[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Árið 2024 er nú að baki, og það er tilvalið að rifja upp eftirminnilegustu afrek ársins – sérstaklega þau sem tengjast undarlegum og skemmtilegum heimsmetum úr Heimsmetabók Guinness. K100 tók saman nokkur af furðulegustu heimsmetunum sem slógu í gegn á árinu

Rósa Margrét Tryggvadóttir

rosa@mbl.is

Árið 2024 er nú að baki, og það er tilvalið að rifja upp eftirminnilegustu afrek ársins – sérstaklega þau sem tengjast undarlegum og skemmtilegum heimsmetum úr Heimsmetabók Guinness.

K100 tók saman nokkur af furðulegustu heimsmetunum sem slógu í gegn á árinu.

Þykkasta tunga heims

Sacha Feiner frá Belgíu setti heimsmet með tungunni sinni, sem er þykkasta tunga heims með ummál upp á 17 cm. Sem betur fer virðist tungan ekki hafa áhrif á málfar hans og hann segist sjaldan lenda í því að bíta sig í tunguna. Jenny DuVander frá Bandaríkjunum á einnig metið fyrir konur, þar sem ummál tungunnar er 13,25 cm.

Lengsta ferð með graskersbát

Gary Kristensen frá Oregon skar út grasker og gerði úr því lítinn bát sem hann sigldi 73,45 km niður Columbia-ána. Með þeirri þrekraun sló hann heimsmet.

Kristensen mætti bæði sterkum vindum og óstöðugu vatni á leiðinni og lét prenta á graskerið setninguna „Já, þetta er raunverulegt“ til að svara spurningum forvitinna vegfarenda.

Flestar leikjatölvur tengdar við eitt sjónvarp

Ibrahim Al-Nasser, tölvuleikjaáhugamaður frá Sádi-Arabíu, tengdi 444 leikjatölvur við eitt sjónvarp með aðstoð yfir 30 RCA-skiptinga og meira en 12 HDMI-skiptinga.

Al-Nasser sagði að hann þyrfti að nota Excel-skjöl til að halda utan um hvaða tengikassar og breytar væru notaðir fyrir hverja tölvu.

Hæsta teygjustökk á bíl

Laurent Lasko, atvinnumaður í áhættuleikjum og kappakstri, setti heimsmet í teygjustökki á bíl þegar hann stökk með Nissan Qashqai e-Power úr 65 metra hæð.

Bíllinn var festur við teygjusteng og sveiflaðist nokkrum sinnum áður en hann stöðvaðist örugglega. Þetta met sýnir hugrekki Lasko og er sannarlega ekki fyrir þá sem eru lofthræddir!

Smæsta þvottavél heims

Sebin Saji frá Indlandi setti heimsmet fyrir smæstu þvottavél heims þegar smávélin hans var mæld: 3,25 cm á breidd, 3,35 cm á hæð og 3,86 cm á lengd – minni en Tamagotchi-leikfang.

Til að uppfylla skilyrði metsins þurfti Saji að sýna fram á að vélin væri fullvirk og gæti lokið heilli þvottaferð – þvotti, skolun og vindu.

Breiðasta hárkollan

Helen Williams, sem áður setti heimsmet fyrir lengstu handgerðu hárkolluna (351,03 metra), náði nýju heimsmeti með hárkollu sem mældist 3,63 metrar á breidd – 2,54 cm breiðari en smábíll af tegundinni Mini Cooper er á lengd.

Williams, atvinnuhárkollugerðarkona frá Nígeríu, sagði að hún hefði notað yfir 800 búnt af raunverulegu hári til að búa til þessa metkollu, sem var einnig skreytt með 1.000 gervisteinum og sett upp til sýnis á skrifstofu hennar.

Flestir hlutir sem páfagaukur greinir á þremur mínútum

Apollo, fjögurra ára afrískur grágaukur í eigu Dalton og Victoria „Tori“ Mason frá Flórída, gat nefnt 12 hluti sem honum voru sýndir á þremur mínútum.

Páfagaukurinn, sem er með nærri þrjár milljónir fylgjenda á TikTok, nefndi meðal annars bók, bjöllu, sokk, hatt og fígúru af Wario, erkióvini Super Mario.

Hraðasti hjólabrettakstur kattar

Bao Zi, bandarískur skógarköttur í eigu Li Jiangtao frá Kína, sýndi einstaka hæfileika þegar hann fór 10 metra á hjólabretti á aðeins 12,85 sekúndum.

Li, sem er hundasérfræðingur, sagði að hann hefði upphaflega fengið Bao Zi til að takast á við meindýr, en fljótlega tók hann eftir áhuga kattarins á hjólabrettakúnstum hunda. Þetta hvatti hann til að þjálfa Bao Zi sjálfan – með ótrúlegum árangri.

Stærsta bygging í laginu eins og hænsni

Campuestohan Highland Resort á Negros Occidental setti heimsmet með byggingu sem er í laginu eins og hani og nær 34,91 metra hæð.

Eigandi staðarins, Ricardo Cano Gwapo Tan, sagði að lögun byggingarinnar, sem inniheldur 15 loftkæld hótelherbergi, væri virðingarvottur við staðbundinn iðnað tengdan bardagahænsnum.

Flest hrísgrjón borðuð með prjónum á einni mínútu

Sumaiya Khan frá Bangladess sagðist hafa fengið innblástur frá kóreskri menningu og ramenréttum þegar hún ákvað að reyna við heimsmet í því að borða eitt hrísgrjón í einu með prjónum á einni mínútu.

Khan sagði að helsta áskorunin væri að tryggja að engin aukahrísgrjón festust við prjónana, en hún náði að setja metið með því að borða 37 hrísgrjón.

Öll þessi heimsmet og fjölmörg fleiri er að finna í nýjustu Heimsmetabók Guinness fyrir árið 2025. rosa@mbl.is

Höf.: Rósa Margrét Tryggvadóttir