Gylfi Pálsson, skólastjóri, þýðandi og þulur, lést á Hjúkrunarheimilinu Eir 28. desember sl. 91 árs. Gylfi fæddist á Eyrarlandsvegi 24 á Akureyri 1. febrúar 1933, sonur Sigríðar Oddsdóttur, símadömu og húsfreyju, og Páls Sigurgeirssonar, stórkaupmans í Braunsverslun og Vöruhúsinu

Gylfi Pálsson, skólastjóri, þýðandi og þulur, lést á Hjúkrunarheimilinu Eir 28. desember sl. 91 árs.

Gylfi fæddist á Eyrarlandsvegi 24 á Akureyri 1. febrúar 1933, sonur Sigríðar Oddsdóttur, símadömu og húsfreyju, og Páls Sigurgeirssonar, stórkaupmans í Braunsverslun og Vöruhúsinu.

Eftir skólaskyldu, þegar Gylfi var 14 ára, fór hann í Menntaskólann á Akureyri og útskrifaðist þaðan sem stúdent 1952. Árin eftir stúdentsprófin fóru í sjómennsku og vinnu á síldarplönum.

Gylfi útskrifaðist árið 1963 frá Háskóla Íslands með BA-próf í mannkynssögu og bókasafnsfræði ásamt prófi í uppeldis- og sálarfræðum til kennsluréttinda. Hann var kennari við Réttarholtsskóla á árunum 1958-1966. Árið 1960 fluttist Gylfi með fjölskyldu sína í Mosfellssveit þar sem bjuggu þau til 1998. Árið 1966 varð Gylfi skólastjóri Gagnfræðaskólans á Brúarlandi, sem síðar varð Gagnfræðaskóli Mosfellssveitar/-bæjar, og gegndi því starfi til ársins 1991.

Gylfi gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir sveitarfélagið á árunum sem hann var skólastjóri. Hann lauk afskiptum sínum af fræðslumálum er hann starfaði á Fræðsluskrifstofu Reykjanesumdæmis árin 1991-94, síðast sem forstöðumaður rekstrardeildar.

Gylfi var einnig leiðsögumaður og sótti fyrsta námskeið fyrir leiðsögumenn sem haldið var á Íslandi sem var á vegum Ferðaskrifstofu ríkisins árið 1963. Hann stundaði leiðsögn fyrir erlenda ferðamenn á sumrin næstu árin. Gylfi var ekki síst kunnugur fyrir störf sín hjá Ríkissjónvarpinu er hann var þýðandi og þulur margra fræðslu- og sjónvarpsþátta um dýralíf og sögu, hann starfaði þar frá upphafi sjónvarps á Íslandi til ársins 1991. Á síðustu árum fékkst hann við ritstörf og prófarkalestur.

Gylfi var stangveiðimaður af líf og sál og gegndi fjölda trúnaðarstarfa fyrir stangveiðisamfélagið á Íslandi. Árið 1955 kvæntist Gylfi Steinunni Katrínu Theodórsdóttur meinatækni og áttu þau sex börn, Kristínu, Þóru, Snorra, Kára, Teit og Trausta. Steinunn lést 2020. Afkomendur Gylfa eru 29.