Lífsreynsla Ungt fólk fær mikið út úr því að stunda sjósókn, að sögn Bryndísar.
Lífsreynsla Ungt fólk fær mikið út úr því að stunda sjósókn, að sögn Bryndísar. — Ljósmynd/Bryndís Ólafsdóttir
„Mér fannst krakkarnir sýna mikla hörku og þau kynntust flottri hlið á sjálfum sér og geta stolt sýnt fram á í ferilskránni sinni að hafa unnið við sjómennsku,“ segir Bryndís Ólafsdóttir um sérstakar veiðar í Noregi sem ætlaðar eru ungu fólki

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

„Mér fannst krakkarnir sýna mikla hörku og þau kynntust flottri hlið á sjálfum sér og geta stolt sýnt fram á í ferilskránni sinni að hafa unnið við sjómennsku,“ segir Bryndís Ólafsdóttir um sérstakar veiðar í Noregi sem ætlaðar eru ungu fólki. Bryndís segist ekki í vafa um þá miklu kosti sem fylgja umræddu kerfi í Noregi og ber því vel söguna af eigin raun og barna sinna.

Í desemberblaði 200 mílna var fjallað um þessar ungmennaveiðar sem ætlaðar eru einstaklingum á aldrinum 12-25 ára og er ætlunin að kynna þeim sjósókn. Þátttakendum hefur fjölgað þar í landi síðustu ár sem og þeim sem eru 29 ára og yngri og hafa sjósókn að aðalstarfi. Bent var á að ekkert sambærilegt væri starfrækt hér á landi og því velt upp hvort tilefni væri til að innleiða einhvers konar ungmennaveiðar á Íslandi.

Engin elsku mamma

„Ég vann á trillu sem réri út frá Mehamn með um það bil 20 unglinga. Ég var aðstoðarmaðurinn sem verður að vera um borð ásamt eiganda og skipstjóra trillunnar,“ segir Bryndís spurð hvernig þessu kerfi sé háttað. Sjálf gerir hún út trillu frá Mehamn í Norður-Noregi, en fjölskyldan flutti til Noregs árið 2013.

„Börnin mín unnu bæði um borð og unnu sér inn 600.000 krónur (íslenskar) á þremur og fjórum túrum á línuveiði þar sem þorskur er aðallega veiddur,“ segir Bryndís og útskýrir að síðastliðið sumar hafi verið annað sumar barnanna tveggja á veiðunum, en þau eru nú 16 ára og eru í framhaldsskóla á Íslandi.

Hún kveðst ekki í vafa um að þátttaka þeirra í veiðum sem þessum hafi verið af hinu góða. „Það var engin elsku mamma og þau geta státað sig af því að hafa farið túrana, verið sjóveik og unnið allan tímann við að blóðga fisk og séð um allt annað eins og línuupptökuna og það sem því fylgir.“

Ekki mikið þyngri en þorskurinn sem þau veiddu

Allir þeir sem sóttu sjóinn urðu að takast á við einhverja erfiðleika, að hennar sögn. „Flest ungmennanna voru sjóveik, mismikið þó, og hörkuðu það af sér. Enginn komst upp með að vinna ekki, nema ef þau voru bara hálfrænulaus. Sá einstaklingur fékk annan séns, en ef hann gat ekki unnið, þá fékk hann ekki að fara fleiri túra. Einungis tvö þurftu að gefast upp vegna sjóveiki.“

Bryndís kveðst hafa heillast af þessari ungmennaveiði og ekki síður iðjusemi og kjarki sem þátttakendur sýndu. „Ég var svo hrifin af þessu þar sem krakkarnir voru af allri líkamsgerð og þorðu að koma og spreyta sig þótt þau væri ekki mikið þyngri en þyngsti þorskurinn sem þau blóðguðu.“

Ótvíræður kostur

Spurð hvort hún telji sérstaka veiði sem þessa geta hentað Íslendingum segir Bryndís svo vera. „Ef það er markmiðið að fá einhvers konar nýliðun í greinina er það ekki spurning. Þetta hefur haft mikil áhrif í Noregi.“

Helsti hvatinn fyrir unga fólkið í veiðum sem þessum er að þau fá að halda öllu aflaverðmætinu sem sýni þeim hvernig hægt sé að framfleyta sér með eigin framtaki.

En ef aflaverðmætið fer til unglinganna, hvernig finnast bátar til að sigla með þá á miðin?

Bryndís útskýrir að útgerðirnar fái greitt frá sveitarfélaginu fyrir þátttöku sína, en allir hagnist á því að yngri kynslóðir leiti í sjómennsku.