Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
„Listin á að stækka heiminn svo skilningur fólks á hlutum færist í nýjar víddir,“ segir Helena Margrét Jónsdóttir myndlistarkona. Hún er á vaxandi vegi í listsköpun sinni og hefur skapað sér stöðu og nafn. Á dögunum var hún ein þriggja sem styrki fengu úr Listasjóði Eimskips, en sá stuðningur var eyrnamerktur fólki sem á einhvern hátt getur talist upprennandi, eins og komist var að orði.
Tímalaus viðfangsefni með nútímalegum blæ
Helena Margrét er í olíuverkum sínum í raunsæisstíl sögð glíma við tímalaus viðfangsefni með nútímalegum blæ. Þar rannsaki hún flókið samband milli þess girnilega og ógeðslega og hún taki fyrir viðfangsefni eins og blóm, vín, skordýr og hendur ásamt nútímalegum hlutum sem tákna girndina. Með slíku skapi hún verk sem ögri skynjun áhorfandans.
Alveg frá barnsaldri hefur myndlistin verið hálft líf Helenu, sem sex ára gömul var skráð á námskeið í ballett og myndlist. „Teikningin varð fljótt öðru yfirsterkari. Ég man eftir því að hafa verið með fólkinu mínu úti í bæ, þar sem ég sat með teiknisettið og bjó til eitthvað skemmtilegt á blöðum. Ég var í Myndlistarskólanum í Reykjavík og fór þar á öll námskeið; formteikningu, vatnsliti, málun og fleira. Ég var búin með þetta allt fimmtán ára gömul. Og þá var bara eftir módelteikning; aðeins ætluð átján ára og eldri enda skyldi á þeim kúrs teikna nakið fólk. Ég þurfti því skriflegt leyfi foreldra minna til þess að mega fimmtán ára sitja þessar kennslustundir: Og það fékk ég líka að gera og beið ekki skaða af,“ segir Helena og brosir.
Sjóndeildarhringurinn þarf að stækka
Tvítug, árið 2016, lauk Helena stúdentsprófi frá sjónlistadeild Myndlistarskólans í Reykjavík, þá eftir að hafa áður tekið grunnfög við almennan framhaldsskóla.
„Komin með stúdentinn var mér sagt að rétt væri að horfa út í heiminn og þá kom Holland fljótt inn í myndina, svo margt býðst þar í listnámi. Niðurstaðan varð Konunglegi listaháskólinn í Haag, þar sem ég var í eitt og hálft ár. Á þessum tíma fannst mér nauðsyn að fara út í nám og vissulega var þroskandi og lærdómsríkt að vera í Hollandi. En þar upplifði ég mig þó mjög einmana, saknaði íslenskunnar og að vera hluti af samfélagi og menningu sem ég þekkti. Ég sneri því heim og vil vera hér.“
Hefðin er sterk í Hollandi
„Ég myndi þó alltaf hvetja ungt listafólk til þess að fara utan í nám, jafnvel þótt ekkert markvert komi út úr því nema að sjóndeildarhringurinn stækki. Slíkt er listafólki afar mikilvægt,“ segir Helena um nám sitt og þroskaferil.
Listahefð í Hollandi er rík og fyrirmyndir þar sterkar. Nægir þar að nefna hinn fræga málara Rembrandt Harmenszoon van Rijn; mann 17. aldar sem enn er þó furðu nálægur. Rembrandt er þekktur meðal annars fyrir myndir af fólki, persónusköpun og samspil ljóss og skugga, það er raunsæisstefnuna, sem er að „… segja frá samtímanum, með raunverulegu fólki og sönnum aðstæðum“, eins og hugmyndafræðinni er lýst á Google.
Blóm í frosti og kóngulór leynast í skóm
Raunsæisstefna er stíll Helenu. Á senu hennar eru áberandi stórar flekamyndir með blómum á hvítum grunni, þar sem sitthvað fleira flýtur með til andstæðna svo sem stórar ljótar kónugulær, vínglös, sælgætisbitar, krumpaðar gosdósir og fleira slíkt. Þannig verður til áhugaverð togstreita ýmissa tákna svo túlkun á myndunum verður marglaga.
„Áherslurnar í verkunum mínum eru helst sambandið á milli þess girnilega og ógeðslega; hvað okkur langar í og hvað eyðileggur slíkt fyrir okkur. Svo sem vín að sullast, blóm sem eru hjúpuð frosti eða kóngulær sem leynast í skóm,“ segir myndlistarkonan hvar við sitjum á vinnustofu hennar á Skólavörðuholti í Reykjavík.
Allmargar myndir í þeim stíl sem að framan er lýst eru nú á borðum Helenu, en hún undirbýr nú sýningu í Stokkhólmi í mars næstkomandi. Annars hefur hún mest starfað síðustu ár með galleríi í Mílanó á Ítalíu og reynslan af því er góð. Hún hefur einnig á næstliðnum misserum tekið þátt í samsýningum víða, svo sem í Miami á Flórída í Bandaríkjunum, í Capri á Ítalíu, Dúbaí við Persaflóa, Peking í Kína, London og á Ibiza, sólareyjunni spænsku. Einnig hefur hún tekið þátt í ýmsum sýningum hér heima.
Rúlla striga í vöndul
„Ég hef verið heppin með að koma mínu á framfæri. Þar hefur virkni á samfélagsmiðlum eins og Instagram mikið að segja,“ segir listakonan Helena Margrét, og að síðustu:
„Þau í Mílanó settu sig í samband við mig í desember 2019 og fljótlega fór boltinn að rúlla. Myndlist heimsins er í skemmtilegri þróun um þessar mundir þegar fjarlægðir verða afstæðar. Sýningar eru víða og innan tíðar tek ég myndir fyrir Stokkhólmssýninguna af ramma, rúlla striganum saman í vöndul og sendi utan. Á sýningarstað verða þær svo aftur settar upp og þá blasir verkið við; andstæður með spurningum um löngun og óþægindi. Já, mér finnst ég hafa heilmikil áhrif út í heiminn í gegnum listina; bæði með sýningarhaldi og stafrænum tengingum út og suður. Minn staður er miðlægur í veröldinni.“