíkur leikstýrði hún Er þetta ekki mitt líf? (1979) og hjá Leikfélagi Akureyrar setti hún upp Strompleikinn árið 1972.

María vann jafnframt við prófarkalestur, þýðingar og dagskrárgerð. Þá var hún leiklistargagnrýnandi á Morgunblaðinu árin 2004 til 2009.

María gegndi ýmsum trúnaðarstörfum í félagsmálum. Var formaður Félags leikstjóra á Íslandi, sat í stjórn Bandalags íslenskra listamanna, í skólanefnd Leiklistarskóla Íslands og átti um skeið sæti í stjórn leiklistarráðs. Þá starfaði hún fyrir Æskulýðsfylkinguna og Alþýðubandalagið á árunum 1960-1988.

Jón Aðalsteinsson, eiginmaður Maríu, lést árið 2017. Hann átti fjögur börn af fyrra hjónabandi og saman áttu þau eina dóttur. Jón og María lifðu og störfuðu á Fáskrúðsfirði, Húsavík, í Svíþjóð og í Reykjavík.