Náttúruhamfarir Tíu eldgos á svipuðum slóðum á innan við þremur árum. Margs er að spyrja og fræðimenn í HÍ hafa lagt sig fram um að svara fólki.
Náttúruhamfarir Tíu eldgos á svipuðum slóðum á innan við þremur árum. Margs er að spyrja og fræðimenn í HÍ hafa lagt sig fram um að svara fólki. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.s

Baksvið

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.s

Að auðveldlega megi nálgast traustar og sannreyndar upplýsingar er mikilvægt fyrir allt samfélagið. Vísindi á mannamáli eru okkar leiðarljós,“ segir Jón Gunnar Þorsteinsson, ritstjóri Vísindavefs Háskóla Íslands. „Auðvitað verður hver og einn að leggja sinn eigin dóm á hvað sé satt og rétt. En þegar fræðimenn koma með pistla sem skrifaðir eru af þekkingu og studdir heimildum ætti ekki að þurfa að efast. Hægt er að stöðva umræðu sem er að fara út af sporinu, eins og stundum gerist.“

Mikið spurt um jarðfræði

Eldsumbrot, hagfræði og stjórnmál eru málefni landanum hugleikin sé ályktun dregin af því hvað var mest lesið á Vísindavefnum á nýliðnu ári. Hve hefur gosið oft á Reykjanesskaga síðan 2021 og hversu stór hafa gosin verið? Svo var spurt og því svarað af Magnúsi Tuma Guðmundssyni, prófessor í jarðeðlisfræði, auk þess sem Jón Gunnar, ritstjóri vefsins til 14 ára, átti innlegg í greininni. Sú var hin mest lesna á árinu. Ekki langt þar frá í fjölda innlita er grein eftir Pál Einarsson, prófessor emeritus í jarðvísindum, sem svaraði því hvers vegna talið var óhætt að flytja til Eyja skömmu eftir gos, meðan Grindavík er ótraust.

Hvað er starfsstjórn og hvaða reglur gilda um hana? Hafsteinn Þór Hauksson, dósent í lögfræði, svaraði því. Gylfi Magnússon hagfræðiprófessor upplýsti hvor yrði fyrri til að greiða upp jafnhá lán á sömu vöxtum, sá sem tekur verðtryggt lán eða hinn sem velur lán án verðtryggingar.

Vísindavefurinn var innlegg Háskóla Íslands þegar Reykjavík var ein af menningarborgum Evrópu árið 2000. Vefurinn hefur verið mikið sóttur alla tíð, svo sem í ritgerðarskrifum skólafólks og er líka, svo brugðið sé upp sviðsmynd, góður þegar fólk situr við eldhúsborðið og fyrir framan sjónvarpið þegar spurningar vakna. Þá er gott að geta fundið svar hið snarasta!

Heimsóknir á Vísindavefinn í ár verða samanlagt um 2,5 milljónir og flettingar enn fleiri. Heimsóknir á dag eru um 7.000 skv. IP-tölum notenda sem fletta um 9.000 síðum dag hvern. Ætlað er að 13% landsmanna heimsæki vefinn vikulega.

Virkt samtal um vísindi

Með ritstjóra starfar fagleg ritnefnd akademískra starfsmanna, skipuð til þriggja ára í senn. Í núverandi ritnefnd sitja fulltrúar frá öllum fræðasviðum skólans, en formaður er Magnús Karl Magnússon, prófessor í lyfja- og eiturefnafræði á heilbrigðisvísindasviði.

„Já, yfirleitt eru vísindamenn hér við Háskóla Íslands tilbúnir að skrifa svör ef spurningin er á sérsviði þeirra. Að koma af stað virku samtali um vísindi og fræði er einn helsti tilgangurinn með þessum vef, og það þykir mikilvægt af fólki hér sem er þó eðlilega misduglegt að gefa sér tíma í þessi skrif,“ segir Jón Gunnar. Í þessu sambandi getur hann sérstaklega tveggja fræðimanna – prófessora emeritusa. Sá fyrri er Guðrún Kvaran málfræðingur sem skrifað hefur alls 1.363 pistla um orðatiltæki, málvenjur, uppruna orða og fleira slíkt. Þá hefur Sigurður Steinþórsson berg- og jarðefnafræðingur skrifað tæplega 300 greinar á sínu sérsviði; um Heklugos, Þjórsárhraun, myndun Mývatns og hitann í kjarna jarðar, svo að nokkur dæmi séu nefnd.

„Sigurður segist vera kominn úr framlínunni og fær því stundum yngri menn til þess að lesa svör sín yfir. En þetta er líka stundum undir öfugum formerkjum; margir leita til Sigurðar eftir þekkingu. Og svona á þetta líka að vera; virkt samtal á báða bóga,“ segir Jón Gunnar. Hann getur enn fremur þess að á fyrstu árum vefsins hafi fólk í heilbrigðisvísindum stundum verið seint til þátttöku. Á síðustu misserum hafi það hins vegar komið mjög sterkt inn og megi þar nefna pistla þess um covid, þróun líftæknilyfja gegn alzheimers og skaðsemi reykinga með tengingu við krabbamein.

Á hverju ári eru á Vísindavefnum birt 350-600 svör.

„Helst aldrei minna en eitt á dag og oft fleiri. Bæði eru þetta svör við fyrirspurnum og eins greinar sem vísindamenn skrifa sjálfir. Mér finnst líklegt að á næsta ári verði með greinarskrifum vikið nokkuð að gervigreind svo og loftslagsmálum og hlýnun jarðar. Um þau efni þarf fræðslu og umræðu; samanber að vefurinn okkar góði er mikilvægt tæki til að sporna við falsfréttum og upplýsingaóreiðu. Miðla brýnni þekkingu til fólks um allt milli himins og jarðar – til allra í samfélaginu – og þar er til mikils að vinna,“ segir Jón Gunnar Þorsteinsson að síðustu.