Einn særðist lífshættulega í hnífaárás á öðrum tímanum á nýársnótt á Kjalarnesi. Hann gekkst undir læknisaðgerð í gær og hefur verið útskrifaður af gjörgæslu en liggur enn á sjúkrahúsi. Auk hans hlutu tveir aðrir alvarlega áverka

Einn særðist lífshættulega í hnífaárás á öðrum tímanum á nýársnótt á Kjalarnesi. Hann gekkst undir læknisaðgerð í gær og hefur verið útskrifaður af gjörgæslu en liggur enn á sjúkrahúsi. Auk hans hlutu tveir aðrir alvarlega áverka. Maður á fimmtugsaldri var úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald vegna málsins.

Árásarmaðurinn réðst á mennina þrjá og handtók lögreglan hann en alls voru þrír vistaðir í fangaklefa vegna málsins. Allir eru þeir á fimmtugsaldri.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var með mikinn viðbúnað á svæðinu en að auki var sérsveit ríkislögreglustjóra með viðbúnað.

Ekki liggur fyrir hver tildrög árásarinnar eru en svo virðist sem einhver ágreiningur hafi komið upp milli mannanna og hnífi beitt.