Sveinbjörn Kristjánsson fæddist á Litlabæ í Súðavík 19. mars 1951. Hann lést á Droplaugarstöðum 13. desember 2024.

Hann var sonur Guðbjargar Guðrúnar Jakobsdóttur frá Skarði á Snæfjallaströnd og Kristjáns Sveinbjörnssonar frá Uppsölum í Seyðisfirði.

Hinn 31. júlí 1976 gekk hann í hjónaband með Sesselju Gíslunni Ingjaldsdóttur, f. 22. september 1950, dóttur Sveinbjargar Stefánsdóttur frá Norðfirði og Ingjalds Kjartanssonar frá Reykjavík, stjúpfaðir Sesselju var Björn Bjarman, lögfræðingur og rithöfundur frá Akureyri.

Systkini Sveinbjörns eru Grétar Már, Kristján, Samúel, Hálfdán, Sigurborg, Ásdís og Svandís Kristjánsbörn og Jakob Þorsteinsson.

Dætur Sveinbjörns og Sesselju eru: 1) Sveinbjörg Birna, lögmaður og MBA, f. 1973, gift Gizuri Bergsteinssyni lögmanni og eiga þau Mörtu Margréti, f. 2015. Fyrri eiginmaður Sveinbjargar er Haukur Albert Eyjólfsson, verkefnastjóri hjá Atlanta, börn þeirra eru: a) Stefanía Þórhildur tannlæknanemi, f. 1998, eiginmaður hennar er Hafsteinn Hákonarson rafvirki og eiga þau Kötlu Katrínu, f. 2023. b) Sesselja Katrín, meistaranemi í verkfræði í Stokkhólmi, f. 2001, sambýlismaður hennar er Þórður Guðjónsson flugmaður. c) Eyjólfur Örn, f. 2004, rafvirki hjá Tengli. 2) Guðbjörg Gerður, viðskiptafræðingur og löggiltur fasteignasali, f. 1976. Hún var gift Birgi Árnasyni bifvélavirkjameistara og dætur þeirra eru Hlín Birna, f. 2003, stúdent og Hildur Sesselja, f. 2007, nemi í Kvennaskólanum. 3) Kristbjörg hjúkrunarfræðingur, f. 1980.

Jarðarförin fer fram í Háteigskirkju í dag, 2. janúar 2025, klukkan 15. Streymt verður frá útförinni. Hlekk á streymi má nálgast á
mbl.is/andlat.

Há og brött fjöll, þröngur fjörður, Kambsnesið og Snæfjallaströndin hinum megin við Djúpið. Það er svartalogn og elsku pabbi situr í eldhúsinu á Litla bæ í Súðavík og skipuleggur næstu verkefni.

Geðslagi, staðfestu og æðruleysi föður míns má líkja við svartalogn. Gætu engar doktorsgráður vitnað um það verkvit, þá kunnáttu og þá gagnrýnu og lausnamiðuðu nálgun sem hann beitti í öllum sínum verkum. Virðing fyrir verkefnum, náttúru og mennsku var skráð í erfðamengið og ekkert tár of lítið til að það fangaði ekki athygli hans. Faðir minn gaf sér ætíð tíma fyrir samveru og samtal þar sem hann miðlaði af óþrjótandi þekkingu sinni og nutum við fjölskyldan og samferðafólk hans þess hve ríkulega hann gaf af sálu sinni.

Sem lítil og ung stúlka trúði ég því að feður gætu gert allt, ætíð hjálpað og hefðu lausnir á öllum heimsins vandamálum, stórum sem smáum, því þannig var faðir minn, fyrirmyndin mín. Eftir því sem ég varð eldri varð mér það ljóst að ekki voru allar stúlkur svo heppnar og að það voru óverðlögð forréttindi að vera dóttir manns sem hafði ekki aðeins fengið svo mikið af hæfileikum í vöggugjöf heldur nýtti þá í hvívetna af skilningi og skerpu og með hagleika og hjartahlýju að leiðarljósi.

Með okkur systurnar innanborðs sigldu foreldrar mínir lífsskipi sínu af festu og skynsemi. Eftir meistarabréf þeirra í iðngreinum sínum fluttu þau vestur á Ísafjörð „til að koma undir sig fótunum“. Þar vann faðir minn við smíðar á vélum og varahlutum, þar sem þörf var á, og uppsetningar og viðgerðir á frystitækjum. Í Móholti á Ísafirði byggðu hann og mamma fjölskyldunni fallegt hús og kom þá ekki annað til greina af hans hálfu en að annast sjálfur alla þætti þess, svo sem járnabindingar, smíði og pípu- og raflagnir. Það er lýsandi fyrir verkvit föður míns að hann hannaði og smíðaði rafmagnskyndingu í húsið, langt á undan sinni samtíð.

Eftir að foreldrar mínir fluttu suður, í Safamýrina, tóku við ný verkefni þar sem þau starfræktu verslun undir nafninu Bræðraborg, í Hamraborg í Kópavogi. Þar nýttist útsjónarsemi föður míns og nýsköpun við reksturinn. Það er lýsandi fyrir þann velvilja sem faðir minn bjó yfir að þegar unglingsárin bönkuðu upp á hjá dætrum hans fannst honum það ekki tiltökumál að taka snið og sauma á þær kjóla og dragtir, ekki frekar en honum fannst það ekki tiltökumál að gera við bíla, byggja hús, ganga frá bókhaldi, elda, baka, styðja þá sem minna máttu sín, slá, mála og já allt hitt.

Í afahlutverkinu fór faðir minn á kostum og gaf barnabörnunum ómælda þolinmæði, kærleik, hlýju, styrk og hvatningu sem ég fæ ekki nógsamlega þakkað.

Þinn heiti faðmur, þitt innilega faðmlag og öll fallegu hlýju orðin geymi ég í hjarta mínu og mun af óeigingirni halda minningu þinni lifandi og deila áfram til barna minna og barnabarna, ekki síst við ljóðalestur, söng og við sólarlag og svartalogn við Djúpið.

Þín dóttir,

Sveinbjörg Birna.

Taki ég tali þá sem

eru gæddir dug og þolgæði

með gamansögur á vör er

næsta víst að þeir eiga rætur

vestur á firði. Svo eigi sé minnst

á völund og leikni til lausnar

í hversdagslegu amstri daganna.

Fjörðurinn hans Sveinbjörns

við ystu nes er falin fegurð,

lognkær og gjöfull en fjöllin

vetrar hörð minna á sig.

Sveinbjörn er farinn yfir móðuna

miklu. Dagfarslega prúður

og brosmildur tók hann örlögum

sínum eins og þeir einir sem búa

yfir ró og æðruleysi er stormar geisa.

Von býr í öllu lífi og opnar dyr í myrkri.

Svo hætta dagarnir að telja er ferjan

leggur á fljótið mikla.

Aðstandendum votta ég mína dýpstu samúð.

Hvíl þú í friði vinur.

Stefán Finnsson.