30 ára Ivana er fædd og uppalin í Reykjavík en á rætur að rekja til Serbíu, þaðan sem foreldrar hennar fluttu þegar móðir hennar, Tanja, spilaði knattspyrnu hér á landi. Ivana útskrifaðist af hagfræðibraut Verzlunarskóla Íslands og lauk mag

30 ára Ivana er fædd og uppalin í Reykjavík en á rætur að rekja til Serbíu, þaðan sem foreldrar hennar fluttu þegar móðir hennar, Tanja, spilaði knattspyrnu hér á landi. Ivana útskrifaðist af hagfræðibraut Verzlunarskóla Íslands og lauk mag. jur.-prófi í lögum frá Háskóla Íslands árið 2020 með hæstu meðaleinkunn á slíku prófi frá upphafi en á námsferli sínum hlaut hún jafnframt öll verðlaun sem veitt eru fyrir námsárangur við deildina.

Að útskrift lokinni starfaði hún sem lögfræðingur hjá umboðsmanni Alþingis uns hún lagði land undir fót í ágúst 2023 er hún hóf nám við Harvard-háskóla. „Þar var ég hluti af fjölbreyttum árgangi sem samanstóð af 180 nemendum frá 68 löndum. Námið gaf mér einstakt tækifæri til að víkka sjóndeildarhringinn og var mjög lærdómsríkt.“

Ivana útskrifaðist frá Harvard með LL.M.-gráðu í lögum í maí 2024 og starfar nú sem aðstoðarmaður dómara við Landsrétt og stundakennari við lagadeild Háskóla Íslands. „Ég hef lagt áherslu á ríkisrétt og mannréttindi en finnst flestallar greinar lögfræðinnar áhugaverðar. Ég stefndi á laganám frá unga aldri en á tímabili ætlaði ég mér að verða flugmaður. Ég er fegin því að hafa valið lögfræðina en útiloka ekki að læra að fljúga einn daginn.“

Í frítíma sínum nýtur Ivana þess að lesa góðar bækur, ferðast og hlaupa en hún hyggst hlaupa maraþon á hinu nýja aldursári.


Fjölskylda Maki Ivönu er Jónatan Hróbjartsson, f. 1994, lögmaður. Foreldrar hennar eru hjónin Stojanka Tanja Nikolic, deildarstjóri á leikskóla, og Goran Valdimar Nikolic rennismiður, búsett í Reykjavík. Yngri systir Ivönu er Katarina Tina Nikolic, nýútskrifaður lögfræðingur.