Kristín Heiða Kristinsdóttir
khk@mbl.is
Fengitíðin er mjög skemmtilegur tími og þetta hefur gengið vel núna, allar fullorðnar ær gengnar hjá mér, utan ein. Ég leita á með gamla laginu á fullorðnu ánum, en ég set lambhrútana í hjá gemlingunum og ég náði að sæða þrjátíu og eina á, þær gengu svo grimmt,“ sagði Sigurbjörn Árni Arngrímsson, skólameistari, íþróttalýsandi og sauðfjárbóndi, þegar blaðamaður sló á þráðinn til hans norður í Þingeyjarsýslu rétt fyrir jól og innti hann eftir hvernig hefði gengið hjá honum í fengitíðinni þetta árið. Sigurbjörn heldur um 108 kindur í Álftagerði þar sem móðir hans býr, en sjálfur býr hann með fjölskyldu sinni á Laugum í Reykjadal þar sem hann er skólameistari framhaldsskólans.
„Þetta er spölur, tuttugu og sex kílómetrar milli Lauga og Álftagerðis. Suma daga keyrum við einu sinni fram og til baka til að sinna fénu, eða fimmtíu og tvo kílómetra, en mjög oft fjórar ferðir, þá eru það hundrað og fjórir kílómetrar, og stundum förum við sex ferðir, eða hundrað fimmtíu og sex kílómetra. Við erum að velta fyrir okkur að kaupa búið af mömmu og flytja upp eftir í Álftagerði, því það er þægilegra að þurfa aðeins að keyra einu sinni til vinnu að Laugum heldur en oft fram og til baka á dag. Eins og títt er í búskap er alltaf eitthvað að koma upp á, sleppur kannski út hestur eða annað, og þá þarf að hlaupa til. Mamma er orðin 84 ára og þótt hún sé seig, þá tekur hún ekki ein inn nokkra hrúta til dæmis, en þeir sluppu allir út um daginn. Ég er ekki stór og mikill maður svo ég hef hrútana mína þúfugæfa og fyrir vikið er þægilegt að eiga við þá, þeir eru ekkert að hnubba í mig og hlýða mér tiltölulega vel.“
Fór að dandalast í fénu
Sigurbjörn segir að grunnurinn að fénu hans í dag sé fjárstofn afa hans, Geirs Kristjánssonar.
„Það liggur alveg aftur til fjárskiptanna í mæðiveiki um 1951, en afi og amma fóru að búa í Álftagerði um 1930. Foreldrar mínir fluttu í Mývatnssveitina 1973 og pabbi sá um búið með afa í nokkur ár, en tók við því eftir fráfall hans 1977. Ég og mín fjölskylda fluttum svo norður 2015 og þá fór ég að dandalast í fénu með pabba. Það sem ég sé mest eftir er að hafa ekki stýrt fjárbúskapnum með pabba á meðan hann var lifandi, það hefði verið gott að hafa ráðgjöf hans á kantinum. Ég fann það þegar ég hellti mér í sauðfjárbúskapinn með konu minni og bróður þegar pabbi dó 2020. Auðvitað hef ég gert einhver mistök, ég hefði getað verið fljótari með sumt. Að stofni til er féð gott, en þegar ég tók við þá var gerðin svolítið neðarlega en kynbótamatið var aftur á móti mjög hátt. Ég hugsaði með mér að sláturmatið og kynbótamatið passaði ekki, ég þyrfti að hitta á rétta hrútinn og það lukkaðist strax með hrút sem ég sótti mér í norðursýsluna. Þetta snýst meðal annars um að lesa tölurnar, en ég var prófessor í íþróttafræðum við Háskóla Íslands og gerði mikið af vísindarannsóknum, svo ég er ágætur tölfræðingur. Ég las því tölurnar í sauðfjárræktinni hjá mér og sá hvaða skepnur myndi borga sig að para saman. Þar sem enginn peningur er í þessu þá eru allir tilbúnir að hjálpa mér, þessum áhugasama, og reyndari bændur koma og kíkja á féð hjá mér, þukla hrúta og gimbrar og segja mér hvað sé skást,“ segir Sigurbjörn og bætir við að árangur náist hraðar í sauðfjárrækt en í hrossarækt, en hann er með um 35 hross.
Sumarhret og kyrkingur
Sigurbjörn segir frjósemi kinda sinna ágæta; rétt um tveir í fullorðnu ánum, en auðvitað lægra í gemlingunum.
