Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
„Gullið mitt“, lag á Athvarfi, væntanlegri LP-plötu Bjarna Ómars Haraldssonar, kom út á streymisveitum 27. desember síðastliðinn en útgáfudagur níu laga plötunnar er þriðjudagurinn 14. janúar. Bjarni Ómar á fjögur barnabörn og hefur hann samið lög fyrir þau öll. Þrjú þeirra eru á plötunni og það fjórða verður í sérútgáfu í vor. Þetta er fjórða sólóplata hans en Athvarf með aukalagi kemur síðan út í enskri útgáfu 12. mars undir heitinu Draw Me.
Afahlutverkð er helsta þema plötunnar. „Þetta nýja hlutverk breytir lífinu töluvert og gefur því lit,“ segir Bjarni Ómar, en fyrsta barnabarnið, Bjarni Þór Arnþórsson, fæddist 14. janúar 2019 og er lagið „Gullið mitt“ tileinkað honum. „Áður en hann var skírður bað dóttir mín mig að semja lag fyrir hann og það varð síðan að hefð fyrir þau sem á eftir komu.“ Alda Guðmundsdóttir, eiginkona Bjarna Ómars og meðframleiðandi plötunnar, á afmæli 12. mars og því kemur enska útgáfan út þann dag.
Fyrri sólóplötur Bjarna Ómars eru Annað líf (1998), Fyrirheit (2008) og Enginn vafi (2018). Hann hefur tekið þátt í ýmsum tónlistarverkefnum og er gítarleikari og söngvari í hljómsveitunum Nostal, Góðum í hófi og Sífrera. „Tónlistin er skemmtilegt áhugamál og góð spennulosun á móti krefjandi verkefnum í vinnunni.“
Athvarf fyrir alla
Bjarni Ómar segir barnabörnin veita sér mikinn innblástur. „Ég kynnist þeim ungum og reyni að nýta mér það sem kemur fram í fari þeirra. Það er skemmtilegt viðfangsefni að semja til barna, sem ekki eru farin að tjá sig, og reyna að grípa einkenni þeirra og breyta í lag og texta, sem fylgir þeim um ókomna framtíð.“
Sem starfsmaður Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur Bjarni Ómar kynnst ýmsum hliðum samfélagsins og sú reynsla hefur meðal annars orðið honum að yrkisefni. „Ég fer úr barnagælunum yfir í hörðustu samfélagsmálin, tekst til dæmis á við hræðileg mál eins og heimilisofbeldi og stríð, sem endalaust koma upp. Útlendingamál hafa líka náð til mín og á plötunni er til dæmis að finna lagið „Útlendingafár“, þar sem við Ingibjörg Hinriksdóttir textahöfundur minn gerum málefninu og þjóðarrembingnum, sem einkennir málaflokkinn, skil með ákveðinni kaldhæðni og húmor. Síðan tek ég líka fyrir eldgos, hraun og innilokun enda varla hægt að komast í gegnum lífið á Íslandi án þess að jarðhræringar nái einhverjum tökum á manni. Umfjöllunarefni plötunnar er því falleg og skemmtileg blanda af fjölskyldumálum og ástinni á einum stað og hörðum og þungum samfélagsmálum hinum megin.“ Lög og textar spegli svolítið líf þeirra sem búa á Íslandi. „Annars vegar er það fegurðin á Íslandi, hvað lífið getur verið fallegt, gott og átakalítið, og svo andstæðan sem er allt þar fyrir utan. Titill plötunnar varð svolítið til út frá þessum andstæðum og þá líka mikilvægi þess að allir, hvar sem þeir standa, eigi sér athvarf.“
Öll lögin á plötunni eru eftir Bjarna Ómar. Hann er jafnframt textahöfundur ásamt nokkrum öðrum sem hann hefur fengið til liðs við sig. „Ég stefni á útgáfutónleika með vorinu og kannski samhliða á gott sveitaball.“