Þórður Sverrisson fæddist 31. desember 1954 í Reykjavík og sleit barnsskónum á Leifsgötu, rétt við Skólavörðuholtið. Þar bjó hann ásamt foreldrum og eldri systur, Ásu Steinunni, og yngri bróður, Ásgeiri. Með smá útúrdúrum endaði fjölskyldan hinum megin við holtið, á Þórsgötu, svo að hann er í raun miðbæingur að upplagi. Eftir Ísaksskóla, Æfingadeild Kennaraskólans og Hagaskóla settist hann í MR.
Á þessum árum voru áhugamál aðallega útileikir, fótbolti eða körfubolti auk ódrepandi áhuga á bílum og litlum herdátum. Miðpunktur heimsins var róló milli Bjarnarstígs og Njálsgötu. Eins og þá tíðkaðist byrjaði hann á blaðasölu í bænum ungur og náði síðan að hreppa sendilsstöðu hjá Myndamótum í Morgunblaðshúsinu við Aðalstræti sem eru honum kær sem fyrsti vinnustaður.
Eftir að hafa gert misheppnaðar tilraunir sem plötusnúður í Tónabæ fann hann sinn samastað í sorpinu. Hann var öskukall í fjölmörg sumur og eignaðist sú starfsgrein hug hans og hjarta og er svo enn. Sjálfur segir hann að sorp og sorphirða veki alltaf hlýjar minningar og ekki er laust við að honum vökni um augu þegar sorp berst í tal. Engar veit hann betri draumfarir en þegar gamall öskubíll vitjar hans í svefni og veit ætíð á gott. „Það var góður skóli að vera í öskunni og kenndi vel að vera yfir litlu trúr. Enginn skóli hefur kennt það betur.“
Á táningsárum kynntust þau Þórður og Arnfríður Ólafsdóttir. Þeim hlotnaðist sonur haustið 1974, Ólafur Arnar, skírður í höfuð móðurafa síns Ólafs Jenssonar læknis og blóðbankastjóra. Ári síðar gengu þau í hjónaband sem stendur enn. Eftir 50 ára hjónaband og hugsanlega einhver ágreiningsatriði segir Þórður að hilli undir vopnahlé og að það sé gott að eldast saman.
Eftir stúdentspróf varð læknadeild fyrir valinu og segir Þórður að námið hafi verið skemmtilegt, tímafrekt en ekki torskilið. „Í námi er alltaf ljóst að næsta ár tekur við, svo er því allt í einu lokið og maður á að heita hin endanlega afurð og dettur af framleiðslubandinu niður í lífsins óreiðu.“
Þórður útskrifaðist 1980 úr læknadeild og eyddi næstu þremur árum á Landakoti sem aðstoðarlæknir. Hann segir lærifeður þar hafa haft mikil áhrif á sig.
Eftir að hafa lokið héraðsskyldu í Laugarási í Biskupstungum byrjaði Þórður á augndeild Landakotsspítala og lauk síðan námi í augnlækningum í Bergen í Noregi. Þar bættist Ása Þórhildur í apríl 1985 við fjölskylduna. Hún var skírð í höfuð systur hans, Ásu Steinunnar, sem féll frá eftir hörmuleg veikindi aðeins 34 ára gömul. „Það er ekkert stærra brot á lögmálum lífsins en að fá ekki að fara í réttri röð og það var ólýsanlegt að horfa á foreldra okkar ganga gegnum þetta þó Ásgeir bróðir minn hafi mildað þennan tíma fyrir þau eins og mannlegur máttur leyfði,“ segir hann um andlát systur sinnar.
Þórður hefur starfað sem augnlæknir í Reykjavík frá 1987 og á augndeild Landakots og síðar Landspítala frá 1991-2007. Hann stóð að stofnun Augnlækna Reykjavíkur og starfaði þar nú allt til áramóta.
Þá stofnaði hann LaserSjón með Eiríki Þorgeirssyni augnlækni og framkvæmdu þeir laseraðgerðir á augum og síðan Eiríkur einnig augasteinsaðgerðir um árabil. Auk augnlækninga er Þórður með réttindi sem fluglæknir og stofnaði, eftir að hafa verið trúnaðarlæknir Flugmálastjórnar um árabil, Fluglækningasetrið með fleirum.
Sem fluglæknir tók hann þátt í að semja reglugerð um heilsukröfur flugmanna fyrir Evrópu og einnig með Alþjóðaflugmálastofnuninni um sjónkröfur í flugi.
