Frumhönnun Miðað er við að lægri hluti byggingarinnar verði 5 hæðir en sá hærri 10 hæðir.
Frumhönnun Miðað er við að lægri hluti byggingarinnar verði 5 hæðir en sá hærri 10 hæðir. — Teikningar/THG arkitektar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Jónas Þór Jónasson, framkvæmdastjóri 105 Miðborgar, segir það munu skýrast á næstu mánuðum hvort byggt verði hótel vestast á Kirkjusandi. Meðal annars verði tekið mið af ganginum í ferðaþjónustunni á komandi ári.

„Þetta er einstakt tækifæri til að ljúka þessari uppbyggingu við strandlengjuna með flottu hóteli. Hótelið yrði kennileiti fyrir Kirkjusandinn og Borgartúnið enda á hornlóð við hafið,“ segir Jónas Þór og sýnir blaðamanni frumhönnun að hóteli sem unnin var af Frey Frostasyni, arkitekt hjá THG arkitektum.

Nú er miðað við að byggingin verði tvískipt í 5 hæðir og 10 hæðir og með lokuðum inngarði. Gert er ráð fyrir 285 herbergjum og yrði hótelið þá það þriðja stærsta á landinu í herbergjum talið. Samkvæmt teikningum er byggingin um 8.450 fermetrar ofanjarðar og um 1.500 fermetrar neðanjarðar. Miðað er við 100 stæði í bílakjallara og 19 bílastæði ofanjarðar.

Félagið 105 Miðborg er með um helming af byggingarmagni á Kirkjusandi, rúmlega 40 þúsund fermetra. Félagið er fagfjárfestasjóður í rekstri og stýringu Íslandssjóða.

Morgunblaðið hefur fjallað um þessi hóteláform. Nú síðast í febrúar sl. en þá kom fram að þau hefðu verið sett á ís vegna óvissu í ferðaþjónustu í kjölfar jarðhræringanna við Grindavík.

Á ís allt árið 2024

Jónas segir verkefnið hafa verið á ís allt árið 2024. Tímaáætlanir hafi því breyst og stjórnendur 105 Miðborgar tekið þá ákvörðun að byggja ekki hótelið heldur selja lóðina. Félagið sé enda að ljúka uppbyggingu 115 íbúða við hlið hótellóðarinnar sem sé síðasta óbyggða lóðin í eigu þess á svæðinu.

„Við vorum með áætlanir í fyrra um að halda áfram með verkefnið síðasta vor. Það er hins vegar ekkert launungarmál að sett var spurningarmerki við ferðaþjónustuna eftir atburðina í Grindavík í lok ársins 2023,“ segir Jónas Þór. Færri ferðamenn hafi komið til landsins síðustu vikur ársins 2023 og á fyrri hluta ársins 2024 en áætlað var.

Bíða og sjá

„Ferðaþjónustan tók hins vegar vel við sér á seinni hluta ársins sem er mjög jákvætt. Við bíðum eins og fleiri eftir því að sjá hvernig vöxturinn verður á komandi árum. Verðum við áfram með Íslandvöxt í ferðaþjónustunni eða erum við fara inn í hefðbundnari vöxt?“ spyr Jónas Þór.

Fyrirhugað hótel á Kirkjusandi bjóði upp á mikla möguleika.

„Þetta er frábær staður og með hliðsjón af fjölda herbergja ætti rekstur hótelsins að vera afar arðbær. Það ætti að vera mikill áhugi á því ef menn vilja almennt hefja hótelrekstur við miðbæinn,“ segir Jónas Þór og útskýrir að í Evrópu og víðar hafi vöxturinn í hótelgeiranum fyrst og fremst verið í hótelum af þessu tagi. Hótelum sem eru vel staðsett og með mörgum herbergjum miðað við fermetrafjölda. Hugmyndafræðin gangi að hluta út á sjálfsafgreiðslu, þar með talið á veitingum, og að vera ekki að reka dýra þjónustu.

„Hótelið yrði því rekstrarlétt en slík hótel eru einmitt í mestri gerjun í heiminum í dag, til dæmis Moxy-hótelin og Aloft-hótelin. Hótel með litlum herbergjum, sem eru vel staðsett í miðborgunum. Slík hótel hafa verið að koma mjög vel út í rekstri í Evrópu og í Bandaríkjunum og víða er nú mest byggt af slíkum hótelum. Síðustu ár hafa komið mörg fín og flott hótel á íslenska markaðinn en það vantar þessa vídd á markaðinn, sem eru minni og hagkvæmari hótel sem bjóða upp á hagkvæmari gistingu en á 5 stjörnu hótelunum,“ útskýrir Jónas Þór.

Fleiri kostir í stöðunni

Það muni skýrast á fyrri hluta næsta árs hvort gengið verði til samninga við aðila sem muni byggja hótel. Annaðhvort verði hótelverkefninu haldið áfram eða aðrir möguleikar skoðaðir, t.d. með uppbyggingu á skrifstofuhúsnæði eða blöndu af skrifstofuhúsnæði og íbúðum. Fyrirhugað hótel og nærliggjandi íbúðir eru á svonefndum F-reit, vestast á Kirkjusandi.

Bílakjallari verður undir reitnum og upplýsir Jónas Þór að 105 Miðborg muni ekki ljúka við bílakjallarann á hótellóðinni heldur eftirláta væntanlegum lóðarhöfum það verkefni. Félagið hafi þegar ráðist í jarðvegsskipti á hluta lóðarinnar til þæginda fyrir væntanlegan kaupanda og eins sé búið að byggja um 30 bílastæði á hótellóðinni.

Höf.: Baldur Arnarson