Lilja Dögg Jónsdóttir
Fyrir rúmum tveimur árum hefði enginn trúað því að umræða um stöðu íslensku í nýjustu gervigreindardrifinni tækni hverfðist meðal annars um lakan skilning tækninnar á fágætum orðatiltækjum eða lök svör við ýmsu er snýr að sögu og menningu á Íslandi. Þetta er engu að síður staðreynd, líklega vegna þess að heildarmyndin hefur farið langt fram úr björtustu vonum og frammistaða stórra mállíkana á borð við Chat GPT og Claude er mögnuð á flestum mælikvörðum íslenskrar tungu. Það er ekki síst því að þakka að íslensk stjórnvöld, í samstarfi við Almannaróm – miðstöð máltækni og íslenskt háskóla- og málvísindafólk, hafa unnið stöðugt að því undanfarinn áratug að útbúa þá innviði sem nauðsynlegir eru til að gervigreind geti lært og skilið íslensku.
Því fer þó fjarri að nokkur tækni eða gervigreind tali eða skrifi lýtalausa íslensku. Fyrrnefnd mállíkön eru langt frá því að vera fullkomin og mikilvægt fyrir alla sem þau nota að gera sér grein fyrir því að bæði inntak og framsetningu þess sem spjallmennin skila frá sér þarf að líta gagnrýnum augum. Þetta benti Jón G. Friðjónsson, prófessor emeritus við HÍ, á í gagnlegum pistli hér í Morgunblaðinu fyrir skömmu þar sem hann fjallaði meðal annars um misgóðan skilning spjallmennisins Chat GPT á ýmsum íslenskum orðatiltækjum.
Ekkert verkfæri er fullkomið, frekar en við sjálf, en það þýðir ekki að verkfærið sé með öllu gagnslaust. Þegar við rekumst á mistök eða rangfærslur skipta viðbrögðin máli. Eins og við lærum af mistökum gera gervigreindarlíkön það einnig. Þannig verða pistlar eins og Jóns gagnlegir í að vekja athygli bæði þeirra sem þróa og nota gervigreindarverkfæri á því sem betur má fara. Hér skiptir hins vegar öllu máli að ganga ekki svo langt að afskrifa gervigreind sem gagnslaust tæki til vinnu eða kennslu vegna þess að íslenskan þar er ófullkomin. Þá væri tungumálinu okkar gert mikið ógagn! Þetta segi ég fullum fetum vegna þess að spjallmennin, hvort sem það er Chat GPT eða einn hinna ótalmörgu keppinauta þess, eru nú þegar mjög gagnleg verkfæri í ýmsum störfum. Bæði ungir og aldnir eru farnir að nota þau mikið í skóla, vinnu og einkalífi. Þeirri þróun verður vart snúið við og ef tæknin er ekki nýtt á íslensku þá verður enskan einfaldlega fljótt fyrir valinu.
Þess vegna hvet ég ykkur lesendur til að óttast ekki ófullkomna íslensku í gervigreind. Ef íslenskan á ekki að verða undir í samkeppni við stærri tungumál þá skiptir öllu að við köstum ekki út barninu með baðvatninu heldur sækjum okkur allt það nýtilega í hinum nýju verkfærum gervigreindar og kennum jafnframt börnunum okkar, nemendum og samstarfsfélögum að nýta þau með gagnrýnum augum, nota viðeigandi tól í ólík verkefni, sannreyna heimildir, rýna málfar og umfram allt – halda áfram að nota íslensku í nýrri tækni!
Höfundur er framkvæmdastjóri Almannaróms – miðstöðvar máltækni.