„Þetta fór býsna vel og þeir sárafáu miðar sem var skilað eftir frestunina fóru allir út aftur, svo það var troðfullt hús,“ segir Atli Gunnar Arnórsson, formaður Karlakórsins Heimis í Skagafirði, en kórinn varð að fresta áramótatónleikum sínum í Miðgarði um sólarhring vegna óveðurs og ófærðar sem skall skyndilega á um miðjan dag sl. laugardag.
Þegar útlit var fyrir að hvorki kórmenn né gestir kæmust í Miðgarð var ákveðið að fresta tónleikunum og fóru þeir fram sunnudagskvöldið 29. desember, fyrir fullu húsi líkt og Atli Gunnar nefnir.
Einsöngvarar á tónleikunum voru Þóra Einarsdóttir sópran og Snorri Snorrason tenór, sem einnig syngur í kórnum. Stjórnandi kórsins er Jón Þorsteinn Reynisson og voru þetta hans fyrstu áramótatónleikar með Heimi eftir að hann tók formlega við kórnum í febrúar 2024. Þá tók einnig við nýr undirleikari, Alexander Smári Edelstein.