Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
„Við ætlum að halda áfram þeirri miklu uppbyggingu sem hefur verið síðustu ár en samhliða að sýna ráðdeild í rekstri. Vinna vel fyrir fólk og fyrirtæki. Byggja áfram upp öflugt atvinnulíf og halda áfram að efla Hafnarfjörð sem sveitarfélag í fremstu röð,“ segir Valdimar Víðisson, nýr bæjarstjóri í Hafnarfirði.
Nú um áramótin tók Valdimar við starfi bæjarstjóra, það er í samræmi við samkomulag milli Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks um meirihlutasamstarf í bæjarstjórn. Valdimar hefur átt sæti í bæjarstjórn síðustu árin og er því öllum hnútum kunnugur í bæjarmálunum. Og það er í mörg horn að líta í Firðinum sem er þriðja fjölmennasta sveitarfélag landsins. Áætluð heildarútgjöld bæjarins á nýbyrjuðu ári verða, áætlun samkvæmt, um 47,0 milljarðar kr., áætlaður launakostnaður 25,6 ma.kr. og áætlaður fjármagnskostnaður 2,4 ma.kr.
Fleiri verkefni en sömu tekjupóstar
Í fjármálum bæjarins hefur á síðustu árum náðst mikill árangur og skuldahlutfall er nú komið niður í 89% af ársveltu.
„Auðvitað eru ýmsar áskoranir sem hafa herjað á okkur. Sveitarfélögin um land allt eru með fleiri verkefni á sínum herðum í dag en nánast sömu tekjupósta. Ég mun halda áfram að vinna að því að auka tekjur sveitarfélaga með fleiri tekjupóstum og frekari innspýtingu í einstaka málaflokka. Virkt og gott samtal þarf við ríkið vegna þessa svo úrbætur verði,“ segir Valdimar um stöðuna.
Gert er ráð fyrir að bæjarsjóður í Hafnarfirði verði í ár rekinn með 314 millj. kr. afgangi. Um þetta segir Valdimar að bæjarfélagið hafi á undanförnum árum verið í mikilli uppbyggingu, og í nýjum hverfum þurfi sterka innviði. Einnig hafi mikið verið fjárfest í íþróttafélögunum.
Inngilding er stöðugt verkefni
„Við teljum bæjarfélagið hafa burði til að ráðast í framkvæmdir sem munu hafa þau áhrif að hér aukast umsvif og tekjur,“ segir Valdimar um stöðuna í Hafnarfirði. Þar eru íbúar nú 32.591. Þar af eru 5.682 með erlent ríkisfang eða 17% bæjarbúa. Þeirri breytu segir Valdimar að fylgi ýmsar áskoranir, svo sem þegar í hlut á fólk með mismunandi þjónustuþarfir og áskoranir. Raunin sé gjarnan sú með hælisleitendur og flóttafólk, en í Hafnarfirði hefur verið tekið á móti mörgum úr þeim hópi.
„Hafnarfjarðarbær hefur tekið mikilvæg skref í átt að því að styðja við og aðstoða flóttafólk og hælisleitendur. Hins vegar er inngilding stöðugt verkefni sem krefst víðtækrar þátttöku allra í samfélaginu. Með því að efla tækifæri fyrir innflytjendur til virkrar þátttöku í samfélagslífi, menningu og stjórnsýslu getur Hafnarfjörður orðið enn sterkari og samheldnari bær. Það er ekki aðeins verkefni bæjarins heldur allra íbúa að leggja sitt af mörkum til að skapa umhverfi þar sem allir fá tækifæri til að blómstra, óháð uppruna.“
Svæðisskipulag verði endurskoðað
Mikið hefur verið byggt í Hafnarfirði á síðustu árum. Þar bendir Valdimar á nýjar byggðir í Skarðshlíð, Hamranesi og 4. hluta Áslands ásamt því sem byggð hefur verið þétt þar sem við á og er hægt. Í Skarðshlíð eru um 570 íbúðir, Í Hamranesi um 1.900 og í Áslandi eru þær tæplega 450.
„Við erum ekki á nægilega góðum stað þegar kemur að nýju landi til uppbyggingar, en eins og staðan er núna í Hafnarfirði þá er eitt svæði eftir og það er Vatnshlíðin þar sem gera má ráð fyrir um 600 íbúðum. Við erum að hefja þá vinnu af krafti, þar er svæði sem er gott til þróunar enda í mjög miklum tengslum við einstaka náttúru og útivistarperlur í upplandinu. Þetta er okkar síðasta svæði til ársins 2040. Því er mikil þörf á að taka svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins til endurskoðunar hvað þetta varðar. Húsnæðismál eru áfram mikil áskorun og við þurfum að vera með augun á boltanum hvað það varðar.“
Framsókn á bakland
Valdimar er annar tveggja bæjarfulltrúa Framsóknarflokksins í Hafnarfirði. Um flokkinn er það að segja að útkoman í alþingiskosningum á dögum var slök; til að mynda tapaði Framsókn báðum sínum bæjarfulltrúum í Suðurkjördæmi.
„Niðurstaða nýliðinna þingkosninga er auðvitað vonbrigði fyrir flokkinn í heild um land allt,“ segir Valdimar. „Hins vegar hefur átt sér stað mikið uppbyggingarstarf hjá flokknum hér í Hafnarfirði alveg frá 2014. Við eigum gott bakland sem hefur stækkað mikið og við ætlum að halda áfram að rækta það og stækka. Það á enginn neitt í stjórnmálum og ég hef þá trú að flokkurinn nái aftur fyrri styrk og bæti við sig. Við í Framsókn munum halda áfram að vinna vel fyrir fólkið í landinu.“
Fallegur er Fjörðurinnn
Hér var ég strax velkominn
„Margir staðir hér í Hafnarfirði eru í sérstöku uppáhaldi hjá mér,“ segir Valdimar Víðisson aðspurður um áhugaverð kennileiti í bænum.
„Ef ég ætti að tiltaka einhver sérstök þá eru það Hvaleyrarvatn, miðbærinn okkar og Flensborgarhöfn. Við hjónin förum reglulega í göngu við vatnið, dásamlegt að eiga þessa náttúruperlu í bakgarðinum. Miðbærinn okkar er lifandi og skemmtilegur og fátt meira endurnærandi en kvöldganga í Flensborgarhöfn og meðfram sjávarsíðunni. Ég flutti í Hafnarfjörð árið 2008 og fann strax að hér var ég velkominn. Kominn heim. Yndislegt fólk og fallegur bær. Ég hlakka mikið til samstarfsins við Hafnfirðinga.“