NBA
Gunnar Valgeirsson
Los Angeles
Í síðasta mánuði tóku leikmenn Chicago Bulls og Charlotte Hornets 97 þriggja stiga skot í einum leik og geiguðu 75 þeirra. Það eru slíkar tölur sem hægt og sígandi fá fleiri til að hætta að horfa á leiki NBA-körfuboltans í sjónvarpi.
Reyndar spila fleiri þættir inn í minnkandi áhorf hér vestra, en hluti af því er þó breyttur leikstíll sem nú tröllríður NBA-boltanum – þriggja stiga skotin.
„Þetta ergir mig mikið, því leikurinn hefur þróast út í keppni í þriggja stiga skotum og vítaskotum. Mér líkar þetta alls ekki en þegar ég segi það verða leikmennirnir reiðir. Ég vil hins vegar ekki að hver leikur af öðrum fari í þriggja stiga skotkeppni. Það er ekkert gaman að því,“ sagði NBA-prófessorinn Charles Barkley nýlega í viðtali.
Deildin tók upp þriggja stiga skot árið 1979 og fyrsta áratuginn var litið á það sem brellu fyrir þjálfarana, en smám saman á tíunda áratugnum fórum við að sjá leikmenn sem voru sérfræðingar í þriggja stiga skotum. Fremstur í flokki var Reggie Miller hjá Indiana Pacers.
Það var ekki þó fyrr en fyrir 20 árum að þjálfarar fóru að leggja meiri áherslu á að nota þriggja stiga skyttur sem vopn til að teygja á vörn andstæðinganna. Á undanförnum áratug hefur þessi staða breyst enn frekar í kjölfar þróunar sem sést hefur í öðrum liðsíþróttum – áhrif tölfræðigreiningar á stigaskorun.
Á þessu keppnistímabili taka liðin að meðaltali nærri 38 þriggja stiga skot í leik, en fyrir tólf árum tóku þau að meðaltali 20, og tíu árum fyrr voru það níu skot í leik.
Tölfræði látin ráða ríkjum
Hér vestra sjást þessi áhrif tölfræðigreiningar mest í NBA-deildinni, sem og í þjóðaríþróttinni, hafnabolta. Í báðum greinum hafa tölfræðisérfræðingar aukin áhrif á hvernig þessar íþróttir eru leiknar og í báðum tilfellum með þeim afleiðingum að æ færri aðdáendur þeirra kjósa að horfa á leiki í sjónvarpi eða beinu streymi.
Aukin notkun þjálfara NBA-liðanna á þessu vopni í sóknarleiknum undanfarna tvo áratugi hefur gjörbreytt íþróttinni og ekki líkar öllum breytingin. Ég hef séð þetta sjálfur á skjánum og þeim mörgu leikjum sem ég fer á hjá Lakers og Clippers hér í borg. Í leik eftir leik er ég að spá í hvenær liðin ætli sér að leika alvörukörfubolta, en í sókn eftir sókn virðast leikmenn beggja liða einbeita sér að því að finna leið til að losa um einn samherja til að hann geti tekið opið þriggja stiga skot.
Ég hef lúmskan grun um að yngri aðdáendur NBA-boltans séu nú að hugsa með sér: „Hei, komdu í nútímann, gamli maður.“
Sjónvarpsáhorf minnkar
Ég er þó ekki einn um þetta, ef dæma má af áhorfi á leikina í sjónvarpi hér vestra, en það hefur minnkað um næstum helming frá hátindinum fyrir fáum árum. Það virðist eitthvað við hvernig nútíma NBA-boltinn er leikinn sem gerir að verkum að íþróttaunnendur finna sér eitthvað annað að horfa á en runu af þriggja stiga skotum þar sem stór hluti geigar.
Adam Silver forseti NBA var inntur eftir þessu um daginn og hann virtist alls ekki hafa áhyggjur. Hann lagði áherslu á að þótt sjónvarpsáhorf hefði minnkað hefði umfjöllun um deildina á samfélagsmiðlum aukist mjög og aðsókn á leikina sjálfa sett met undanfarin tvö ár.
Kannski ætti hann að hugsa sig um tvisvar. Deildin gerði nýlega áratuga samning um sjónvarpsréttinn fyrir himinháar upphæðir (mikilvægasta tekjulind deildarinnar), mestmegnis vegna samkeppni frá streymisfyrirtækjum eins og ESPN og TNT gegn hefðbundnum sjónvarpsrásum. Ef áhorf heldur samt áfram að minnka gætu þessi fyrirtæki hugsað sig um tvisvar ef þau fara að tapa peningum.
Það kann að vera að aðrir þættir en þriggja stiga skot hafi áhrif á sjónvarpsáhorf, en ef maður hefur rétt fyrir sér er kannski kominn tími til að breyta leikreglum og búa til meiri spennu og auka fjölbreytni í sóknarleiknum.
