New Orleans Maðurinn keyrði inn í mannfjöldann á Bourbon-stræti í franska hverfi borgarinnar New Orleans skömmu eftir kl. 3 á nýársnótt.
New Orleans Maðurinn keyrði inn í mannfjöldann á Bourbon-stræti í franska hverfi borgarinnar New Orleans skömmu eftir kl. 3 á nýársnótt. — AFP/Michael DeMocker
Tíu eru látnir og 36 særðir hið minnsta eftir að maður ók á ofsahraða inn í stóran hóp fólks í New Orleans í Louisiana í Bandaríkjunum á nýársnótt. Bandaríska alríkislögreglan, FBI, rannsakar árásina sem hryðjuverk og tengsl við erlend hryðjuverkasamtök

Sonja Sif Þórólfsdóttir

sonja@mbl.is

Tíu eru látnir og 36 særðir hið minnsta eftir að maður ók á ofsahraða inn í stóran hóp fólks í New Orleans í Louisiana í Bandaríkjunum á nýársnótt. Bandaríska alríkislögreglan, FBI, rannsakar árásina sem hryðjuverk og tengsl við erlend hryðjuverkasamtök. Árásarmaðurinn flúði af vettvangi en FBI segir manninn nú látinn. Wall Street Journal fullyrðir að hann hafi fallið í skotbardaga við lögreglu. Hinn grunaði hét Shamsud Din Jabbar og var 42 ára gamall.

Jabbar ók pallbíl inn í mannfjöldann á Bourbon-stræti í miðborg New Orleans þegar klukkan var 15 mínútur gengin í fjögur að staðartíma og áramótagleðin við völd. Skaut hann á tvo lögregluþjóna og særði þá, en ástand þeirra er stöðugt. Á bíl Jabbars var fáni sem er sagður vera fáni Ríkis íslams. Ríki íslams hefur ekki lýst ábyrgð á árásinni.

Anne Kirkpatrick yfirlögregluþjónn í New Orleans sagði við fjölmiðla að árásarmaðurinn hefði augljóslega haft það að markmiði að valda sem mestum skaða og aka á sem flesta. Fjöldahjálparmiðstöð var opnuð í borginni.

Joe Biden Bandaríkjaforseti hét fullum stuðningi við rannsókn málsins í orðsendingu til LaToyu Cantrell borgarstjóra New Orleans í gær. „Það er aldrei hægt að rökstyðja ofbeldi, af nokkurri tegund, og við munum ekki umbera neinar árásir á samfélag okkar,“ sagði Biden.

Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, sagðist tengja árásina við straum ólöglegra innflytjenda í landið þó að lögregla hefði þá ekki gefið neitt út um hver árásarmaðurinn var.

„Þegar ég sagði að glæpamennirnir sem kæmu inn í landið væru miklu verri en glæpamennirnir sem eru nú þegar í landinu … það reyndist rétt hjá mér,“ sagði Trump í færslu á samfélagsmiðlum. Þá sagði hann glæpatíðni í Bandaríkjunum í hæstu hæðum, þrátt fyrir að FBI segi glæpatíðni reyndar á mikilli niðurleið.

Aðeins ellefu dagar eru síðan maður ók inn í hóp fólks á jólamarkaði í Magdeburg í Þýskalandi. Fimm létust í árásinni og tvö hundruð særðust.

Höf.: Sonja Sif Þórólfsdóttir