Háski Báturinn sigldi til Kópaskers og var þar stýrt upp í sandfjöru.
Háski Báturinn sigldi til Kópaskers og var þar stýrt upp í sandfjöru. — Ljósmynd/Hörður Sigurgeirsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Svartaþoka olli því að fiskibáturinn Sigrún Hrönn ÞH-36 tók niðri þegar báturinn var á siglingu frá Raufarhöfn til Húsavíkur 27. júní síðastliðinn, að því er segir í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa (RNSA)

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Svartaþoka olli því að fiskibáturinn Sigrún Hrönn ÞH-36 tók niðri þegar báturinn var á siglingu frá Raufarhöfn til Húsavíkur 27. júní síðastliðinn, að því er segir í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa (RNSA).

Sigrún Hrönn komst af sjálfsdáðum til hafnar á Kópaskeri, en skipstjórinn segist hafa óttast um líf sitt og svo virðist sem litlu hafi mátt muna að báturinn sykki.

Minnti á hval

„Á siglingunni fyrir Sléttu var mikil þoka svo ekki sást til lands en logn. Siglingarhraði var þá um það bil 20-22 sjómílur. Að sögn skipstjóra sló hann af niður í um 10 sjómílna hraða þar sem hann ætlaði að ná í kaffi,“ segir í skýrslunni. Stuttu síðar tók hann eftir einhverju sem líktist hval fyrir framan bátinn en var of seinn að stöðva bátinn. Hvalurinn reyndist sker sem báturinn lenti á rétt norðan við Rauðanúp á Melrakkasléttu.

„Mikið högg kom á bátinn og kastaðist skipstjórinn fram á við og braut hurð í stýrishúsinu með þeim afleiðingum að hann kenndi sér meins á brjóstkassa og kvið. Hann náði að bakka bátnum af skerinu en tók þá eftir að það var kominn leki að honum og flæddi sjór inn í lúkarinn. Hann setti bátinn á fulla ferð (18-19 sml.) og setti lensidælu í gang. Báturinn var með þrjú vatnsheld hólf og taldi skipstjórinn að einungis væri að flæða inn í það fremsta.“

Þorði ekki að stoppa

Skipstjórinn ákvað að láta á það reyna að komast til hafnar á Kópaskeri en um klukkustundarsigling var þangað. Virtist lensidælan ná að eiga við innstreymi sjós eða báturinn haldast það hátt á sjónum á siglingu að ekki flæddi meira inn. Tókst að sigla til Kópaskers, en þar sem olíutankar bátsins voru fremst óttaðist skipstjórinn að sjór færi í olíuna og báturinn myndi sökkva ef hann stöðvaði hann. Sigldi hann því bátnum upp með viðlegukantinum og upp í sandfjöru.

Í skýrslu RNSA er haft eftir skipstjóranum að líklega hafi belgur undir neyðarakkeri undir bekk fremst í lúkarnum komið í veg fyrir að sjór flæddi óhindrað inn í lúkarinn. Bent er á að skipstjórinn hafi hvorki haft samband við „Vaktstöð siglinga né Neyðarlínuna en sagðist hafa verið hræddur um líf sitt og ekki hugsað skýrt. Hann hafi því einungis haft samband við föður sinn sem síðan hafði samband við lögreglu og tilkynnti um atvikið.“

Ekki viðurkennt kort

„Að sögn skipstjóra Sigrúnar Hrannar taldi hann að umrætt sker væri ekki sýnt í sjókortum en hann studdist við Time Zero kort,“ segir í skýrslunni.

Nefndin vekur athygli á því að Time Zero-kort séu alla jafna ekki viðurkennd sjókort og minnir á að á siglingu við aðstæður þar sem skyggni er lítið beri að halda sig lengra frá landi þar sem minni hætta er á skerjum.
„Ástæða þess að Sigrún Hrönn tók niðri var sigling í svartaþoku nálægt landi,“ segir í niðurstöðu nefndarinnar.

Höf.: Gunnlaugur Snær Ólafsson