— Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Margir litu við og sumir með söknuði þegar bensínstöð N1 við Skógarsel í Breiðholti í Reykjavík var lokað á gamlársdag. Einn þeirra var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson alþingismaður og formaður Miðflokksins, sem þarna var dælustrákur á árunum 1990-1995

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Margir litu við og sumir með söknuði þegar bensínstöð N1 við Skógarsel í Breiðholti í Reykjavík var lokað á gamlársdag. Einn þeirra var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson alþingismaður og formaður Miðflokksins, sem þarna var dælustrákur á árunum 1990-1995.

„Hér átti ég samstarfsmenn sem sáu hluti í skemmtilegu ljósi og voru betur að sér en ýmsir sérfræðingar. Reynslan hefur líka kennt mér að góðar hugmyndir að ýmsum framfaramálum koma oft úr þessari átt,“ sagði Sigmundur Davíð þegar Morgunblaðið hitti hann í Skógarseli. Þar rifjaði hann upp gamla takta á dælunni undir leiðsögn Halldórs Halldórssonar starfsmanns N1.

Á stöðinni segist Sigmundur hafa kynnst fjölda fólks. „Einn fastakúnninn borgaði alltaf fyrir bensínið með klinki sem hann tíndi úr buxnavöxum. Svo gekk hann út, ók af stað, en dælubyssan var enn í bílnum. Bensínið sullaðist um allt og eftir smástund kom slökkvliðið á öllum ljósum og sprautaði froðu yfir svæðið,“ lýsir Sigmundur.

Bensínstöðin í Skógarseli er ein þriggja slíkra í Breiðholti sem aflagðar verða. Þetta segir Sigmundur Davíð áhyggjuefni; málið snúist um meira en eldsneyti. „Bensínstöðvar meðal annars eru staðir sem íbúar í hverju hverfi sækja, miðstöðvar þar sem fólk tengist saman. Og hér skammt frá í Mjódd er græna vöruskemman sem hefur verið mikið í fréttum að undanförnu; kannski á þá að byggja stóran kassa hér í staðinn. Þetta er mikil skammsýni,“ segir Sigmundur Davíð, áður bensínstrákur og forsætisráðherra.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson