Viðsjár eru víða um heim og tryllt öfl ekki lengur svo ýkja fjarlæg. Við eigum því bæði undir sjálfum okkur og öðrum að halda álögum þeirra og áhrifum í skefjum. Vert er að spyrja hvernig Íslendingar geta best staðið fyrir og með friði í heimi sem ófriður ógnar. Þetta sagði Halla Tómasdóttir forseti Íslands í nýársávarpi sínu í gær.
„Nýársdagur er dagur vona og fyrirheita, dagur nýs upphafs þar sem allt er kvikt og ungt, og við hugsum af stórhug um framtíð og af hlýju um fortíð, nýr dagur með gamlar rætur, svolítið eins og íslensk þjóð sem á sér langa sögu en er þó um leið ung í samfélagi sjálfstæðra þjóða. Í aðra röndina er þjóðarsálin eins og unglingur sem enn er að þroskast og verða til með aragrúa hugmynda í kollinum. Í hina röndina aldagamall reynslubolti,“ sagði forseti. Nefndi hún enn fremur að mótlæti sem Grindvíkingar tækjust á við setti hversdagslegar áskoranir í nýtt samhengi. Þá blöstu við önnur stór verkefni, svo sem vaxandi vanlíðan, einmanaleiki og ofbeldi.
„Við þessu þurfum við að bregðast með samstöðu um það sem skiptir okkur öll máli: heilbrigt samfélag þar sem allir fá notið sín. Íslendingar þekkja bæði dimma dali og miðnætursól. Í mínum huga er okkar helsti styrkur hvernig við mætum til leiks þegar á reynir. Í samfélagi okkar eru ótal dæmi um riddara kærleikans, sjálfboðaliða sem leggja á sig ómælda vinnu.“
Um kosningar í nóvember sl. og stjórnarmyndun sagði forseti að einsdæmi væri að þrjár konur hefðu leitt för. „Ég lít á það sem skref í átt til jafnréttis á sviði þar sem mjög hefur hallað á konur í gegnum tíðina. Aukin fjölbreytni góðra fyrirmynda er mikilvæg og fjölgun leiðtoga úr hópi kvenna á öllum sviðum þjóðlífsins skiptir máli. Í stjórnmálum eins og hvarvetna er þörf á aukinni mýkt og mennsku í almennum viðhorfum og leit að lausnum. Þótt slík viðhorf séu oft tengd við konur, þá eru þau óháð kyni og mikilvægt að efla þau,“ sagði Halla Tómasdóttir.