Ávarp Kristrún Frostadóttir, nýr forsætisráðherra, boðar breytingar.
Ávarp Kristrún Frostadóttir, nýr forsætisráðherra, boðar breytingar. — Morgunblaðið/Karítas
Fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar er að koma á stöðugleika í efnahagsmálum og vinna að lækkun vaxta með styrkri stjórn á fjármálum ríkisins. Stjórnin mun á fyrsta vinnudegi nýs árs efna til víðtæks samráðs við almenning um hagsýni í ríkisrekstri

Kári Freyr Kristinsson

karifreyr@mbl.is

Fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar er að koma á stöðugleika í efnahagsmálum og vinna að lækkun vaxta með styrkri stjórn á fjármálum ríkisins. Stjórnin mun á fyrsta vinnudegi nýs árs efna til víðtæks samráðs við almenning um hagsýni í ríkisrekstri.

Þetta er meðal þess sem Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra sagði í sínu fyrsta áramótaávarpi.

„Því er afar mikilvægt, og gleðilegt, að ný ríkisstjórn hafi náð fullri samstöðu um að eyða ekki um efni fram. Þess í stað hyggst ríkisstjórnin hagræða og grípa til aðgerða til að bæta skattskil, loka glufum og fækka undanþágum í skattkerfinu,“ sagði Kristrún.

„Einnig verða tekin upp almenn og réttlát auðlindagjöld til að standa undir aukinni fjárfestingu í innviðum. Þetta eru mikilsverð tíðindi sem lofa góðu. Þá er brýnt að skoða ofan í kjölinn ýmsa kerfislæga þætti sem valda ójafnvægi í íslensku hagkerfi: lánamarkað, húsnæðismál og gjaldmiðil.“

Átak í umönnun eldri borgara

Kristrún sagði að kjaragliðnun launa og lífeyris yrði stöðvuð strax með því að tryggja að örorku- og ellilífeyrir hækkaði á hverju ári til samræmis við hækkun launavísitölu en aldrei minna en verðlag.

„Þá hyggst ríkisstjórnin leiða þjóðarátak í umönnun eldra fólks, meðal annars fjölga hjúkrunarrýmum og efla heimahjúkrun, og vinna að þjóðarmarkmiði um fastan heimilislækni fyrir alla landsmenn.“

Kristrún sagði ríkisstjórnina ætla að ganga rösklega til verka í orkumálum með aðgerðum til að auka orkuöflun, styrkja flutningskerfi og auka nýtni. Hún undirstrikaði að kosið yrði um aðildarviðræður að Evrópusambandinu eigi síðar en á árinu 2027.