Hvað á að gera?
Hvað viltu þá? Maður vill leikstíl sem leggur áherslu á alhliða leikni leikmanna í íþróttinni. Leikstíl sem leggur áherslu á hindranir sem opna fyrir atlögu leikmanna að körfunni, eða hæfni með boltann sem brýtur niður vörn með frábærri sendingu í vítateignum og leiðir til troðslu.
Sem sagt: leikstíl þar sem leikmenn geta sýnt alhliða hæfni sína. Það er einfaldlega of lítið af því í dag í mörgum leikjum.
Vissulega eru NBA-leikmenn betur þjálfaðir og betri skyttur en fyrir 20-30 árum, og hraðinn í leiknum hefur aukist með aukinni stigaskorun. Maður myndi því halda að leikurinn yrði meira augnayndi fyrir aðdáendur. Þjálfari Boston Celtics, Joe Mazzulla, var inntur eftir þessu um daginn, en hann sá ekkert vandamál. „Af hverju er aukin stigaskorun vandamál fyrir okkar deild en ekki aðrar?“
Kannski eru þessar pælingar of mikið komnar af hráum tölum um minnkandi sjónvarpsáhorf, og kannski er það ekki leikurinn sjálfur sem er vandamálið.
VAR-tæknin eyðileggur flæðið
Þá eru dómararnir undir mikilli pressu eftir að myndbandstæknin (VAR-kerfi NBA) fór að stöðva leikinn enn oftar til að finna út hvort dómarar hefðu misst af einhverjum smámunum. Deildin ætti einfaldlega að gefa þjálfurum tvær tilraunir í leik til að fá dómi breytt, og þá aðeins á síðustu tveimur mínútunum eða varðandi sjöttu leikvillu leikmanns.
Það er kominn tími til að leyfa leikmönnum sjálfum að útkljá leikina á ný, en ekki láta það í hendur á einhverju tækniliði niðri í kjallara í New Jersey (þar sem tæknideildin er til húsa) sem finnur eitthvert smáatriði sem enginn annar sá.
NBA-boltinn er frábær og leikmenn deildarinnar ótrúlega hæfileikaríkir. Það er tími til kominn að leyfa þeim að sýna hæfileika sína.
Það er aðalástæðan fyrir því að við horfum á leikina.
Það væri hægt að tína til fleiri atriði. Til að mynda fjölda leikja, en rétt eins og í atvinnuknattspyrnunni leika NBA-liðin of marga leiki – sérstaklega í deildakeppninni.
Það mun hins vegar ekki breytast, frekar en í knattspyrnunni, þar sem sjónvarpsfyrirtækin greiða háar upphæðir fyrir sjónvarpsréttinn og vilja sem mest efni á skjáinn.
Samfélagsmiðlar
Kannski kemur þessi umræða að hluta frá því hvernig yngri kynslóðir íþróttaunnenda neyta fjölmiðlaefnis. Þær horfa ekki eins mikið á heila leiki í beinni útsendingu heldur fá þá í bútum á samfélagsmiðlum og vefsíðum – þar sem hápunktar þeirra virka mjög spennandi.
En slíkt fjölmiðlaefni á tölvuskjánum er ólíkt upplifuninni af leiknum sjálfum. Það fer þó einungis skrefi lengra en bein sjónvarpsútsending, en leikurinn er í raun „matreiddur“ fyrir áhorfendur í sjónvarpinu, með þulum sem greina leikinn fyrir þig; endalausum endurtekningum með sjónarhorni sem áhorfendur á leiknum hafa ekki, og auglýsingahléum.
Breytt áhorf yngri kynslóða á leikina hefur aukist mjög hratt, og kannski má segja að forráðamenn NBA-deildarinnar séu bara að matreiða leikina fyrir fjölmiðla þar sem þeirra er neytt sem skemmtiefnis.
Eins og margir eldri borgarar hefur maður tilhneigingu til að muna fyrri tíma í öðru ljósi en þeir voru, og kannski eru hraðinn og þriggja stiga skothríðin það sem neytendur vilja. Þetta sér maður á myndskeiðum af NBA-boltanum fyrir sextíu til sjötíu árum, áður en stökkskotið kom og leikurinn fór meira og minna fram undir körfunum. Þá var sjaldan troðið.
Þrátt fyrir allt þetta röfl gamals manns er ávallt nóg af góðum sögum úr deildinni; af leikmönnum eins og LeBron James, Nikola Jokic, Giannis Antetokounmpo og Stephen Curry; og af leikjunum sjálfum. Þær sögur mun undirritaður halda áfram að skrifa, því þeim lýkur aldrei.