Þórður starfar nú á Augnstofunni í Glæsibæ með kollega sínum, Gunnari Sveinbjörnssyni, og vonar að almættið gefi honum heilsu og þrek nokkur ár enn því að starfið sé skemmtilegt. „Maður þarf að hafa áhuga á fólki til að vera læknir. Það er á málinu tæknileg hlið en þetta byrjar alltaf með því að hlusta og taka eftir. Sókrates sagði að hin óskoðaða tilvera væri ekki þess virði að lifa henni og fjölbreytileiki okkar mannanna er óendanlegur en hann undirstrikar líka oft hversu brothætt við erum,“ segir hann.
Þórður segist vakna og vera fyrst og fremst afi hvern dag. Það sé það besta hlutverk sem honum hafi hlotnast. Hann á tvær afastelpur, Fríðu Maríu bráðum 12 ára og Heiðrúnu Eddu 3 ára, og reynir að vera hættulegi afi sem leyfir mikið og dekrar stelpurnar en þó ekki þannig að skaði hljótist af. „Það er ekkert eins yndislegt og fallegt og að leiða litla hlýja hönd, í henni eru öll fyrirheit framtíðar fólgin,“ segir hann og bætir við fegurðin hljóti að vera ein meginstoð tilveru okkar hvað sem eilífðarmálum líður.
Síðustu 20 ár eða svo hefur Þórður fengist við að lesa í enskum þýðingum frumtexta sem varðveist hafa frá fornöld. Þetta eru aðallega grískir og rómverskir textar frá 5. öld f.Kr. til 5. aldar e.Kr. Allt frá Súmer og fram til endaloka bronsaldar við austanvert Miðjarðarhaf er hans megináhugamál. Af bókum þeim sem hann hefur lesið er Heródótos í miklu uppáhaldi og hún er til í fínni þýðingu Stefáns Steinssonar. „Það er svo mikil frásagnargleði í Heródótosi og hann er svo fordómalaus og skemmtilegur að flestir munu finna eitthvað áhugavert þar. Þá finnur maður einnig tengingu að einhverju leyti við horfinn heim og að mannfólkið var alveg eins fyrir 2.500 árum. Þetta finnur maður líka í sögu Súmer sem nær ein 4.000 ár aftur í tímann. Það er eitt að ferðast með því að breyta hnitum sínum á jarðkúlunni en annað að ferðast í vídd tímans. Skemmtilegast er að sameina þetta tvennt.“
Þórður segist fyrst og fremst finna fyrir þakklæti og jafnvel tilhlökkun við þessi tímamót. „Tíminn kennir manni auðmýkt fyrir lífinu og eftir því sem maður eldist líkist maður meir sjálfum sér. Í þeim orðum er líka sátt við hið liðna og von til framtíðar.“
Fjölskylda
Eiginkona Þórðar er Arnfríður Ólafsdóttir, f. 9.11. 1953, námsráðgjafi. Fjölskyldan hefur verið búsett í Vesturbæ Reykjavíkur frá 1986. Foreldrar Arnfríðar voru hjónin Ólafur Jensson, f. 18.6. 1924, d. 31.10. 1996, og Erla G. Ísleifsdóttir, f. 20.1. 1922, d. 6.2. 2011.
Börn Þórðar og Arnfríðar eru 1) Ólafur Arnar, f. 30.10. 1974, vinnusálfræðingur, sviðsstjóri á Hagstofu Íslands, búsettur í Reykjavík. Maki: Brynhildur Aðalsteinsdóttir lögfræðingur; 2) Ása Þórhildur, f. 27.4. 1985, lögfræðingur, skrifstofustjóri atvinnuvegaráðuneytis, búsett í Reykjavík. Maki: Valgeir Haukdal Ágústsson tölvunarfræðingur.
Barnabörn eru Arnfríður María, f 13.1. 2013, og Heiðrún Edda, f. 26.7. 2021.
Systkini Þórðar: Ása Steinunn Sverrisdóttir, 19.7. 1950, d. 3.8. 1984, og Ásgeir Sverrisson, f. 7.1. 1960.
Foreldrar Þórðar voru hjónin Sverrir Þórðarson blaðamaður, f. 29.3. 1922, d. 11.1. 2013, og Petra Guðbjörg Ásgeirsdóttir húsmóðir, f. 25.10. 1924, d. 25.2. 1986. Þau voru búsett í Reykjavík.