„Mér finnst ágætt að fá þrílembdar á móti þeim einlembdu, en ég er ekki spenntur fyrir fjór- eða fimmlembdum, því þá sitjum við uppi með einhverja heimalninga. Reyndar kemur það sér ágætlega fyrir hestaleiguna sem við erum með, því heimalningar hafa mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn, þeim finnst gaman að sjá þegar lömbin fá að drekka úr pela,“ segir Sigurbjörn sem leggur upp úr því að rækta fé með riðuverndandi genum.
„Ég vel slíka hrúta í sæðingum en þar fyrir utan á ég fjóra lambhrúta sem bera í sér verndandi gen. Ég á tvo mjög góða fullorðna hrúta sem ekki eru með þessi gen og ætla að nota þá áfram, en á næsta ári verð ég kominn með þó nokkuð mikið af ám með þessi gen. Ræktunin hjá mér hefur verið mjög góð, árið 2022 var ég með 11,9 fyrir gerð, en landsmeðaltalið er um 9,5. Ég vil ekki tapa niður gæðum í ræktuninni svo ég held gömlu hrútunum, en ég fékk úr minni ræktun vorið 2023 tvo hrúta með verndandi genum, þeir voru bara ekki nógu góðir ræktunarlega séð og það hefur áhrif á heildarbyggingu fjárins. Vegna sumarhretsins í sumar kom kyrkingur í lömbin og útkoman hjá mér eftir sláturtíð bar þess merki, hún var lélegri en áður. Ég bý hér í Mývatnssveit í yfir 300 metrum yfir sjávarmáli og við lentum í því í júní að þá kom metersdjúpur snjór hér. Ég tók allt fé inn í átta daga á gjöf, ekki aðeins lambfé heldur líka geldfé og hross. Þegar við hleyptum fénu út þurftum við að moka frá girðingum svo féð gengi ekki yfir þær á skafli, slíkt var fannfergið. Enginn man eftir öðru eins hér; þótt við séum vön að fá vor- eða sumarhret, þá er það bara dag og dag, ekki svona samfellt.“
Hún eltir mig eins og hundur
Ein er sú kind sem er í miklu uppáhaldi hjá Sigurbirni, það er eina forystukindin í hjörðinni hans, hún Hetta, sem hefur hjálpað honum mikið í fjárleitum.
„Hetta er mögnuð kind, hún er af gamla stofni afa, en hann átti mjög gott forystufé. Afi þjálfaði sitt forystufé með því að teyma það fram og til baka inni í kró, en Hetta vill ekki láta teyma sig. Aftur á móti eltir hún mig eins og hundur, og hún hefur bjargað mér oftar en einu sinni með að ná fé heim í eftirleitum, hún gengur stundum með hornin í hnésbótunum á mér ef henni finnst ég fara of hægt. Hún þarf alltaf tíma til að átta sig í vondum veðrum og hefur alveg hlaupið út undan sér, en hún hlýðir ekki verr en hundurinn minn, ég get lofað því. Hún er virkilega góð ær og ég væri til í að ala upp forystufé sem væri komið út af henni. Eini gallinn við forystufé á Íslandi er að það er mikið til næmt fyrir riðu, en Hetta er með AHQ á öðru geninu, en það er eitt af þeim genum sem eru mögulega verndandi. Ég ætlaði því aldeilis að sæða hana Hettu mína með sæði hrúts sem er með AHQ á báðum genum, því það gefur örugga útkomu um AHQ í afkvæmi. En Hetta lætur ekki stjórna sér, hún sneri heldur betur á mig, því dagana sem sæðið stóð til boða var hún aldrei að ganga. Ég brá á það ráð að henda Hettu minni inn í sendibíl og keyrði hana út á Tjörnes, um 90 kílómetra, því þar er forystuhrútur sem vann samkeppni forystuhrúta hér í Þingeyjarsýslu austan fljóts í haust. Hann heitir Númer eitt, og er með AHQ á öðru geni. Þau tóku nokkrar umferðir þegar þau hittust svo hún hlýtur að halda hún Hetta mín. Þarna er kominn 25 prósent möguleiki á arfhreinu AHQ-afkvæmi, 50 prósent líkur á AHQ á öðru geni en 25 prósent líkur á venjulegu gulu. Ég vona auðvitað að ég fái geggjaðan hrút út úr þessu sem ég get þá notað áfram.“