Lýðræði, kosningar, friðarhorfur í heimi, ofbeldismál, eldgos og framtíð Grindavíkur. Þessi efni voru áberandi í orðum sr. Guðrúnar Karls Helgudóttur biskups Íslands í Dómkirkjunni í Reykjavík í gærmorgun, í hennar fyrstu nýárspredikun í embætti.
„Ég neita því ekki að mér hefur fundist myrkrið á liðnu ári óvenjudimmt. Vandamálin eru stór og áföllin voru þung. En það er einmitt þá sem tímamót koma sér vel. Hvað tökum við með okkur úr þessum áföllum? Hvaða lærdóm viljum við draga af atburðum ársins. Upp úr áföllum síðasta árs óx nefnilega margt gott sem vekur von,“ sagði sr. Guðrún og enn fremur:
„Í kjölfar erfiðra atburða í sumar kom í ljós, einu sinni sem oftar, að þegar á reynir eigum við sem þjóð auðvelt með að sýna náunganum samkennd og okkur er sannarlega ekki sama um líðan og afdrif náungans. Þannig skapaðist til að mynda mikil umræða um líðan barna og fólks almennt hér á landi sem ég hef fulla trú á að muni leiða til góðs.“
Við getum íklæðst trúnni með því að gefa gaum að okkar eigin andlegu heilsu, rækta okkar trúarlegu þarfir og gildin sem sameina. Við getum jafnframt sett hlutina í samhengi eilífðarinnar og öðlast viturt hjarta, tiltók sr. Guðrún og sagði mikilvægt að opna á umræðu um geðheilsu.
„Við höfum verið dugleg að opna fyrir umræðu og vinna gegn fordómum og skömm þegar kemur að hinsegin fólki, kynferðisofbeldi og kynferðisáreitni. Þessum sama árangri þurfum við nú að ná í málefnum fólks með geðsjúkdóma. Þar er mikið verk að vinna.“
Á vettvangi þjóðkirkjunnar er margt fram undan, að því er biskup greindi frá. Setja á aukinn kraft í æskulýðsstarf, valdefla ungt fólk og hvetja til þátttöku. „Við biðjum fyrir friði, fyrir reisn hverrar manneskju og fyrir því að við, hvert og eitt, íklæðumst trú, kærleika, von og hugrekki og gerum það sem í okkar valdi stendur til þess að bæta heiminn sem við erum hluti af,“ sagði sr. Guðrún í predikun sinni. sbs@mbl.is