[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Wayne Rooney hefur látið af störfum sem knattspyrnustjóri karlaliðs enska félagsins Plymouth Argyle, sem íslenski landsliðsmaðurinn Guðlaugur Victor Pálsson er á mála hjá

Wayne Rooney hefur látið af störfum sem knattspyrnustjóri karlaliðs enska félagsins Plymouth Argyle, sem íslenski landsliðsmaðurinn Guðlaugur Victor Pálsson er á mála hjá. Í tilkynningu frá Plymouth segir að um sameiginlega ákvörðun hafi verið að ræða, en liðið er á botni ensku B-deildarinnar.

Martin Hermannsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, átti stórleik fyrir Alba Berlín þegar liðið mátti þola tap á heimavelli, 85:96, í þýsku úrvalsdeildinni á gamlársdag. Martin skoraði 25 stig og gaf þrjár stoðsendingar á 27 mínútum. Var hann stigahæstur hjá Alba og næststigahæstur í leiknum.

Brasilíumaðurinn Matheus Cunha sóknarmaður Wolves hefur verið úrskurðaður í tveggja leikja bann af enska knattspyrnusambandinu vegna hegðunar sinnar eftir leik gegn Ipswich í ensku úrvalsdeildinni 14. desember. Cunha gaf starfsmanni Ipswich olnbogaskot í höfuðið auk þess sem hann tók gleraugun af honum. Ásamt því að fara í tveggja leikja bann fékk Cunha 80 þúsund punda sekt.

Michael van Gerwen og Chris Dobey tryggðu sér í gær sæti í undanúrslitum heimsmeistaramótsins í pílukasti með 5:3-sigrum í átta manna úrslitum í Alexandra Palace í Lundúnum. Hollendingurinn van Gerwen hafði betur gegn Englendingnum Callan Rydz og Englendingurinn Dobey skákaði Walesverjanum Gerwyn Price.

Knattspyrnufólkið Karl Friðleifur Gunnarsson og Selma Dögg Björgvinsdóttir voru á mánudag valin íþróttakarl og íþróttakona Víkings úr Reykjavík árið 2024.

Þýski handknattleiksmarkvörðurinn Phil Döhler mun yfirgefa sænska úrvalsdeildarfélagið Karlskrona þegar samningur hans rennur út í sumar. Döhler lék með FH frá 2019 til 2023. Íslendingalið Karlskrona tilkynnti brottför Döhlers í síðustu viku en með liðinu leika Ólafur Andrés Guðmundsson, Dagur Sverrir Kristjánsson og Þorgils Jón Svölu Baldursson.

Jarrod Bowen, fyrirliði West Ham United í knattspyrnu, verður frá næstu vikurnar vegna meiðsla í fæti. Bowen meiddist þegar West Ham beið afhroð gegn Liverpool, 0:5, á heimavelli í ensku úrvalsdeildinni síðastliðinn sunnudag. Hann verður frá keppni fram í febrúar.

Tennisstjörnurnar Novak Djokovic og Nick Kyrgios töpuðu fyrir Nikola Mektic og Michael Venus, 2:1, í tvíliðaleik í annarri umferð á alþjóðlegu móti í Brisbane í Ástralíu í gær. Mektic og Venus unnu fyrsta sett 6:2, Djokovic og Kyrgios annað sett 6:3 og Mektic og Venus unnu svo þriðja sett 8:6 eftir upphækkun.

Knattspyrnumaðurinn Michail Antonio, leikmaður West Ham, er kominn heim eftir þriggja vikna dvöl á sjúkrahúsi í kjölfar alvarlegs bílslyss í Essex í byrjun desember, þar sem hann fótbrotnaði.

Handknattleiksmaðurinn Aron Pálmarsson og frjálsíþróttakonan Irma Gunnarsdóttir voru á gamlársdag kjörin íþróttakarl og íþróttakona FH árið 2024.