Þýskaland
Gunnar Egill Daníelsson
gunnaregill@mbl.is
„Þetta bar þannig til að Erlangen hafði samband við Leipzig í byrjun desember og vildi fá mig. Þá fara einhverjar viðræður af stað milli liðanna og Erlangen kemur með mjög gott tilboð til Leipzig, sem Leipzig síðan á endanum samþykkir,“ sagði Viggó Kristjánsson landsliðsmaður í handknattleik í samtali við Morgunblaðið.
Örvhenta skyttan skipti núna um áramótin frá Leipzig til Erlangen, en bæði lið leika í þýsku 1. deildinni. Þar eru þau í ólíkri stöðu; Leipzig er í 12. sæti með 14 stig en Erlangen er í 17. sæti, fallsæti, með aðeins fimm.
„Þá var það í mínum höndum hvað ég vildi gera og ég fer að tala við Erlangen. Þá fannst mér það spennandi og ákvað að slá til. Það skipti líka máli að Leipzig er búið að vera í smá fjárhagsörðugleikum, kannski ekki vandræðum en smá örðugleikum, síðustu mánuði þannig að þeir voru sennilega ánægðir að fá góða summu fyrir mig.
Því skiljum við alveg í góðu,“ hélt Viggó áfram og kvaðst spenntur fyrir því að halda frá Leipzig, fjölmennustu borg Saxlands, og flytja til Bæjaralands.
„Erlangen er 120.000 manna borg sem er í stundarfjórðungs akstursfjarlægð frá Nürnberg, sem er stórborg. Liðið spilar alla leikina sína í Nürnberg þar sem höllin er. Liðið æfir í Erlangen en allir leikirnir eru í Nürnberg þannig að þeir gefa sig út fyrir að vera lið fyrir allt þetta svæði,“ sagði hann um nýja aðsetrið.
Lítur kannski þannig út
Spurður hvort hann hafi verið að íhuga að færa sig um set sagði Viggó:
„Ég var með langan samning við Leipzig. Ég átti tvö og hálft ár eftir af honum. Að því leytinu til, þegar maður er í þannig stöðu, er erfitt að vera að horfa í kringum sig, en það hefur alltaf verið markmið mitt að reyna að komast sem lengst í þessu.
Á pappír lítur þetta kannski út eins og skref niður á við en ég er að vona að ég nái að hjálpa til við að rífa gengið upp hjá liðinu og að þetta verði betra strax á næsta tímabili.
En þetta voru það miklir peningar sem Leipzig vildi fá og það þurfti lið í einhverri sérstakri stöðu til þess að vilja punga þessu út. Þannig að þetta var eiginlega eina leiðin.“
Missti af jólunum
Föstudaginn 27. desember stóð til að Leipzig myndi kveðja Viggó formlega áður en hann héldi til Erlangen. Það reyndist þó ekki mögulegt fyrir hann.
„Það hefði verið gaman að ná síðasta heimaleiknum og kveðja liðsfélaga og stuðningsmenn en ég var bara fárveikur.
Við spiluðum útileik 23. desember. Ég var búinn að vera slappur fyrir leikinn og eftir hann veiktist ég mikið. Ég endaði meira að segja á bráðamóttöku á aðfangadagskvöld þannig að ég missti af jólunum með fjölskyldunni.
Ég er ánægður með að vera orðinn nokkuð hress, ég er ekki alveg búinn að ná mér en þetta er svona allt að koma. Þótt ég hafi misst af leiknum var ég ekkert mikið að spá í handboltann, mig langaði bara að ná heilsu,“ útskýrði Viggó.
Hjá Leipzig er Rúnar Sigtryggsson þjálfari og sonur hans Andri Már er leikmaður.
Var erfitt að kveðja feðgana?
„Út af þessum veikindum náðist það ekkert almennilega. Ég flaug heim 28. desember þannig að það náðist ekki almennilega að kveðja þá. Ég á eftir að heyra betur í þeim feðgum en ég held að þeir plumi sig áfram þótt ég sé farinn!“ sagði Viggó í léttum tón.
Gerðu allt til þess að landa mér
Erlangen er þremur stigum frá öruggu sæti þegar tímabilið í þýsku deildinni er hálfnað. Líkt og hann benti sjálfur á lítur fyrir fram út fyrir að um skref niður á við sé að ræða. En hvað var það við Erlangen sem heillaði?
„Það sem heillaði mig var að þeir gerðu allt til þess að landa mér og settu mjög mikið í þetta. Svo er þetta klúbbur sem er með nánast allt til þess að ná árangri. Þeir eru með risahöll, stóran áhorfendahóp, fjárhagslega vel stæðir og leikmannahópurinn er ágætur.
Hópurinn mætti auðvitað vera betri en hann er bara fínn. Það hefur bara vantað einn til tvo betri leikmenn í viðbót til þess að hífa þetta lið allavega upp í miðja töflu. En ég horfi á þetta á tvo vegu.
Annars vegar er þetta gluggi til þess að halda áfram að standa mig og rífa þetta lið hærra upp og svo er þetta líka gluggi til þess að komast eitthvað annað í framtíðinni. Inni í þessum samningi er ég með ákvæði um að geta farið annað, sem ég var þá ekki með í samningnum hjá Leipzig.
Það spilaði líka inn í. Mér finnst þessi klúbbur hafa mjög mikið, það hefur bara vantað upp á árangurinn,“ sagði Viggó.
Hækkar í launum
Spurður hvort hann hækki í launum hjá Erlangen sagði Viggó:
„Já, auðvitað hækkar maður eitthvað í launum. Auðvitað er maður ekki að fara út í eitthvað svona nema það passi allt, það verður að gera það. Maður er ekki að flytja og rífa fjölskylduna upp frá rótum nema það sé þess virði. Það segir sig sjálft.
Auðvitað hækkar maður eitthvað í launum og það spilar auðvitað inn í. Þetta hjálpar til en ég var ekki á neitt lélegum samningi í Leipzig. Þetta hafði ekkert stærstu áhrifin.“
Meiri ábyrgð á mínum herðum
Hann mun ekki spila fyrsta leik sinn fyrir Erlangen fyrr en í febrúar þar sem stórmót er fram undan með íslenska landsliðinu, HM 2025 í Króatíu, Noregi og Danmörku. Fyrirséð er að Viggó muni gegna stærra hlutverki en oft áður þar sem Ómar Ingi Magnússon, sem einnig leikur í stöðu hægri skyttu, er meiddur og tekur ekki þátt í mótinu.
„Ég held að það sé óhætt að segja að það sé kominn fiðringur í mig. Ég er bara að reyna að ná þessari flensu úr mér áður en við byrjum að æfa. Við byrjum að æfa eftir áramót [í dag]. Það er spennandi.
Það er meiri ábyrgð á mínum herðum í ár en oft áður vegna meiðslanna hjá Ómari. Ég ætla að gera mitt besta, reyna að standa undir því og hjálpa liðinu sem mest. Ég er mjög spenntur. Það eru allir vegir færir í þessu,“ sagði hann.
Hverju telur þú að þetta íslenska lið geti áorkað á HM?
„Auðvitað vill maður segja að það sé markmið hjá okkur að fara alla leið en maður hefur upplifað nokkur vonbrigðamót, mót þar sem maður hélt að við værum að fara að vinna einhver verðlaun og allt það.
Ég ætla bara að henda klisju í þig og segja að við ætlum að taka einn leik í einu!“ sagði Viggó Kristjánsson að lokum í samtali við Morgunblaðið.