Myndin Maður og kona sýnir Gunnlaug og fyrri konu hans, Inger Löchte. Málverkið er nokkuð tvískipt, konan er dregin mjúkum línum og máluð með björtum, heitum litum, en karlmaðurinn að hluta til í skugga og útlínur hans og andlitsdrættir kaldari, strangari og harðari. Innan verksins teflir Gunnlaugur saman andstæðum litum; rauðum og grænum líkt og fávistar gerðu, en hér er litanotkun öllu hófstilltari og dempaðri. Það er líkt og karlmaðurinn feli í sér norrænan og þyngri bakgrunn málarans, en konan búi yfir mýkt, birtu og léttleika mildari slóða. Leiðir þeirra hjóna skildi eftir að Gunnlaugur fór til Íslands við upphaf síðari heimsstyrjaldar en mæðginin Inger og Björn urðu eftir í Danmörku. Skipsferð Gunnlaugs reyndist sú síðasta á milli landanna um langt skeið. Gunnlaugur Blöndal lærði tréskurð hjá Stefáni Eiríkssyni, stundaði nám við Teknisk Selskabs Skole í Kaupmannahöfn og loks málaralist hjá Christian Krohg við Listaháskólann í Osló 1916-1918. Eftir Oslóardvölina flutti Gunnlaugur til Parísar og bjó þar og á Ítalíu um nokkurra ára skeið um miðjan þriðja áratuginn, auk þess sem hann ferðaðist víða. Á tímum Gunnlaugs í París var afturhvarf í myndlist ríkjandi. Kúbisminn og villt litagleði fávismans höfðu runnið sitt skeið og málarar sóttu aftur á klassískari mið. Framsæknir listamenn sóttu söfn í leit að innblæstri frá list liðinna alda og var það mikill viðsnúningur. Litanotkun fávista var þó meðal þess sem hafði áhrif á list Gunnlaugs. Í París lærði Gunnlaugur hjá André Lhote og Fernand Leger, en heillaðist meira af verkum Moïses Kisling sem hann sótti tíma hjá og málverkum Modiglianis. Portrettmyndir voru vinsælar og Gunnlaugur naut velgengni í þessu alþjóðlega umhverfi, einnig var honum ákaflega vel tekið hérna heima. Hann kom með ferskt litróf inn í íslenska málaralist, myndir hans skáru sig úr; munúðarfullar, litríkar og leikandi.