Guðmundur Sigurðsson fæddist 1. janúar 1945 og varð því áttræður í gær. Guðmundur fæddist í Keflavík og ólst þar upp. Hann var í sveit í Skipanesi í Leirársveit.
Guðmundur gekk í Barnaskóla Keflavíkur og síðan í Gagnfræðaskóla Keflavíkur. Hann fór á sjóinn í fjögur ár. Eftir það fór hann að læra rafvirkjun og vann við það í fimm ár. Hann réð sig síðan í vinnu hjá Árna Samúelssyni og Guðnýju Ásberg í matvöruversluninni Víkurbæ en hafði auk þess unnið í Nýja Bíó í Keflavík hjá þeim.
„Árið 1976 keyptum við hjónin matvöruverslun í Vogum á Vatnsleysuströnd og rákum hana í níu ár, en á þessum tíma fóru stóru verslunarkeðjurnar að byggja matvöruverslanir í Keflavík og Njarðvík. Við það hrundi salan í verslun okkar og við sáum ekki leið úr þessu nema að prófa okkur áfram með að laga ídýfur til þess að laða okkar kúnna aftur að verslun okkar. Ídýfan varð mjög vinsæl meðal íbúa og þar sá ég möguleika á að selja hana í verslanir í Keflavík og Reykjavík.
Ég fór og talaði við innkaupstjóra Hagkaupa í Reykjavík sem spurði mig af hverju hann ætti að selja þessa vöru frá okkur. Ég sagði honum að salan hefði hrunið í okkar verslun þegar Hagkaup byggði í Njarðvík og hann sagði við mig: „Já, „if you cant beat them, join them“.“ Og Hagkaup tók inn okkar vörur. Þar með byrjaði ævintýrið með Vogaídýfu. Sigrún kona mín á heiðurinn af þessu öllu saman, því án hennar hefði Vogaídýfan ekki orðið til. Við hjónin fórum á milli verslana og kynntum okkar vöru ásamt sonum okkar í sirka tvö ár vítt og breitt um landið.“
Árið 1990 festu Guðmundur og Sigrún kaup á E. Finnsson-vörumerkinu sem framleiddi m.a. kokteilsósu, hamborgarasósu og pítusósu. „Við þessi kaup fór fyrirtækinu að ganga vel. Allan þennan tíma var framleiðslan í Vogum en eftir aldamótin byggðum við nýtt húsnæði í Hafnarfirði og fluttist framleiðslan alfarið þangað. Fljótlega eftir það fluttum við til Hafnarfjarðar.
Á þessum tíma lentum við oft í alls konar ævintýrum en eftirminnilegast er þó verkfall hjá mjólkuriðnaðinum í kringum 1990. Þá lagði ég upp í ferð í Búðardal og sótti sjálfur sýrðan rjóma, sem var okkar helsta hráefni í ídýfurnar. Á leiðinni lenti ég í ófærð, fékk hjálp frá bónda og keyrði svo aftur heim með fulllestaðan bíl. Leiðin var löng og erfið, en Vogaídýfurnar komust í verslanir án áfalla.
Ég get einnig nefnt að við reyndum fyrir okkur útrás til Svíþjóðar en það gekk því miður ekki. Reyndar seldum við sósur og ídýfur til Færeyja, sem gekk vel. Synir okkar hjóna hjálpuðu okkur í öllu þessu.
Ég vann í sjálfboðavinnu hjá SÁÁ inni á Vogi í eitt og hálft ár eftir að við seldum Vogabæ. Síðan ákváðum við, ásamt miðsyni okkar, að kaupa Kerfi fyrirtækjaþjónustu ehf. sem var til húsa í Hafnarfirði og rekum það enn í dag. Fyrirtækið sérhæfir sig í leigu á vatns- og kaffivélum ásamt sölu á kaffi, vatni og öðrum vörum á kaffistofuna fyrir stofnanir og fyrirtæki.
„Ég hef alla tíð lifað heilbrigðu lífi og eftir að við fluttum til Hafnarfjarðar hef ég stundað sund og hjólreiðar. Að lokum til gamans, þá sendi tengdamóðir mín okkur Sigrúnu þessa vísu vegna stækkunar Vogabæjar:
Gleymist þreyta og þjark í dag,
því sigri má nú hrósa.
Ídýfan er ykkar fag,
allir hana kjósa.
(GKÓ)
Fjölskylda
Eiginkona Guðmundar er Sigrún Ósk Ingadóttir, f. 28.11. 1948, framkvæmdastjóri Kerfis fyrirtækjaþjónustu. Þau eru búsett í Hafnarfirði.
Foreldrar Sigrúnar voru Ingi Gunnar Stefánsson, f. 7.8. 1918, d. 4.3. 1950, og Guðfinna Kjartanía Ólafsdóttir, f.16.9. 1923, d. 9.5. 2015. Þau voru gift og síðari maður Guðfinnu var Gunnar Erlendur Stefánsson, f. 20.2. 1920, d. 12.8. 2007. Þau giftust 1964.
Börn Guðmundar og Sigrúnar eru: 1) Guðmundur, f. 10.11. 1969, starfar sem kerfistjóri hjá Securitas. Búsettur í Hafnarfirði, fráskilinn og á eina stjúpdóttur og eina dóttur; 2) Sigurður Ragnar, f. 27.3. 1972, starfar sem framkvæmdastjóri og eigandi Kerfis fyrirtækjaþjónustu ehf. Búsettur í Hafnarfirði. Maki: Tita Valle, hjúkrunarfræðingur á Vogi. Sigurður á tvær dætur og Tita eina dóttur; 3) Ingi Guðni, f. 28.6. 1975, véltæknifræðingur en starfar sem vélstjóri á Sigurborg SH-12. Búsettur í Höfnum. Maki: Sólrún Einarsdóttir tækniteiknari. Ingi á tvö börn og Sólrún á þrjú börn. Barnabörn eru 10 og langafa/-ömmubörn eru sjö.
Systkini Guðmundar: Ólafur Jón Sigurðsson, f. 24.2. 1940, d. 11.1. 2015, rafmagnstæknifræðingur í Reykjavík; Elín Gróa Sigurðardóttir, f. 31.7. 1946, d. 16.11. 2024, leikskólakennari og aðstoðarleikskólastjóri í Reykjavík, og Aðalheiður Þóra Sigurðardóttir, f. 4.11. 1953, fyrrverandi læknaritari, búsett í Reykjavík.
Foreldrar Guðmundar voru hjónin Sigurður Ragnar Guðmundsson, f. 26.6. 1907, d. 10.12. 1977, og Ingibjörg Ólafsdóttir, f. 30.7. 1912, d. 3.9. 1983. Þau voru búsett í Keflavík til dánardags.