— Morgunblaðið/Árni Sæberg
Fyrirtækið Zephyr Iceland ehf. hefur lagt fram matsáætlun til Skipulagsstofnunar vegna umhverfismats fyrir vindorkugarð á Hælsheiði í Borgarbyggð. Er reiknað með garðinum í landi Hæls og Steindórsstaða í Flókadal

Björn Jóhann Björnsson

bjb@mbl.is

Fyrirtækið Zephyr Iceland ehf. hefur lagt fram matsáætlun til Skipulagsstofnunar vegna umhverfismats fyrir vindorkugarð á Hælsheiði í Borgarbyggð. Er reiknað með garðinum í landi Hæls og Steindórsstaða í Flókadal.

Uppsett heildarafl gæti orðið allt að 150 MW og mögulega yrði garðurinn reistur í áföngum, segir í skýrslu um matsáætlunina. Alls er reiknað með 20-30 vindmyllum og yrði hver þeirra með 5-7 MW afl. Miðað við uppsett afl yrði árleg raforkuframleiðsla vindorkugarðsins um og jafnvel yfir 600 gígavattstundir. Lengd spaða á vindmyllunum yrði 75 metrar en hæsti punktur, með spaða í efstu stöðu, yrði 180-250 metrar.

Zephyr Iceland var stofnað árið 2018 í þeim tilgangi að þróa vindorkuverkefni hér á landi. Um er að ræða dótturfyrirtæki norska vindorkufyrirtækisins Zephyr AS, auk þess sem Hreyfiafl ehf. er hluthafi. Zephyr er með um 800 MW af vindafli í rekstri í Noregi og er að reisa um 200 MW til viðbótar þar og í Svíþjóð. Að auki eru fleiri vindorkuverkefni í undirbúningi, bæði á landi og í hafi í bæði norskri og sænskri lögsögu þar sem fyrirtækið er meðal annars í samstarfi við sænska ríkisorkufyrirtækið Vattenfall.

„Hófleg ásýnd“

„Frumathuganir sýna að staðsetning fyrirhugaðs vindorkugarðs á Hælsheiði þykir fýsilegur kostur sökum hagstæðra vindskilyrða og hóflegra ásýndaráhrifa frá byggð. Endanleg afmörkun framkvæmdasvæðis gæti breyst eitthvað við vinnu á skipulagi svæðisins og aðlögun að umhverfi á staðnum. Fyrirhugað framkvæmdasvæði er talið henta vel þar sem góðir innviðir eru til staðar vegna undirbúnings, aðflutninga og byggingar vindmyllugarðs,“ segir m.a. í matsáætluninni.

Í skýrslunni er bent á aðgengi að höfn á Grundartanga, sem ráðgert er að nýta fyrir aðflutninga á vindmylluhlutum fyrir verkefnið. Frá Grundartanga liggi vegur með bundnu slitlagi að Borgarfjarðarbraut, sem tengist inn á Flókadalsveg inn að fyrirhuguðu framkvæmdasvæði. Þá er bent á „hóflega“ vegalengd til að tengjast flutningskerfi Landsnets á svæðinu. Frá núverandi flutningslínu Landsnets séu öflugar háspennutengingar við helstu raforkunotendur landsins á suðvesturhorninu, auk þess sem Landsnet áformi lagningu nýrrar 220 kV flutningslínu.

Svæðið opið fyrir vindi

„Á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði eru engin mannvirki í dag. Val á staðsetningu fyrirhugaðs vindorkugarðs er m.a. til komið vegna þess að náttúruleg skilyrði til þess að virkja vind virðast vera með besta móti á svæðinu. Svæðið er mjög opið fyrir vindi. Samkvæmt vindatlas Veðurstofu Íslands eru norðaustan- og suðaustanáttir ríkjandi á framkvæmdasvæðinu. Norðaustanáttin er sú vindátt sem hefur mestan meðalvindhraða. Samkvæmt fornleifaskráningu eru engar friðlýstar fornleifar á svæðinu. Hvorki skráðar heimildir né ummerki benda til þess að snjóflóð eða aurskriður hafi fallið á framkvæmdasvæðinu," segir enn fremur í skýrslunni.

Samkvæmt skipulagi og náttúruminjaskrá eru engin friðlýst svæði á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði en samkvæmt gildandi aðalskipulagi er syðsti hluti svæðisins innan hverfisverndarsvæðisins Húsafell – Ok, sem er skilgreint sem fjölbreytt útivistarsvæði.

Fram kemur í matsáætluninni að Zephyr Iceland vinni einnig að athugunum á öðrum svæðum víðs vegar um landið. Þannig fáist samanburður á stökum virkjunarkostum.

Matsáætlunin er aðgengileg á Skipulagsgátt. Allir geta kynnt sér matsáætlunina og veitt umsögn í gegnum gáttina eigi síðar en 27. janúar næstkomandi.