Ef ríkisstjórnin vinnur að uppbyggingu í stað sundrungar er bjart fram undan

Formenn stjórnmálaflokkanna sem sæti eiga á Alþingi rituðu áramótagreinar í Morgunblaðið á gamlársdag, venju samkvæmt. Þær voru fróðleg lesning og sýna margvíslegar ólíkar áherslur en um leið að öllum er þessum forystumönnum í mun að þjóðinni vegni vel, þó að leiðirnar sem þeir vilja fara séu misvel til þess fallnar að svo megi verða.

Að þessu sinni eru þrír flokkar á þingi í ríkisstjórn og aðrir þrír utan stjórnar, en þar hafa orðið alger umskipti sem kunnugt er hjá fimm þessara flokka. Það hlýtur í sjálfu sér að kalla á töluverðar breytingar þó að enn sé óljóst hversu miklar þær verða.

Formenn ríkisstjórnarflokkanna hafa talað um að stefnuyfirlýsing stjórnarinnar sé skýr, en því miður vantar töluvert upp á að svo sé og svör sem gefin hafa verið í viðtölum eða umræðuþáttum eru síst til þess fallin að skýra stefnuna. Það er því mikið verk að vinna fyrir fjölmiðla, en ekki síður stjórnarandstöðuna á þingi, að leita svara við því hvert förinni er heitið.

Forsætisráðherra segist vilja vera „forsætisráðherra í þágu allra landsmanna,“ sem er mikilvægt markmið, en þeim orðum verða að fylgja sannfærandi athafnir svo að hægt sé að taka þau alvarlega. Enginn gerir þá kröfu að forsætisráðherra fylgi stefnu sem öllum líkar, það er útilokað, en forsætisráðherra sem vill sameina þjóðina en ekki sundra byrjar ekki á því að draga fram og dusta rykið af dauðu máli sem valdið hefur miklum ágreiningi meðal þjóðarinnar.

Kristrún Frostadóttir er annar forsætisráðherra Samfylkingarinnar og fetar nú í þessi fótspor forvera síns, Jóhönnu Sigurðardóttur. Fyrir hálfum öðrum áratug kom Samfylkingin síðast að stjórn landsins og leiddi þá ríkisstjórn líkt og nú. Þá dró hún, líkt og nú, flokk sem var margyfirlýstur andstæðingur aðildar að Evrópusambandinu út í vinnu við aðildarumsókn. Upplausn varð innan þess flokks og margir hurfu frá borði en Samfylkingin hélt áfram þar til forysta hennar gafst upp á leiðangrinum, þar sem ljóst var orðið að hann myndi engu geta skilað. Síðan hefur ekkert gerst sem bendir til að breytingar hafi orðið þar á, nema síður sé.

Evrópusambandsferðalag ríkisstjórnarinnar nú er þess vegna óskiljanlegt, ekki síst fyrir Samfylkinguna, en líka auðvitað fyrir flokkinn sem ákvað að fórna þessu stórmáli sínu fyrir setu við ríkisstjórnarborðið. Einkum þegar til þess er horft að önnur stefnumál þess flokks hafa í mjög litlum mæli skilað sér inn í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þó að formaðurinn reyni að stilla málum þannig upp að nokkur árangur hafi náðst.

Jákvætt er að sjá að ríkisstjórnarflokkarnir tala um að fyrsta verkið sé að ná stöðugleika í efnahagslífinu og lækkun vaxta, en umhugsunarvert er að forsætisráðherra segir nú að með stefnu nýrrar ríkisstjórnar megi „vænta þess að vextir lækki þegar líður á næsta ár“. Nú er það svo að vextir eru þegar byrjaðir að lækka og hvernig ber að skilja þetta orðalag? Gerir ný ríkisstjórn ráð fyrir þeim möguleika að þær aðgerðir sem hún mun kynna nú í upphafi árs kunni að leiða til þess að Seðlabankinn geri hlé á vaxtalækkunum sínum og sjái til þegar líður á árið? Það væri með miklum ólíkindum ef vextir héldu ekki áfram að lækka og helst á auknum hraða eins og gera mátti ráð fyrir.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, ræðir vaxtalækkunina sem hófst í hans tíð í forsætisráðuneytinu í áramótagrein sinni og nefnir að aðgerðir til að ná tökum á verðbólgu hafi skilað árangri. „Halda þarf áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið,“ skrifar hann, og bætir við: „Ný ríkisstjórn tekur við góðu búi. Staða ríkissjóðs er sterk, langtímahorfur í hagkerfinu góðar og skuldahlutföll hófleg. Þrátt fyrir áföllin hefur afkoman undanfarin ár farið langt fram úr spám og allar forsendur eru fyrir mjúkri lendingu.“

Nú virðist af orðum forystumanna þeirra flokka sem teknir eru við stjórnartaumunum að ætlunin sé að reyna að teikna upp þá mynd að hér sé ástandið í raun mun verra í efnahagsmálum en hagtölur hafi sýnt. Þess vegna verði ekki hægt að gera allt það sem flokkarnir höfðu lofað og þá jafnvel að reynt verði að skrifa mögulegan hægagang í vaxtalækkunum eða ákvarðanir um skattahækkanir á fyrrverandi ríkisstjórn.

Verði þetta aðferðin sem ný ríkisstjórn hyggst beita verða hveitibrauðsdagarnir óvenjulega stuttir. Ríkisstjórnin tekur í meginatriðum við góðu búi sem felur í sér gríðarleg tækifæri til að byggja ofan á með áframhaldandi verðmætasköpun og vaxandi velmegun landsmanna. Til að svo megi verða þarf ríkisstjórnin að sýna skilning á undirstöðum verðmætasköpunar íslensks atvinnulífs og láta af áformum um að sundra þjóðinni um mál sem öllum er ljóst að getur engu skilað nema langvarandi og djúpstæðum átökum.