Elín Jónsdóttir fæddist á Þórustöðum í Önundarfirði 10. september 1940. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Eir 26. nóvember 2024.
Foreldrar hennar voru Jón Jónsson bóndi og sjómaður frá Neðri-Breiðadal, Holtssókn, f. 20. apríl 1898, d. 6. september 1967, og Elín Hólmgeirsdóttir húsfreyja frá Tungu í Firði, Mosvallahreppi, f. 7. mars 1907, d. 25. janúar 1967.
Bræður Elínar eru Hólmgeir, f. 27. mars 1931, d. 19. júní 2012, Jón Friðgeir, f. 22. desember 1932, Magnús, f. 23. ágúst 1948, og Halldór, f. 27. nóvember 1950, d. 22. desember 2007.
Elín giftist 22. apríl 1971 Hartmanni Þorbergssyni, f. 3. mars 1935, d. 31. maí 1981. Börn þeirra eru Brynjar Már, f. 1973, kona hans er Stephanie McMillan, f. 1977, og Elín Erna, f. 1976, maður hennar er Riku Anttila, f. 1976. Börn þeirra eru Saga Elín, f. 2008, og Kia Isabel, f. 2011. Sonur Hartmanns úr fyrra sambandi er Jón Rúnar, f. 1957.
Elín ólst upp í Önundarfirði. Hún gekk fyrst í skóla í Holti í Önundarfirði og svo í Reykjanesi. Síðar fór hún í Kvennaskólann á Blönduósi einn vetur og þá í kennaranám í Reykjavík. Draumastarfið var að verða handavinnukennari en henni tókst ekki að klára námið sökum veikinda.
Útförin fer fram í Fossvogskirkju í dag, 2. janúar 2025, klukkan 13.00.
Ég hef ekki enn haft mig í það að opna jólapakkann frá þér elsku mamma. Það er eitthvað svo skrítið að sjá „frá mömmu“, vitandi að það er í síðasta sinn. Ég finn fyrir einhvers konar nærveru við að lesa á miðann.
Þú brallaðir svo margt um ævina þrátt fyrir erfiðar aðstæður.
Elstu minningarnar eru hversu dugleg þú varst að gera hluti með okkur litlu systur. Hjálpa mér að búa til búmerang og smíða flugdreka, reglulegar útilegur í tjaldvagninum.
Alla þína tíð passaðir þú upp á þá sem minna máttu sín. Bæði dýr og menn. Ég á fallega mynd af þér og Dóra bróður þínum frá því þið voruð krakkar. Seinna meir passaðir þú upp á að heimsækja hann reglulega og hann var alltaf kátur þegar við komum. Okkur krökkunum þótti það ekki spennandi á þeim tíma en nú skiljum við þær góðu minningar sem þú bjóst til.
Málleysingjar voru þér kærir og hændust gjarnan að þér. Ég vil meina að það hafi ég fengið frá þér líka. Steff hefur sagt mér að hún hafi verið búin að ákveða að sjá hvernig hundarnir hennar tækju mér áður framhaldið væri skoðað. Ég náði að dáleiða þá strax og síðan eru nær 14 ár.
Snemma fyrir jól voru alltaf bakaðar púðursykurskökur, en oftar en ekki þurfti að endurtaka leikinn seinna í desember því „mús“ náði að komast í kökurnar. Eitt árið stakk ég upp á að setja poppbaunir í nokkrar kökur til að hrekkja „músina“. Auðvitað var það ég sem féll á eigin bragði því músin hét Brynjar.
Þrátt fyrir afar hamlandi veikindi léstu þau ekki aftra þér frá að ferðast um Ísland og fara margsinnis til útlanda. Saman skruppum við til Írlands (sem þú sagðir að væri nærri hjarta þínu), til Finnlands að kíkja á litlu systur og til Bretlands til að kíkja á Siggu frænku í Camden.
Ein dreifstu þig í enskuskóla á Bretlandi, rútuferð til Noregs og aftur í heimsókn til Finnlands.
Hlýlegt er að hugsa til fallegrar vináttu þinnar og „nöfnu þinnar“ eins og þú kallaðir hana Elínu alltaf. Alveg yndislegt að heyra hvernig þið töluðuð hvor um aðra sem og krakkana. Ekki laust við að ég fyndi til stolts þegar ég heyrði af því að Sjana væri að leita til þín hvað varðar íslenskt mál og söngtextana.
Stærsta og óeigingjarnasta gjöf þín var að sjá til þess að við börnin þín fengjum þau tækifæri sem þú varðst af.
Þú varst fróðleiksfús og vildir hafa haldið lengra í námi en í boði var. Nám var því heilagt fyrir þér. Mér fannst gjarnan sem unglingur að ég gæti leikið á þig með því að segjast „ætla að fara inn í herbergi til að læra“ þegar ég nennti ekki einhverjum heimilisstörfum. Það skilaði mér þó þeirri menntun sem hefur gert mér kleift að lifa góðu lífi og finna ást í öðru landi.
Vertu sæl að sinni elsku mamma.
Brynjar Már
Hartmannsson.
Ég hef lengi vitað að þessi dagur væri að koma en það gerir hann samt ekkert auðveldari, daginn sem ég kveð þig í hinsta sinn. Þegar ég hugsa yfir æviskeið þitt kæra mamma finnst mér stundum eins og þú hafir átt níu líf rétt eins og kötturinn. Fyrst fékkstu bráðaofnæmið, svo heilablóðfallið, makamissir, annað heilablóðfall, þegar þú dast svo illa. Áföllin voru mörg og miserfið en þú klóraðir þig alltaf fram úr þeim og hélst áfram.
Þú krafðist aldrei nema eins af mér: að ég menntaði mig. Skóli og menntun höfðu verið svo dýrmæt fyrir þig, þér tókst ekki að klára þá menntun sem þig dreymdi um en í staðinn fyrir það passaðir þú upp á að ég kláraði stúdentinn svo vegurinn fram á við yrði mér greiður.
Þú hafðir yndi og unun af handavinnu, hljóðið sem kom úr skærunum þegar þú klipptir efni til sauma er eitt yndislegasta hljóðið úr slagverki æsku minnar. Þegar ég var í kórnum í framhaldsskóla þá áttum við að sauma á okkur kjóla. Ég hafði aldrei saumað neitt slíkt. Þú leiddir mig áfram skref fyrir skref og ég var svo stolt af kjólnum sem við saumuðum.
Ég fluttist úr landi svo samverustundum okkar fækkaði en þær lifa allar enn í minningunni. Ég kom með dætur mínar og við áttum með þér yndisleg jól á Lindargötunni 2017. Rétt eins og jólin úr æsku minni lásum við góðar bækur, slökuðum á og borðuðum góðan mat. Það voru ekki margar samverustundir sem þú áttir með barnabörnunum þínum en þær voru allar dýrmætar. Einhvers staðar eigum við mynd af því þegar þú sast og perlaðir með þeim. Þú dreifst þig með okkur í fjölskyldu- og húsdýragarðinn, komst yfir af Hátúninu á rafskutlunni. Þegar stelpurnar voru minni bauðstu þeim að rúnta með þér á skutlunni.
Ég kveð þig elsku mamma, þú áttir ekki mikið í þessu lífi en þú gafst mér það allt og meira en það. Hvíldu í friði, minning þín lifir í hjarta mér.
Elín Erna Hartmannsdóttir.