Sigurhæðir Nokkrir soroptimistar við þjónustumiðstöðina.
Sigurhæðir Nokkrir soroptimistar við þjónustumiðstöðina.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Um áramótin tók Hildur Jónsdóttir jafnréttisráðgjafi við embætti sem forseti Soroptimistasambands Íslands. Sambandið varð 50 ára á liðnu ári, en í því eru 20 klúbbar hringinn í kringum landið. Fjöldi verkefna er á höndum allra þessara klúbba og…

Um áramótin tók Hildur Jónsdóttir jafnréttisráðgjafi við embætti sem forseti Soroptimistasambands Íslands.

Sambandið varð 50 ára á liðnu ári, en í því eru 20 klúbbar hringinn í kringum landið. Fjöldi verkefna er á höndum allra þessara klúbba og veittir eru árlega styrkir til samtaka sem vinna að bættum hag kvenna.

„Mér og löngu og víðtæku starfi mínu að jafnréttismálum og bættri stöðu kvenna er sýndur mikill heiður og ég hlakka til að takast á við þetta verkefni sem ég mun sinna samhliða Sigurhæðum,“ segir Hildur og vísar þar til þjónustumiðstöðvar fyrir þolendur kynbundins ofbeldis á Suðurlandi. Húsnæðið Sigurhæðir er staðsett á Selfossi en Hildur og Soroptimistaklúbbur Suðurlands höfðu forgöngu að stofnun þessarar þjónustumiðstöðvar fyrir fjórum árum.

22 samstarfsaðilar

Fengust alls 22 samstarfsaðilar að stofnun Sigurhæða, þar af öll sveitarfélögin á Suðurlandi, 15 að tölu. Hildur segir að hér sé um sannkallað sunnlenskt samfélagsverkefni að ræða. Sigurhæðir hafi notið þeirrar stöðu að vera svokallað áhersluverkefni í Sóknaráætlun Suðurlands, sem Samtök sunnlenskra sveitarfélaga standa að.

Hildur hefur stjórnað Sigurhæðum en soroptimistar á Suðurlandi verið virkir í starfinu. Hjá Sigurhæðum hafa fjórir faglærðir meðferðaraðilar starfað og veitt þjónustu sína.

Hildur gekk í Soroptimistaklúbb Suðurlands árið 2015 en hún hefur langa reynslu af störfum í jafnréttismálum. Þannig var hún jafnréttisráðgjafi Reykjavíkurborgar á árunum 1996-2006, var formaður Jafnréttisráðs og vann að jafnréttisverkefni á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar.