Titringur Smiðja var tekin í notkun snemma á síðasta ári. Á 5. hæð eru þrjú fundarherbergi, en titringurinn virðist aðeins bundinn við eitt þeirra.
Titringur Smiðja var tekin í notkun snemma á síðasta ári. Á 5. hæð eru þrjú fundarherbergi, en titringurinn virðist aðeins bundinn við eitt þeirra. — Morgunblaðið/Hákon
Ragna Árnadóttir skrifstofustjóri Alþingis segir titrings gæta í fundarherbergi á fimmtu hæð í Smiðju, skrifstofuhúsnæði Alþingis, þegar þung farartæki fara harkalega yfir hraðahindrun í Vonarstræti

Kári Freyr Kristinsson

karifreyr@mbl.is

Ragna Árnadóttir skrifstofustjóri Alþingis segir titrings gæta í fundarherbergi á fimmtu hæð í Smiðju, skrifstofuhúsnæði Alþingis, þegar þung farartæki fara harkalega yfir hraðahindrun í Vonarstræti.

Inga Sæland félags- og húsnæðismálaráðherra sagði í grein sem birtist í Morgunblaðinu á gamlársdag að þegar hún fundaði ásamt Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur utanríkisráðherra í Smiðju hefðu þær haldið að jarðskjálftar dyndu yfir. Svo reyndist ekki vera og sagði Inga í greininni ástæðuna hönnunargalla í Smiðju.

Titringur bara á fimmtu hæð

Ragna segir skrifstofu Alþingis hafa fengið sérfræðinga til að athuga málið og í ljós hafi komið að þegar þungar bifreiðar aka yfir hraðahindrunina leiði það með hliðinni á húsinu og valdi þessum titringi. „Gólfið á fimmtu hæð er öðruvísi uppbyggt en á hinum hæðunum og þess vegna finnst þetta aðallega þar. Þannig að þetta er utanaðkomandi orsakavaldur sem hefur þessi áhrif á húsið,“ segir Ragna.

Titringurinn er mest áberandi í einu fundarherberginu á fimmtu hæð en samtals eru þrjú fundarherbergi á hæðinni, segir Ragna. Málið sé enn í skoðun en að möguleg lausn á vandanum væri að færa hraðahindrunina til að draga úr titringnum.

Titringur í Smiðju

Húsnæðið var tekið í notkun í janúar á síðasta ári.

Fundaraðstaða og skrifstofur alþingismanna eru í húsinu.

Inga Sæland félags- og húsnæðismálaráðherra sagði frá titringi sem fyndist í fundarherbergi Smiðju.

Ragna Árnadóttir skrifstofustjóri Alþingis segir þung farartæki ástæðu titringsins.